11. ágúst 2016

Allt fram streymir

Jæja, einhvers lags rútína er að komast á hjá okkur. Vaknað skömmu eftir klukkan 5 á morgnana. Ég stekk á fætur, nú eða dröslast framúr, fer í sturtu og útbý morgunverð fyrir okkur feðgana. Skömmu eftir klukkan sex erum við tveir sestir við morgunverðarborðið og spilum kasínu og ólsen-ólsen á meðan við borðum. Gulla stendur í nestisgerð á meðan. Svo rétt fyrir klukkan sjö leggjum við tveir af stað í skóla og vinnu. Það tekur nú ekki nema góðar fimm mínútur að komast í skólans hans Rúnars Atla, kannski átta mínútur. Hann á að vera mættur 7:15 í skólann og kennsla hefst hálfátta. Um það leyti er ég að leggja bílnum fyrir utan sendiráðið.

Já, lífið er í raun ekkert öðrum vísi í Afríku en á Íslandi. Ja, nema kannski að veðrið er yfirleitt þægilegra hjá okkur á suðurhvelinu. En kannski er það afstætt.

Í skólanum var „Stuðdagur“ síðasta klukkutímann eða tvo. Allskonar leikir og þess háttar til að „hrista hópinn saman“ eins og sagt er. Fór þetta fram í splunkunýju íþróttahúsi sem er við skólann. Þvílíkt gímald að það hálfa væri heljarinnar hús.


Í hádeginu í dag rölti ég í sælkerabúð sem er rétt hjá sendiráðinu. Eftir fimm ár í Lílongve er maður enn að venjast að hafa aðgang að þessum líka fínu sérverslunum sem eru hér í Mapútó. Þarna skoðaði ég mygluosta, snobbkex og mexíkóskar salsasósur. Já, og ekki má gleyma fínu guðaveigunum. Í þessari búð eru risavaxnar Dom Perignon kampavínsflöskur í efstu hillu og eldgamalt Hennessy koníak þar við hliðina. Ég hef nú ekki enn lagt í að spurja hvað þær dásemdir kosta.

Líka kíkti ég í bókabúð sem er á svipuðum stað í bænum. Þar fann ég fína portúgalska orðabók og líka sagnbeygingabók. Þarna inni voru allskonar bókmenntir á portúgölsku, frá teiknimyndasögum upp í heimsbókmenntir. Ætli maður kíki eftir oftar þarna inn þegar maður fer að slípast í málinu.

Við flutning eins og okkar er ýmis konar skriffinnska sem þarf að sinna til að fá landvistarleyfi og hin og þessi skilríki. Dagurinn í dag var góður í þeim skilningi að skírteini streymdu í hús. Bæði fengum við nafnskírteini sem eru nauðsynleg til að geta sótt um hina og þessa þjónustu og svo fékk Rúnar Atli skólaskírteinið sitt. Í gær fékk ég eitthvert kort sem er nauðsynlegt fyrir fjársýslu. Já, það er bjart inn á milli þess sem maður rífur hár sitt og skegg yfir að skilja ekki fólk og það ekki mann.

Svo fer að styttast í gáminn sem við sendum frá Lílongve með okkar persónulegu munum. Þegar hann kemur hættir vonandi að bergmála í húsinu.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...