9. apríl 2007

Áhrifamáttur sjónvarpsins

Á þeim örfáu árum síðan ég var gutti hefur ýmislegt breyst í sjónvarpsmálum Íslendinga. Þegar ég var á aldur við Rúnar Atla þá voru reglulegar útsendingar á sjónvarpsefni nýhafnar á Fróni. Ég man nú ekki mikið frá þessum fyrstu árum sjónvarpsútsendinga, en í ýmsum fræðsluþáttum um þessi ár kemur fram að frekar voru útsendingar stöpular ef miðað er við daginn í dag.

Barnaefni man ég ekki mikið eftir, það var jú Stundin okkar og síðan voru auðvitað steinaldarmennirnir. Flintstones fyrir hina ungu óíslenskumælandi kynslóð. Ekki get ég svona í fljótu bragði rifjað upp neinar aðrar teiknimyndir frá mínu ungdæmi sem sitja eftir í kollinum, og þó, línan var jú auðvitað alveg klassi og mikil var ánægjan þegar hún birtist á skjánum milli dagskrárliða.

Ekki veit ég hvort Stundin okkar eða steinaldarmennirnir höfðu mikil áhrif á minn daglega talsmáta. Mér þykir nú ótrúlegt að hann Palli, Páll Vilhjálmsson, hafi brúkað slæmt málfar. Kæmi það mér mikið á óvart. Kannski maður hafi einstaka sinnum brugðið fyrir sig eins og einu jabba-dabba-dú-i þegar manni tókst að koma boltatuðrunni í mark í fótboltaleikjum á túninu undir gömlu heilsuverndarstöðinni. Man það þó ekki.

Af hverju er ég að velta þessu upp hér?

Jú, þrátt fyrir að hafa reynt að halda honum Rúnari Atla frá sjónvarpsefni sem þykir kannski ekki mjög uppbyggilegt fyrir ungar sálir, þá bendir ýmislegt til að árangurinn sé ekki alveg eins og til stóð.

Hann hefur horft mikið á Söngvaborg eitt og tvö og síðan á hann tvo mynddiska með Bjarnabóli. Þarna er jú auðvitað hinn besti boðskapur borinn á borð fyrir ungar sálir.

En...

Undanfarið hefur komið í ljós að einn teiknimyndaþáttur á hug sonar míns allan. Er þetta hin alræmda Simpson fjölskylda frá Springfieldbæ í Bandaríkjum, Norður Ameríku. Er guttinn dolfallinn yfir öllum þeim ævintýrum sem þessi fjölskylda lendir í.

Biður hann mikið á fá að horfa á þessa þætti, en þannig vill til að Tinna Rut á einhverjar seríur á mynddiskum.

Greinilegt er að hann á sér sína uppáhaldspersónu úr þáttunum.

Nei, það er ekki Bart.

Núna gengur sonur minn um allt og lætur frá sér við öll möguleg og ómöguleg tækifæri hinn fleyga frasa:

„DÓH!”

Jamm, Hómer Simpson er hin nýja fyrirmynd sonar míns.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hahahaha Hómer er líka í miklu uuppáhaldi hjá mínum syni og þetta DÖH kannast ég vel við... Jájá greinilega með svipaðann smekk frændurnir þótt þeir búi í sitthvorri heimsálfunni....

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...