15. júlí 2006

Dagar lengjast

Þá er háveturinn smám saman að hörfa. Enn er svolítið kalt á morgnana, en þó ekki eins og var fyrir nokkrum vikum. Dagarnir eru smátt og smátt að lengjast og við að byrja að undirbúa vorkomu. Í gær fórum við og fjárfestum í garðhúsgögnum, borði og stólum. Úr tré, enda orðin virkilega þreytt á plastdraslinu sem maður hefur bögglast með ár eftir ár. Engu að síður þarf nú að gæta að því að skrúfur séu fullhertar og vorum við Rúnar Atli settir í það eins og sést. Gulla var sennilega upptekin með gin og tónik...


Síðan lét ég gamlan draum rætast og notaði grillið til að malla pottrétt. Hér í Namibíu, og reyndar í Suður Afríku, er mikil hefð fyrir svona eldamennsku. Notaðir eru sérstakir pottar í svonalagað, potjie kallast þeir, borið fram „pojkí“ og eins og sést á myndinni er grillið okkar útbúið með króki fyrir þesskonar pott.

Ég kveikti upp í spýtukubbunum um eittleytið og var maturinn síðan tilbúinn um hálffimm. Ekkert liggur á í svona eldamennsku og þykir hið mesta fúsk að reyna að flýta fyrir eldamennskunni. Pojkíinn þarf tíma, það er einfaldlega bara þannig. En ég sauð lambaframhryggjarsneiðar, kryddaðar með ýmsum austurlenskum kryddum og síðan var ýmislegt grænmeti í pottinum líka. Tókst þetta nokkuð vel þótt einstaka byrjendaklaufaskapur hafi gert vart við sig. En gómsætt var þetta og hér sést Gulla skenkja Rúnar Atla mat á diskinn sinn. Auðvitað setið við nýja borðið.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...