Ber afmælið upp á mánudag eins og glöggir lesendur hafa ábyggilega áttað sig á. Ekki kannski allra skemmtilegasti vikudagur til að eiga afmæli á. Því spurði ég tilvonandi afmælisbarn hvort ekki ætti að baka tertu fyrir hana í dag. Jú, jú, það fannst Dagmar Ýr góð hugmynd, og bað um rjómatertu með jarðaberjum.
Svo vel bar í veiði að tveimur mínútum fyrr hafði ég verið að skoða nákvæmlega þess háttar tertu í grillblaði Gestgjafans. Sunnudagskaka heitir sú, og hentaði því vel, því hugmyndin var að baka og borða í dag.
Við Rúnar Atli náðum því í þeytara, egg, sykur og annað tilheyrandi og hófum okkar störf. Eins og sést var einbeitingin mikil. Ekki skemmir að hann fékk bók á Íslandi sem fjallar um bakstur, Tumi bakar, og er sú í miklu uppáhaldi þessa dagana.

Hér sést svo útkoman. Ekki illa útlítandi þriggjalaga rjómaterta. Bakarinn sleikir enda út um.

Að sjálfsögðu var við hæfi að skella kossi á tilvonandi afmælisbarn, hvað annað?

Við fengum okkur síðan tertu í eftirrétt með kvöldmatnum. Rann ljúft niður skal ég segja ykkur.
2 ummæli:
Til hamingju með dótturina Villi minn og mikið finnst mér hann Rúnar vera að líkjast mér :-D
Flott terta hjá ykkur :-)
Kveðja af Skaganum
Skrifa ummæli