6. mars 2011

Hvín í Grundarfirði

Kominn vestur til Grundarfjarðar. Hótel mamma þessa helgina.

Við lögðum af stað um tvöleytið, en þá var farið að hvessa allhressilega. Skv. veðurupplýsingaskiltinu í Mosfellsbænum voru 42 metrar á sekúndu í hviðum undir Hafnarfjalli. Lengst af gekk ferðin þó stórslysalaust fyrir sig. Fengum þó á okkur eina hressilega hviðu undir Hafnarfjallinu. Náði sú að snúa þurrkublaðinu bílstjóramegin við, þ.a. ég þurfti að stökkva út og snúa við blaðinu. Vindurinn var þvílíkur að ég náði vart andanum og fannst mér ég standa í grjóthríð. Þetta voru þó bara regndropar sem skullu á mér með þvílíku offorsi að sem grjót væri.

Við komumst að öðru leyti klakklaust til Borgarness og fínt var að setjast inn á Geirabakarí og fá sér aspassúpu og brauð. Ekki má gleyma ástarpungunum sem aldrei svíkja.

Reyndar, þegar við Rúnar Atli vorum að hlaupa eftir bílaplaninu fyrir utan bakaríið þá sá kvikindið hann Kári sér leik á borði og blés svo hressilega á pilt að hann tókst hreinlega á loft og endaði kylliflatur á stéttinni. Sem betur fer hélt ég í hönd drengsins, en annars væri hann sjálfsagt enn á lofti einhvers staðar yfir vesturlandi.

Ferðin gekk síðan tíðindalaust fyrir sig þar til við komum að lokum Vatnaleiðarinnar. Frá Berserkjahrauni og alla leið til Grundarfjarðar var hinn hressilegasti sunnanstrekkingur þvert á veginn. Lulluðum við rétt á 50 km hraða og tóku síðustu 20 km næstum því hálftíma.

En á leiðarenda komumst við og sitjum nú í góðu yfirlæti á Smiðjustígnum. Þessi fínasti lambahryggur með stökkri puru rann ljúflega niður í kvöldmatnum. Rúnar Atli tók karate-sýningu fyrir ömmu sína og á morgun verður bollubakstur. Ríkir mikil eftirvænting hjá ýmsum vegna hans.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...