4. september 2012

Afmælisdagafrétt - seint um síðir

Ekki er einleikið hversu illa gengur að skrifa eitthvað skemmtilegt á þessar síður. Framtakssemin alveg að kála manni.

Eða þannig sko.

Á morgun er vika síðan sonur minn ungur átti átta ára afmæli. Og ekki eitt orð um það hér. Fyrr en nú.

Hverslags er þetta eiginlega?

Spenningurinn var þó nokkur hjá sumum síðasta sjö ára daginn. Við feðgarnir skelltum í skúffuköku seinnipart þess dags, en hana átti að fara með í skólann handa bekkjarsystkinum.

Á afmælisdeginum var ekki mikið mál að vakna.

Hér til hliðar er fyrsta myndin af átta ára gutta. Tekin rúmlega fimm að morgni. Allir í góðu stuði.

Hárið kannski aðeins út í loftið, en hva, hverju búist þið við svona snemma morguns?

Eitt verð ég í framhjáhlaupi að segja syni mínum til hróss. Alveg heyrir til undantekninga að hann sé ekki kátur og glaður. Og alltaf skal hann vera tilbúinn í grallaraskap.

Flottur fír.

En tvær ástæður voru fyrir því að dagurinn var tekinn snemma. Svona klukkutíma fyrr en venjulega. Fyrri ástæðan var að klára þurfti að ganga frá skúffukökunni.

Auðvitað sá afmælisbarnið um að smyrja súkkulaðikreminu á. Aldrei að vita nema faðirinn tæki upp á því að stelast í kremið. Hvað veit maður?


Skúffukakan heppnaðist vel hjá okkur feðgum. Í það minnsta leit hún mjög vel út. Ég fékk auðvitað ekki að smakka.

Hin ástæðan fyrir því að dagurinn var tekinn snemma var að geta opnað pakkana áður en klukkan yrði sjö og tími til að leggja af stað í skóla. Eftir kökuskreytingar var því sest við borðstofuborðið með pakkana.


Pakkarnir þóttu reyndar í smærra lagi þennan afmælisdaginn, en þó áttuðu menn sig greinilega á því að stærðin skiptir ekki endilega máli. Innihaldið er jú mikilvægara.

Ég ætla nú ekki að eyða tímanum að telja upp gjafirnar, nema þó að dreng þótti flott að fá þrjár Andrésar Andar syrpur frá frændunum þremur í Eyjabakkanum.


Takið líka eftir að á þessum tímapunkti var drengur orðinn vatnsgreiddur og flottur. Handverk móðurinnar að sjálfsögðu.

Að pakkaopnun lokinni var borðaður morgunmatur og síðan lagt af stað í skólann. Vinirnir voru greinilega með á hreinu hvaða dagur var því menn kepptust við að óska til hamingju.

Rétt fyrir fyrstu frímínútur mætti ég síðan í skólastofuna með skúffukökuna flottu. Við búum svo nálægt skólanum að ég rölti mér út með kökuna á brauðbretti og ekkert yfir henni. Enda alltaf gott veður í Lílongve og ekki þýðir að skemma kremið með plastpoka eða einhverju álíka.

Hér sést afmælisbarnið umkringt bekkjarsystkinum sínum. „Hann á afmæli í dag,“ sungið hástöfum. Á ensku auðvitað.


Svo var blásið...


Öll kertin náðust í fyrstu tilraun.

Takið eftir hvað kakan er flott skorin. Kennarinn greip boltann á lofti þegar hann sá kökuna og lét krakkana reikna ýmis dæmi sem tengdust fjórum sinnum sjö. Ekki slæmt að taka smá hugarreikning áður en maður fær köku.

Í kvöldmat bauð piltur foreldrum sínum á indverskan veitingastað. Ekki slæmt val það hjá honum. Eigandi staðarins varð kátur þegar hann frétti hver hefði valið staðinn og þakkað afmælisbarninu kærlega fyrir.

Dagurinn var í alla stað góður og glaður piltur lagði höfuðið á kodda um kvöldið og sofnaði eins og skot.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með drenginn - betra er seint en aldrei! Gott að hann var ánægður með syrpurnar. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá alla hvítklæddu 8 ára snillingana yfir kökunni var hvort það væri hægt að borða svona brúna köku án þess að sulla niður á sig! - vanta svona "eftir" mynd!
kv.
Sigga

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...