9. september 2012

Æjæjæ, strákaafmæli

Strákaafmæli.

Sægur af átta ára guttum.

Meir'ena seg'aða.

Rúnar Atli hélt upp á afmælið sitt á föstudagseftirmiðdaginn. Sumir gestir komu strax eftir að skóla lauk, um hálfeitt, en afmælið stóð til klukkan fimm. Átti a.m.k. að gera það, þótt síðustu gestirnir hefðu ekki farið fyrr en að ganga sjö.

Fimmtán guttum var boðið í afmælið. Tveir mættu ekki, en einn lítill bróðir fékk að fljóta með. Að Rúnari Atla meðtöldum voru því fimmtán strákar í veislunni. Nóg var að gera og hamagangurinn mikill. Leist mér um tíma ekkert á að húsið og okkar dót bæri nokkurn tímann aftur sitt barr. Mikill handagangur í öskjunni og enginn leið að fylgjast með öllum.

Við Gulla vorum svona frekar afslöppuð með þetta allt saman. Ég held ég hafi aldrei áður byrjað að baka afmælistertu þegar klukkutími var búinn af veislunni. Samt var tertan tilbúin á réttum tíma. Geri aðrir betur. Vanur maður, auðvitað.

Við vissum auðvitað að einhverjir yrðu glorhungraðir svona rétt eftir skólann og því hafði Gulla útbúið bunka af kjúklingaleggjum og samósum. Sem var eins gott.

Planið var að drengirnir yrðu sem mest úti. Nóg pláss er í garðinum og við leigðum hoppukastala, sem vakti mikla lukku. Svo var fótboltamark í einu horni garðsins, trampólínið dregið fram sem og borðtennisborð sem við eignuðumst einhvern tímann. Svo hafði Gulla upp á náungum sem koma með fullt af málningarströngum strekktum á ramma og hjálpa krökkum að mála mynd eða tvær. Auðvitað var svo líka andlitsmálari á svæðinu.

Sem sagt heilmikið um að vera. Enda var engin afmælisveisla í fyrra. En þrátt fyrir allt útidótið þurftu kapparnir að grandskoða allt dótið hans Rúnar Atla og er ekki ofsögum sagt að herbergið hans Rúnars Atla hafi litið út eins og eftir sprengingu. Svei mér þá.Hér náðust nokkrir á mynd önnum kafnir við að fara í gegnum dótið.En þetta var gaman, þrátt fyrir öll lætin. Sumir fengu sér andlitsmálingu og fór afmælisbarnið í fararbroddi.


Ljón vildi drengurinn vera og málarinn var ekki í vandræðum með það. En þetta tók nokkurn tíma, skal ég segja ykkur. Svona leit hann út að lokum:


Dúlleríið á handarbökunum eru einhverjir Stjörnustríðsgeislagræjur. Sjáiði, maður kreppir hnefana og út skýst geisli. Svona:


Félaganum var sem betur fer ekki meint af þessari geislameðferð.

En andlitsmálarinn var nokkuð fær, verður að segjast. Hér er einn vinur Rúnars Atla, Remi heitir hann, og ekki var hans útlit síðra en hjá Rúnari Atla.
Flott, ekki satt?

Svo eftir heilmikil læti var komið að tertunni. Súkkulaðiterta auðvitað. Ekki til að tala um að hafa neitt annað. Eins og sést á næstu mynd átti Gulla fullt í fangi með að afgreiða kökusneiðar og drykki til allra:


„Gemmér, gemmér...“

Æ, en að veislu lokinni vorum við gjörsamlega búin. Öll sömul. Enda var hugmyndin með að hafa veisluna á föstudegi sú að við hefðum tvo daga í kjölfarið til að jafna okkur.

Það var fínt.

Nú er bara ár í næstu veislu.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...