Í dag fjárfesti ég mér í tölvublaði - Heimur makkans heitir það í
lauslegri þýðingu. Er kannski ekki í frásögur færandi. Í gegnum tíðina
hef ég oft keypt mér þetta tímarit, var meira að segja áskrifandi um
tíma. Gullu finnst ég eiga fullauðvelt með að finna einhver tímarit til
að gerast áskrifandi að. Hmm., nú er ég að komast út fyrir efnið, leyfi
Gullu að tala um þetta síðar.
HVAÐ um það. Ég keypti mér sem sagt þetta blað, eiginlega vegna þessa
að mig langaði ekki í neitt annað blað, en langaði í blað. Svo þegar ég
var búinn að renna í gegnum það fór ég að velta því fyrir mér hvað ég
hefði nú grætt á þessu blaði. Ég veit núna að það er æðislegt að
fjárfesta í ferðaprentara fyrir ljósmyndir. Svona prentari þarf ekki
einu sinni tölvu, þú bara stingur minniskortinu úr myndavélinni í
græjuna og, prestó, myndirnar streyma út. Sérstaklega var nefnt hversu
meiriháttar gæti verið að fara með svona apparat í veislur. Ég sé alveg
fyrir mér að mæta í brúðkaupið hennar Jóhönnu vopnaður svona tæki, tæki
helling af myndum og sæti svo seinni hluta veislunnar að prenta út,
bara til að gestirnir geti tekið myndir með sér heim. Er þetta ekki
alveg ómissandi gripur?
Svo er stórkostlegt að eiga litla viðbót fyrir iPodinn sinn
(tónlistarhlöðu) sem gerir kleypt að hlusta á hann í gegnum hvaða
útvarp sem er. Viðbótin leyfir þér víst að velja FM rás sem er laus og
senda úr iPodinum í útvarpið, bara rétt eins og hver önnur útvarpsstöð.
Æðislegt. Ætli ég verði ekki að kaupa mér iPod til að geta keypt svona
græju.
Þráðlaust lyklaborð er líka alveg ómissandi. Hvað með þráðlaus
heyrnartól svo maður geti nú dansað almennilega við tónlistina í
tölvunni. Það er agalega að þurfa að dilla sér í skrifstofustólnum og
komast ekki til að hreyfa sig almennilega útaf einhverri snúru í
heyrnartólin. Að ég tala nú ekki um að kaupa sér hugbúnað sem í gegnum
einhverja vefsíðu leyfir þér að búa til þín eigin frímerki. Í
Bandaríkjunum miklu er víst ekkert mál að nota svona prívat frímerki.
Verst maður sendir aldrei bréf í pósti...
En aðalástæðan fyrir því að ég keypti þetta tímarit var grein sem
leiðbeinir manni við kaup á litaprentara - hvernig á að finna fullkomna
prentarann fyrir þig, nefnist þessi grein. Ég er nefnilega ekki með
prentara hér á von Eckenbrecher stræti og þykir það stundum miður. Ég
skellti mér því í að lesa þessa grein, og hugsaði mér nú gott til
glóðarinnar. Nú gæti ég nefnilega farið í tölvubúðir og sýnt þessum
afgreiðslumönnum hvar Davíð keypti ölið. Að hér væri kominn
viðskiptavinur sem vissi hvað hann vill og ekkert hægt að pranga
einhverju drasli inn á hann. Væri það ekki meiriháttar?
Ég skal stinga niður á einum stað í þessari grein, bara til að leyfa
ykkur að átta ykkur á því af hverju ég hef ekki fyllst þessu óbilandi
sjálfstrausti við prentarakaup sem ég vonaðist eftir. „Að skilja blek“
heitir kaflinn sem ég vil deila með ykkur. Það er víst hægt að kaupa
prentara sem eru með mörgum litlum prenthylkjum og síðan prentara sem
eru með einu stóru sem inniheldur alla litina. Í fyrra dæminu er
einfaldlega hægt að kaupa þann lit sem er að klárast, en í seinna
dæminu verður að kaupa allt stykkið, þótt einungis einn litur sé að
klárast. Hið fyrra hlýtur að vera betra, ekki satt? Jú, það hélt ég,
þar til kom síðasta setningin - athugaðu að ef þú notar suma liti
sjaldan þá þornar í þeim blekið. Ef þannig er ástatt, þá er best að
skipta um alla litina í einu. Úbbs, hvort er þá betra? Veit það ekki.
Svona var öll blessuð greinin. Við hvert atriði þá var maður að hallast
á eina skoðun, þegar allt í einu kom ein setning sem rústaði því sem
maður hélt. Ég er því engu nær og verð líklega bara ein taugahrúga
þegar ég fer að velja prentara.
Hvað ef ég skyldi nú velja rangan prentara?
2 ummæli:
Sko Villi minn - þú tekur þessu alltof alvarlega. Farðu bara í næstu búð og keyptu þér eitt stykki prentara. Á meðan hann prentar í lit þá er tilganginum náð ekki satt??
Það er annars mjög gaman að lesa ör-sögurnar þínar (þetta hlýtur að vera orð alveg eins og t.d. ör-námskeið).
Gulla.
VÁ HVAÐ ÞETTA VAR LANGUR PISTILL... JÚBB ÉG LAS HANN ALLAN
Skrifa ummæli