6. mars 2006

Orð

Við Tinna Rut erum búin að vera að taka saman lista yfir orð sem Rúnar
Atli segir. Hún las nefnilega í barnamöppunni hans að á þessum aldri
ætti hann að vera kominn með 8-10 orð ef ég man rétt. Síðan skilja mun
fleiri. Skilningurinn er í góðu lagi hjá honum. Hann skilur nær allt
sem sagt er við hann, og virðist meira að segja vera farinn að leiða
hjá sér það sem hentar honum ekki að heyra. Mér finnst eiginlega
ótrúlegt hvað hægt er að biðja hann um að gera. Hvað um það,
orðalistinn hans er eftirfarandi: mamma, ís, rusl, já, jæja, nammi
(merkingin er matur), takk, bíll, kis-kis, vúff, ó-ó, datt og djús.
Hann notar þessi orð reyndar ekki alveg eins og við, hann segir jú brrr
þegar hann meinar bíll, en hann hefur engu að síður alveg ákveðið orð
yfir bíla. Hann segir TTA þegar hann þakkar fyrir sig. Gerir það
reyndar oft þegar honum eru réttir hlutir. Kurteis ungur piltur. Ís er
orð sem hann notar mikið, en honum finnst ís æðislega góður. Oft á
kvöldin hleypur hann að frystinum og hrópar, ÍSSHH, ÍSSHH, með mikla
áherslu á H hljóðið. Hann á það meira að segja til að opna frystinn
þegar ákafinn verður fullmikill.

Síðan í gær, þá sagði hann loksins pabbi á þann hátt að ekki fór neitt
á milli mála hvað var meint. Babba, babba, og mikið varð pabbinn
ánægður.

Því eru komin allavegana 14 orð, þ.a. ekki er drengurinn á eftir,
samkvæmt þessari möppu!

Síðan er það rúsínan í pylsuendanum. Við Tinna Rut tókum eftir því að
hann var öðru hverju að segja eitthvað sem hljómaði daddí, daddí. Gæti
verið pabbi á ensku, en okkur þótti það nú frekar ósennilegt, því hann
heyrir þetta orð ekki mjög oft. Síðan í dag þegar ég kem heim, þá fer
hún Flora barnfóstra að segja okkur að hann sé farinn að tala hennar
tungumál. Hún talar mál sem Íslendingar vitna stundum til sem
„klikkmálið“ því þeir sem það tala smella í góm á fjóra mismunandi vegu
og er oft bráðfyndið að heyra þetta. Það eru til ýmsar mállýskur sem
nota þessi hljóð, en yfirleitt er talað um þessi mál sem Nama. Nú, og
hvaða orð, spyrjið þið? Ekki neitt með smelli, en „daddí“ þýðir víst
„ekki,“ í merkingunni „ekki gera þetta.“

Þ.a. Rúnar Atli kominn af stað með sitt annað tungumál. Ekki segir
barnamappan neitt um svoleiðis lagað.

Ó, og þá vitum við hvaða orð hún Flora notar oftast þegar Rúnar Atli
heyrir til!!!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vel gefinn piltur þarna á ferð.... En á ekkert að kenna honum að segja "jóhanna"

Nafnlaus sagði...

Hvað er málið með "rúsínuna í pylsuendanum"? Þetta er hugsanlegasta eitt af því asnalegasta sem hægt er að segja á íslensku.

Jæja, það eru víst bara nokkrir dagar eftir :-)
Hlakka alveg geggjað til!!!!
Er samt ekki alveg með nákvæmnina á hreinu. Veit ekki hversu margir dagar þetta eru nákvæmlega.
Það væri alveg fínt að fá sms um þetta... ekki kl 5 um morgunin samt.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...