21. mars 2006

Dularfulla töskuhvarfið!

Hjá okkur var mjög vísindalega pakkað niður fyrir ferðalagið. Hvert
okkar var með sína tösku, ja, svona að mestu leyti. Rúnar Atli fékk um
daginn bakpoka til að nota á leikskólanum og tók ég eiginlega öll föt
sem drengurinn á, þ.e. stuttbuxur og boli, og setti ofan í þennan
bakpoka. Fötin hans eru tiltölulega fyrirferðarlítil. Rakst svo á einar
aukabuxur og -bol og henti efst í mína tösku. Verður að hafa smá kaos í
þessu líka... Ok, ok, best að halda mér við efnið. En þetta var sem
sagt allt í góðum málum.

Þar til ... þar til í Tsaobis garðinum. Ég er eitthvað að dunda mér við
grillið og fer þá ekki hugurinn að hverfa að þessum bakpoka hans Rúnars
Atla - kom hann inn úr bílnum með hinum dótinu inn í kofann? Hvar setti
ég hann? Ef hann kom ekki inn, hvernig stóð á því? Getur verið að hann
hafi ekki komið með? Eitthvað á þessa lund voru hugsanir mínar á milli
þess sem ég velti fyrir mér hvort marineruðu lambasneiðarnar væru
tilbúnar. Þær voru reyndar mjög vel heppnaðar, ykkur að segja. Ha, já,
áfram með smjörið - það var þetta með bakpokann.

Ég fer síðan að svipast um eftir umræddum bakpoka og finn hann bara
ekki nokkurs staðar. Sama hvar ég leita. Nú voru góð ráð dýr - ein föt
til skiptana fyrir fjóra daga og þegar þarna er komið sögu var
drengurinn drullugur upp fyrir haus eftir að leika sér í aurnum og
drullunni sem fylgdu með rigningunni. Að ná sandinum úr hárinu hans tók
tvær baðferðir. Heppni að bleyjurnar, og annað tengt salernisferðum
drengsins, voru þó ekki í bakpokanum, heldur á öðrum vísum stað. Eins
gott!

Ég auðvitað skelli heilanum í fimmta gír og túrbó að reyna að muna hvað
hafi orðið um blessaðan bakpokann. Man síðast eftir honum á miðju gólfi
í hjónaherberginu ásamt öðru sem kom allt með. Sama hvað ég brýt
heilann, mér tekst ekki að muna eftir að hafa séð bakpokann eftir það.

Í Swakopmund var því arkað í hættulegu deildirnar og verslaðir gallar á
drenginn. Ég meina, gallabuxur fyrir 220 krónur, jogging galli fyrir
280 krónur... hver stenst svona verð?

Síðan þegar ferðin var að renna sitt skeið, þá vorum við Tinna Rut
mikið að spá í þetta með bakpokann. Hvort hann stæði þarna aleinn út á
miðju hjónaherbergisgólfi, eða hvað? Því var þetta það fyrsta sem gert
var þegar komið var heim, ja, eftir að búið var að slökkva á
þjófavörninnni, að æða inn í hjónaherbergið. En, viti menn, þar var
bakpokinn ekki. Ég fór í herbergið hans Rúnars Atla, ekki þar. Stofuna
- ekki þar, sjónvarpsherbergið - neibb, eldhúsið, ó-nei. Hvar er
bakpokinn?

Sem ég ríf hár mitt og skegg yfir þessu, þá dettur mér í hug að kíkja í
skápinn hans Rúnars Atla þar sem bakpokinn er venjulega geymdur þegar
hann er ekki í notkun. Og viti menn, þar inni í skápnum stendur
bakpokinn. Fullur af fötum. En, af hverju þar? Ekki tók ég mig til og
setti hann aftur þar inn? Er Alzheimer virkilega farinn að banka á
dyrnar?

Ég er búinn að finna skýringu sem ég sætti mig við. Hún er sú, að Rúnar
Atli, þessi elska, hafi séð bakpokann á gólfinu og, vitandi það að hann
á að vera inni í skápnum, hafi hreinlega tekið bakpokann þegar við
Tinna vorum að halda á öðru fram, og bara gengið frá honum aftur. Og
lokað skáphurðinni - það finnst honum gaman - svo ekki var nokkur leið
að sjá pokann þegar síðasta yfirlitsferðin var farinn áður en lagt var
í 'ann.

Ef þetta er ekki raunin... þá er Alzheimer boðið í bæinn...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf gott ad kenna krökkunum um thad sem midur fer;-)) En mikid hefur thetta verid skemmtilegt ferdalag hjá ykkur Villi minn. Maja

Nafnlaus sagði...

Þú ert alveg kostulegur...... Það er greinilegt að strákurinn er mikill reglumaður og vill hafa hlutina á sínum stað :)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...