Jæja, þá ætla ég aldrei þessu vant að segja frá vinnunni minni. Einstaka sinnum er hún skemmtileg á hátt sem gefur tilefni til dagbókarfærslu hér.
Í morgun afhenti ég formlega tvær skólastofur skólayfirvöldum sýslunnar sem Rúndú er í. Sýslan nefnist Kavangó-sýsla og skólinn heitir Andreas Kandjimi barnaskólinn. Barnaskóli hér er 1.-7. bekkur. Yfirleitt eru nemendurnir frá sex til tólf ára. Þó eru krakkarnir stundum eldri, bæði vegna þess að þau byrja seinna í skóla og svo þarf að endurtaka bekk ef nemendur falla á lokaprófi bekkjar. Þessi skóli hefur sérstöðu meðal skóla í Namibíu því hann hefur stóra deild fyrir heyrnarlausa nemendur. Nær allir aðrir heyrnarlausir krakkar sem ganga í skóla eru í sérskólum fyrir heyrnarlausa. Vegna þessarar deildar hefur hann fengið stuðning í gegnum þróunarsamvinnu Íslands og Namibíu. Hluti af þeim stuðningi eru skólastofurnar tvær, en þær eru ætlaðar bekkjum heyrnarlausra.
Það mega skólar í Namibíu eiga að þeir kunna að skipuleggja hátíðarhöld. Að taka þátt í svona athöfn er með því skemmtilegra sem ég geri. Það er svo gaman að finna ósvikna ánægju og gleði fólks sem móttekur stuðning af þessu tagi. Og alltaf kemur sama undrunarspurningin: „Af hverju í ósköpunum er bláókunnugt fólk hinu megin á hnettinum að rétta okkur hjálparhönd?”
Ávallt er byrjað á namibíska þjóðsöngnum. Og allir syngja undir, en í morgun leiddi skólakórinn sönginn. Liggur við að ég fái gæsahúð að heyra rúmlega þúsund börn syngja þjóðsönginn án undirspils. Söngurinn einhvern veginn rennur inn í merg og bein. En á góðan hátt, vel að merkja.
Í skólanum eru 72 heyrnarlausir nemendur í fyrsta til sjötta bekk, og var gaman að sjá þá syngja þjóðsönginn á táknmáli. Margt í táknunum er þannig að ekki fer á milli mála hvaða söng verið er að flytja.
Í morgun söng skólakórinn þó nokkuð mörg lög, og gerði það glimrandi vel. Þetta er með stærstu skólakórum sem ég hef séð hér. Í honum eru ekki undir 50 nemendur. Og þeir syngja eins og englar. Ekki skildi ég alla textana, enda flestir sungnir á Rúkvangalí sem er móðurmál flestra íbúa Kavangó-sýslunnar. Sessunautur minn var þó svo almennilegur að fræða mig um innihald textanna. Það var sungið um mikilvægi menntunar, gleði og ánægju þess að vera lifandi, Jesús var lofsunginn og síðan var einn texti á ensku þar sem varað var við ágengni ókunnra.
Síðan tók magnaður danshópur skólans nokkra dansa. Þar er sko ekkert gefið eftir. Undir dynjandi trumbuslætti hreyfast fætur, mjaðmir og axlir svo hratt að engu líkara er að miklu fleiri dansarar séu á ferð en raun ber vitni. Hér er mynd af tveimur dönsurum með trymbil í bakgrunni:
Mér finnst svolítið skondið að ég á myndir frá því fyrir þremur árum af þessum danshópi og þar á meðal eru þessir tveir krakkar. Töluvert lægri vexti á þeim myndum, en innlifunin og ánægjan af dansinum hefur ekki breyst.
En ekki var öll dagskrá morgunsins jafnlifandi og spennandi og söngurinn og dansinn. Ýmsir héldu ræður, þar á meðal undirritaður.
Já, maður tekur sig bara ágætlega út. Með NBC hljóðnema fyrir framan sig. Hver veit nema maður komi í sjónvarpsfréttum einhvern tímann í næstu viku. Reyna að slá Gullu út...
Einn af heyrnarlausu nemendunum, ung stúlka, flutti þakkarræðu fyrir hönd sinna skólafélaga. Það fór henni vel úr hendi. Kom vel fram hjá henni þessi fölskvalausa gleði yfir því að aðstæður hennar og skólafélaganna hafi batnað vegna stuðnings Íslendinga.
Svo var klippt á borða sem var fyrir dyrum annarrar skólastofunnar. Skærin mundaði sýslufulltrúi kjördæmisins sem skólinn er í.
Ég fékk þann heiður að stinga lyklinum í skrána, opna hurðina, og síðan afhenda lykilinn formanni skólastjórnarinnar. Allt gert eftir kúnstarinnar reglum.
Svo tók ég mynd af skólastofunum. Í forgrunni sést hluti af skólakórnum, en hann hélt áfram að syngja og hreinlega fékkst ekki til að hætta.
Ég er þeirrar skoðunar að athöfn af þessu tagi sé vel þess virði. Ekki síst fyrir það að nemendurnir sem nota þessar stofur átta sig betur á því að falleg skólastofa er ekki sjálfsagður hlutur. Ég held að margir þeirra meti hana betur og skilji að um hana þarf að ganga með virðingu.
En svo var það rúsínan í pylsuendanum.
Þegar ræðuhöldum var að ljúka þá leggur skólastýran fram stílabók og biður fólk um að leggja fram peninga í framkvæmdasjóð skólans. Skólastjórnin vill leggja í ýmsar framkvæmdir og voru sumar tíundaðar í erindi sem skólastýran hélt við upphaf athafnarinnar.
Þessi söfnun var ekki skipulögð fyrirfram. Hún kom þannig til að við morgunverðarborðið sama dag spurði eiginmaður skólastýrunnar hana hvort samskot yrðu haldin. Ef svo, þá vildi hann leggja eitthvað af mörkum. Skólastýrunni fannst þetta svo góð hugmynd að hún hrinti henni í framkvæmd.
Fyrst var lítið um viðbrögð og þótti mér þetta hálfvandræðalegt. Ekki var beðið um háar upphæðir, einn og tveir dalir voru nefndir sem vel ásættanlegar upphæðir. Síðan kom loksins einn maður frá menntamálaráðuneytinu. Hann var nú hálfvandræðalegur, en sagði frá því að um næstu mánaðarmót fengi hann bónusgreiðslu ofan á launin sín. Hét hann því að leggja eitt þúsund dali (17 þúsund kr) í framkvæmdasjóðinn. Brutust út þvílík fagnaðarlæti við þessa tilkynningu að allt ætlaði um koll að keyra. En nú var ísinn líka brotinn. Eitt af öðru kom fólk upp, sumt lagði fram 50 dali, annað meira. Slæðingur af kennurum lagði sitt af mörkum, sem mér þótti vænt að sjá. Ein kona, móðir heyrnarlauss nemanda, gaf 50 kíló af maísmjöli, en það er undirstaða flestra máltíða hér um slóðir. Þegar allt var yfirstaðið höfðu safnast 6.970 Namibíudalir, og svo 50 kílóin af mjöli. Gerir þetta nærri því 120 þúsund íslenskar krónur.
Útkoma þessarar söfnunar kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Ekki gleyma því að fólkið sem gaf þessa peninga er flest bláfátækt. Til að setja þetta í samhengi, þá heyrði ég fyrir nokkrum dögum að mánaðarlaun verkstjóra á bóndabýli teldust mjög góð ef þau næðu 2.800 dölum. Margir sem gáfu í dag, ná þeim launum áreiðanlega ekki. En margir sem gáfu nefndu að menntun væri lykill að velgengni barna þeirra í framtíðinni. Sá sem gaf fyrstur, hann sagði við mig að hann liti á þetta sem fjárfestingu í framtíð sýslunnar sinnar. „Þegar ég og mín kynslóð verðum orðin gömul og komin með staf, þá þarf þessi kynslóð,” sagði hann og benti á barnaskarann, „að sjá um okkur. Því er þetta góð og arðbær fjárfesting hjá mér.”
Hvað getur maður sagt?
Í það minnsta er ég ánægður að hafa átt þátt í að aðstoða þennan skóla og fólkið þarna.
Kannski verður hægt að gera eitthvað meira fyrir þennan skóla seinna.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
3 ummæli:
Flott blogg og eins myndin af þér skeggi-"gamli" :-)
Hvað kemur til? Ertu að safna þér skegg eða hvað? :)
Sveitamaðurinn viknar nú bara við að lesa þetta.
Skrifa ummæli