31. ágúst 2013

Tilvonandi félagsmálatröll?

Einhvern tímann í fyrra átti að kjósa í nemendaráð, einhvers lags, í skólanum hans Rúnars Atla. Einn fulltrúi er valinn úr hverjum bekk og einn til vara. Rúnar Atli lagði töluvert á sig að útbúa framboðsræðuna, en ekki hlaut hann kosningu. Mér fannst svolítið merkilegt, og reyndar flott, að hann kaus ekki sjálfan sig heldur einhverja stúlku. „Ræðan hennar var betri en mín,“ sagði hann, „og þess vegna kaus ég hana.“

Núna í vikunni voru kosningar í nemendaráðið, enda komið nýtt skólaár. Rúnar Atli fór í framboð og útbjó aðra ræðu, sem hann flutti svo á miðvikudaginn var.

Aðspurður sagði hann að vel hefði gengið að flytja ræðuna.

„Og kaustu sjálfan þig?“ spurði ég.

„Nei,“ var svarið. „Mér finnst eigingjarnt að kjósa sjálfan sig.“

Þá veit maður það. Hversu margir pólitíkusar skyldu nú hugsa á þennan hátt?

Svo í gær voru niðurstöður kosninganna kynntar.

Rúnar Atli vann!

Bekkjarforseti, hvorki meira né minna.

Ég var alveg steinhissa, en auðvitað rígmontinn.

Nú þarf hann að fórna a.m.k. einum frímínútum í viku til að funda með öðrum bekkjarfulltrúum og tveimur kennurum sem stýra starfinu. Ég veit satt að segja ekki alveg hvað felst í starfi nemendaráðsins, en það kemur í ljós.

Ekki hefur drengur þennan félagsmálaáhuga frá mér, svo mikið er víst. Móðir hans var víst eitthvað í svona stússi í grunnskóla á sínum tíma, svo kannski kemur þetta þaðan.

Hver veit?

29. ágúst 2013

Níu ára klassapiltur

Stór dagur í dag.

Níu ára afmæli sonarins.

Lengi hefur verið beðið eftir þessum degi. En eins og aðrir dagar kom hann að lokum.

Að sönnum Afríkusið var dagurinn tekinn snemma, sest niður við morgunverðarborðið upp úr klukkan sex til að opna pakkana.

Móðir piltsins unga var búinn að hóta honum að hann fengi annað hvort nærbuxur eða sokka í pakkanum frá sér. Eins og góðra mæðra er siður stóð hún við loforðið og upp úr fyrsta pakkanum komu ... sokkar.


Piltur er búinn að skrá sig í þríþraut í eftir-hádegis-námskeiðum í skólanum. Ætlar sér greinilega að verða járnkarl. Þar sem góðan reiðhjólahjálm vantaði þá kom einn slíkur úr pakka.


Systur pilts brugðust ekki frekar en fyrri daginn. Í öðrum pakkanum sem frá þeim barst var hvorki meira né minna en hlaupabretti. Foreldrarnir krossuðu sig í bak og fyrir, en sem betur fer var líka hjálmur í pakkanum og olnboga- og hnéhlífar.

Eins gott.

Nú er semsagt hægt að „skeita“ og verða gegt góður „skeitari.“


Svo var síðasti pakkinn. Uppúr honum kom gítar! Drengur hefur sýnt áhuga á að glamra á svoleiðis hljóðfæri og er einmitt að læra gítargrip í tónmennt í skólanum.

Flottur er hann með gítarinn sinn nýja.


Í skólann var svo farið með helling af skúffukökum. Var víst gerður góður rómur að þeim og afmælisbarnið sjá til þess að ýmsir kennarar fengu köku líka. Eins gott að hafa kennarana með sér í liði.

Á morgun koma svo þrír góðir vinir og fá að gista eina nótt. Bíómaraþon og eitthvað álíka skemmtilegt. Það verður partíið þetta árið. Reyndar verður svo Íslendingaafmæliskaffi á laugardaginn. Þá hljóta að verða ástarpungar í boði.

Piltur er sáttur með daginn.

 

28. júlí 2013

Setið að kjötkötlum

Til eru fleiri snillingar heldur en Sigmund, Halldór og Henrý Þór sem gera málefnum, sem hátt ber hverju sinni, skil á teiknuðu formi. Í Malaví birtast teiknaðar myndir af þessu tagi í dagblaði, sem nefnist Þjóðin (The Nation), eftir mann sem heitir Ralph Mawera. Myndaflokk sinn nefnir hann „Point of order“ sem mætti útleggja sem „Þetta er vítavert!“ á því ylhýra, með tilvísun í hvað forseta alþingis ber að segja „[e]f þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu...“ (gr. 78 í lögum nr. 55 frá 1991 um þingsköp).

Undanfarið ár hafa launamál ríkisstarfsmanna í Malaví verið reglulega í fréttum. Malavíski kvakinn hefur fallið gríðarlega gagnvart helstu gjaldmiðlum, sem hefur ollið hárri og viðvarandi verðbólgu í landinu. Ríkisstarfsmenn hafa kvartað mikið yfir launum sínum, hótað aðgerðum, og fyrr á árinu lögðu þeir niður störf í rúma viku. Ýmis opinber fyrirtæki hafa glímt við verkföll. Ríkið hefur þrisvar undangengið ár hækkað laun ríkisstarfsmanna, en mun minna er kröfur hafa verið gerðar um.

Fyrir u.þ.b. viku gerðist það að þingmenn úrskurðuðu sjálfum sér dágóða hækkun á dagpeningum og ýmsum sporslum sem þeir eiga rétt á. Loguðu blöð og útvarpsstöðvar í vanþóknun á þessu. Og svo kom þessi mynd frá honum Ralph Mawera - „Þetta er vítavert!“ (smellið á myndina til að sjá hana stærri.)

Þar sjáum við horaðan og væskilslegan ríkisstarfsmann sitja að snæðingi yfir hálftómum diski. Á næsta borði situr búlduleitur þingmaður hámandi í sig mat og svignar borðið undan kræsingum. Þjónn frá þinginu ber honum síðan góða viðbót. Ríkisstarfsmaðurinn horfir á í forundran: „Allt þetta bara í eftirrétt?“ spyr hann.

Neðst á myndinni sjást tveir menn. Annar segir: „Þeim sem mikið hafa, þeim verður meira gefið,“ og hinn svarar: „Að sjálfsögðu.“


Ég er nú ekki frá því að þessa mynd mætti staðfæra yfir á íslenskar aðstæður. Eða hvað?

26. júlí 2013

Gáfað excel, eða hitt þó heldur

Í gær lenti ég í því að Excel hrundi á vinnutölvunni hjá mér. Gerist öðru hverju, enda er tölvan með Windows stýrikerfisrusli.

Hvað um það, excel reyndi að sýnast gáfað þegar ég endurræsti og bauð mér upp á val á milli þess að opna síðustu útgáfu sem ég vistaði, eða síðustu útgáfu sem excel sjálft setti einhvers staðar til hliðar. Sjálfsagt vitandi það að hrunið mun koma fyrr en seinna.

Nema hvað, mér þótti svolítð merkileg dagsetning á öðru skjalinu sem ég var með opið. Svo merkilegt að ég bað tölvuna að taka mynd af þessu fyrir mig.

Lítið á neðsta skjalið. Þessi útgáfa af skjalinu var búin til klukkan 2:00 að morgni 1. janúar árið - já haldið ykkur - árið 1601!

Það mætti halda að maður væri í einhverri skáldsögu Jules Verne.

En mikið er excel sem sagt heimskt.

13. júlí 2013

Ný dekk - loksins

Eins og tryggir lesendur muna, þá lenti ég í vandræðum í hjólreiðatúr um daginn. Ég lenti í kjölfarið í vandræðum með að finna dekk, en staðhættir í Lílongve eru þannig að þær hjólabúðir sem ég veit um eru í svokölluðu hverfi tvö. Til að komast þangað þarf að fara yfir Lílongve-ána, en brúin sú arna, er fara þarf yfir, er alræmdur flöskuháls í umferðinni. Ég skrökva ekki þegar ég segi að það sé biðröð yfir brúna allan liðlangan daginn.

En, ég fann slöngu í einni búð og gat því farið að hjóla aftur. Bar reyndar ekki fullkomið traust til dekksins, en lét mig hafa það. Þið þekkið þetta: „Ég hlýt að komast þessa ferð á leiðarenda.“ Svo kemst maður þá ferð og hugsar þá það sama um næstu ferð.

Auðvitað hlýtur svona að enda með ósköpum. Eða hvað?

Jú, auðvitað gerir það það.

Á miðvikudaginn var, þá var ég nýlagður af stað úr vinnunni þegar hvellsprakk. Og ég meina hvellsprakk. Þegar ég fór að skoða skaðann, þá varð mér strax ljóst að hann yrði ekki bættur á staðnum. Dekkið hafði hreinlega rifnað á 20 sm kafla. Síðar sá ég að yfir 10 sm langt gat var á nýju slöngunni. Ég hringdi því eftir aðstoð og lét keyra mig heim.

Svo í morgun, þá peppaði ég mig upp í að fara yfir brúna og kíkja í hjólabúð í hverfi tvö. Það tók kannski 15 mínútur að komast þessa 400 metra sem brúin líklega er. Þokkaleg hratt get ég sagt.

Keypti tvö dekk og tvær slöngur. Ákvað að skipta bæði að framan og aftan. Og nú er hjólið tilbúið í ævintýri næstu viku. Komin með þessi fínu kínversku dekk. Hjólið sjálft er svart og rautt á litinn. Því fannst mér flott að finna dekk með rauðri rönd.

Mjög lekkert.

 

1. júlí 2013

Tíu mismerkilegir staðreyndir um Kanada í tilefni Kanadadags

Í dag er Kanadadagur, sem er þjóðhátíðardagur Kanada. Þann dag fyrir 146 árum sameinuðust þrjár breskar nýlendur í N-Ameríku í eitt land, Kanada. Smátt og smátt bættust aðrar nýlendur í hópinn, sú síðasta, Nýfundnaland, árið 1949.

Við Gulla bjuggum í Kanada í fimm og hálft ár frá 1991 og þykir okkur vænt um landið. Enda býr Tinna Rut jú þar.

Það er ekki hægt að neita að Kanada er gott land að búa í og leið okkur vel þar. Stundum fáum við þá flugu í höfuðið að flytja þangað aftur, en hingað til hefur ekkert orðið úr svoleiðis pælingum.

En mér datt í hug að punkta niður nokkrar staðreyndir um landið, staðreyndir sem sumir kannski vita, en aðrir ekki. Allt til gamans gert.
  1. Í styrjöldinni 1812 börðust Bretar í N-Ameríku gegn Bandaríkjunum. Þótt Kanada væri ekki til þegar þetta var finnst Kanadabúum að þetta hafi verið þeirra stríð, enda urðu bresku nýlendurnar að Kanada seinna meir. Sumum finnst gaman að segja frá því að í þessu stríði þá náðu Bretar, nei, ég meina Kanadamenn, höfuðborg Bandaríkjanna, Wasington DC, á sitt vald og brenndu borgina. Þ.á.m. Hvíta húsið. Þetta kitlar aðeins.
  2. Tilvist Kanada má rekja til útrásarvíkinga. Hudson Bay félagið, sem í dag er verslanakeðja, svona eins og Hagkaup, var upphaflega í loðskinnaviðskiptum. Það sendi fólk út af örkinni út um allt á sínum tíma (við erum að tala um 16 hundruð og eitthvað og 17 hundruð og súrkál) til að kaupa loðskinn. Útsendarar þess voru upphafsmenn margra byggðakjarna sem seinna urðu borgir. Því má segja að Kanada hafi orðið til vegna þeirra sem vildu „græða á daginn og grilla á kvöldin.“
  3. Kanada tilheyrir enn breska samveldinu. Því er breska drottningin drottning Kanada. Öll lög sem kanadíska þingið setur þurfa samþykki landsstjórans, en hann er fulltrúi drottningar og skipaður af henni. Reyndar leggur forsætisráðherra Kanada til hver á að vera landsstjóri og drottningin samþykkir alltaf. En, engu að síður, svolítið skrýtið.
  4. Hlynsíróp er eitt af því sem Kanadabúar eru hvað hreyknastir af.
  5. Langar þig að taka þátt í róðrarkeppni í risastóru graskeri? Kanada er staðurinn!
  6. Við Íslendingar stærum okkur oft af súrsuðum hrútspungum. Sumsstaðar í Kanada eru nautspungar hnossgæti. Mér er sagt þegar nafni minn Bretaprins og frú heimsóttu veitingastað sem sérhæfir sig í svona löguðu, þá varð til nýr réttur: Krúnudjásnin!
  7. Viltu fara út á ystu nöf? Farðu þá í CN turninn í Tórontó og labbaðu hringinn á brún turnsins í 365 metra hæð, festur með einu snæri. Er ekki Hallgrímskirkja ríflega 75 metra há? Klikkaðir þessir Kanadabúar.
  8. Kanadabúar vita - kannski þó ekki allir - að Snorri Þórfinnsson var fyrsta barnið af evrópskum uppruna sem fæddist í Kanada, þá þekkt sem Vínland. Árið var líklega 1004. Að hann hafi flust aftur til Íslands og orðið bóndi í Skagafirði vita líklega færri.
  9. Við eigum Lagarfljótsorminn (nema hann sé dauður úr mengun) og Kanadabúar eiga Ógópógó. Sex til 20 metra langur vatnaormur sem hefur margoft sést síðan 1872 er hann sást fyrst svo vitað sé.
  10. Svo að lokum eitt með Vestur-Íslendingana. Einhverra hluta vegna finnst þeim vínarterta vera það íslenskasta af öllu íslensku. Skrýtið.
Kanada - til hamingju með daginn!

30. júní 2013

Hjólatúrinn tók óvænta stefnu

Skömmu eftir hádegið lagði ég af stað í hjólatúr. Fór einn síðasta sunnudag og vildi ekki vera minni maður í dag. Þá hjólaði ég um sveitirnar hér í kringum borgina, en við búum í jaðri hennar. Í dag ákvað ég að hjóla innan borgarmarkanna. Var kominn með sirka leið í kollinn þegar ég lagði af stað. Markmiðið var að hjóla milli 20 og 25 kílómetra. Áætlaði ég sirka einn og hálfan tíma í þetta.

Í upphafi gekk vel. Á sunnudögum er frekar minni umferð en aðra daga, ja, a.m.k. fram að kaffileyti. Þá fara bílar að streyma inn í borgina í helgarlok. Því hef ég minni áhyggjur af umferð á þessum tíma sunnudags sem ég var á ferli.

Ætli ég hafi ekki verið kominn góða átta kílómetra þegar springur á hjólinu. Afturdekkið er orðið frekar vafasamt, en ég fresta alltaf fram í „næstu viku“ að kaupa nýtt dekk. Ég held ég hafi nuddast utaní beittan stein með þeim afleiðingum að gat kom á slönguna. En, ég reyni að vera við öllu búinn á þessum hjólaferðum, með bætur og einhver svona margfeldisreiðhjólaverkfæri. Svona verkfæri sem er einn hlutur, en hægt að umbreyta í allskonar sexkanta og ég veit ekki hvað og hvað. Margfeldisverkfæri. Gott orð.

Ég tek því afturhjólið af og fer að dunda mér í viðgerð. Hún gekk bara ágætlega og eftir kannski 15-20 mínútur var bótin komin á og bara eftir að pumpa í dekkið. Það gekk hins vegar ekki eins og í sögu. Ég er með einhverja svona handhægispumpu. Pumpu sem fer lítið fyrir og hægt að koma ofan í litla poka eða töskur. Hins vegar er ekkert handhægt við að pumpa með henni. Hún er svo stutt að hvert „pump“ hefur voða lítið að segja. Síðan ofhitnar hún hressilega þannig að erfitt er að halda utan um hana eftir 30-40 „pump“.

Ég sat því þarna við götukantinn, undir tré vel að merkja, og pumpaði og pumpaði. „Eitt hundrað pump í viðbót,“ hugsaði ég hvað eftir annað. Og pumpaði eitt hundrað „pump.“ Og svo eitt hundrað í viðbót. Og enn einu sinni eitt hundrað...

Þið fattið.

Þetta var farið að taka hressilega á. Svitinn bogaði af mér, enda þokkalegasti hiti svona um miðjan daginn. Örugglega 25 gráður á vin okkar Selsíus. Smátt og smátt varð dekkið aðeins stífara. Að lokum lagði ég af stað. Ætli viðgerðin, með öllu, hafi ekki tekið í kringum 40 mínútur.

Dekkið var nú engu að síður frekar lint, svo ég fór í hægara lagi. Vildi ekki eiga á hættu að skemma gjörðina, ef mikið högg kæmi á hana. Þetta er nefnilega einhver eðalgjörð, komst ég að um daginn. Ég hafði ekki hugmynd um það, en það eru til fyrirtæki sem sérhæfa sig í framleiðslu reiðhjólagjarða. Þá vitið þið það.

Ætli það hafi ekki verið fimm kílómetrum síðar sem dekkið sprakk aftur. Kannski ofsögum sagt að það hafi hvellsprungið, en þó þannig að loftið hvarf úr því í einu vettfangi.

Barasta „PÚFF!“ Og allt loft úr dekkinu.

Ekki voru falleg orð sem þutu um kollinn á mér. Ekki þó blótsyrði, enda veit sonur minn ungur að ég blóta ekki. En það eru nú til nokkur kröftug orð sem skilgreinast ekki sem blót.

Fyrir þá sem þekkja til var ég rétt við Vegamótahótelið (Crossroads). Enn slatti eftir heim. Svo ég kippi hjólinu aftur af og fer að toga út slönguna. Uppgötva þá að ventillinn hafði hreinlega rifnað af slöngunni.

Takk fyrir! Maður gerir ekkert við svoleiðis.

$#!# kínverskt slöngudrasl!

Ég sá mína sæng upp reidda. Tróð slönguræflinum inn í dekkið, smokraði dekkinu upp á gjörðina, setti hana aftur á hjólið og gerði það sem Malavar gera alltaf.

Labbaði af stað.

Og labbaði og labbaði þar til ég kom heim. Fjórum kílómetrum síðar. Þá hafði ég verið, samkvæmt staðsetningartækinu mínu, einn klukkutíma og fjörutíu mínútur á ferð og ríflega fimmtíuogfimm mínútur í kyrrstöðu. Meðalhraði ríflega níu kílómetrar á klukkustund. Heildarvegalengd var 17 komma þrír kílómetrar.

Svosum ágætis dagsverk, líkamsræktarlega séð. Og öll pumpunin! Maður minn. Þessar 55 mínútur ekki-á-ferð, voru ekki afslöppunarmínútur. Engan veginn.

En núna er ég kominn heim. Sit bak við hús. Timbrið á grillinu búið að kolagerast og marineruð lambarif komin ofan á. Einhvers staðar á ég rauðvín.

Nú á ég skilið að gera vel við mig í mat og drykk.

23. júní 2013

Afraksturinn!

Þá er bakstri lokið þessa helgina. Svolítið moj í kringum þetta allt saman, en nú er þessu lokið. Og afraksturinn... jú, hann var fínn.

Svona litu rúllurnar út áður en þær fóru inn í ofninn.

Og hér eru tvö nýbökuð brauð komin á disk.

Þau smakkast betur en úr bakaríinu, svei mér þá.

Svo er að skella nokkrum í frystipoka og sjá hvernig þau smakkast síðar í vikunni. Ég held það sé víst að ég þurfi ekki að kaupa mér brauð næstu daga.

 

22. júní 2013

Brauðgerðarlist

Þá er ég orðinn einn í kotinu. Eiginkona og sonur okkar ungur farin til Íslands. Líða víst sjö vikur eða svo áður en þau koma til baka. Í það minnsta segir hið óskeikula exell mér að í dag séu 47 dagar þar til þau lenda í Lílongve á nýjan leik.

Og hvað á svo að gera í einverunni?

Einvera af þessu tagi líkist svolítið áramótum í því að maður fyllist einhverri uppblásinni þörf að gera eitthvað merkilegt. Að setja sér einhver háleit markmið sem skal ná á meðan á einverunni stendur.

Að sjálfsögðu er ég með langan lista. Hvað annað?

Eitt af því sem mig langar til að bæta mig í er brauðgerð. Hér í Lílongve eru brauðgerðarmenn ekki miklir listamenn. Hvítt brauð og brúnt fæst í búðum, en ekki mikið annað. Reyndar hræ-billeg, ekki nema 60-70 krónur brauðhleifurinn.

Reyndar er brauðgerð ekki nýtt áhugamál. En einhverra hluta vegna hefur brauðgerð aðeins vaxið mér í augum í gegnum tíðina. Hnoðun á deigi hefur mér aldrei þótt skemmtileg. Hreinlega bara erfið. Fyrir einhverjum árum keyptum við okkur brauðgerðarvél. Það þótti mér lúxus. Vatni, hveiti, geri og einhverju smálegu öðru hent í þar til gert ílát og svo bara ýtt á takka. Voilà, eftir þrjá tíma er komið ilmandi brauð. Auðvitað er síðan algjör snilld að tímastilla brauðgerðarvélina. Henda hráefninu ofan í brauðgerðartunnuna, stilla tímarofann, og svo þegar vaknað er að morgni þá bíður nýbakað brauð í eldhúsinu.

Ég hef tekið skorpur með þessa vél (ha-ha, föttuðuð þið þennan - skorpur...) en brauðin hafa verið misjöfn. Svo er lagið á brauðinu ekki gott. Einhvern veginn alltof stórt og klossað um sig og erfitt að skera fallegar sneiðar.

Einhvern tímann fyrir ekki löngu þá áttaði ég mig á því hversu frábærlega KitchenAid hrærivélin okkar hnoðar deig. Ekkert mál. Því hef ég prófað að setja í eitt og eitt brauð undanfarið. Með fínum árangri. Hér til hliðar er afrakstursmynd sem ég setti um daginn á fésbókina, svona í smámontkasti.

Hins vegar finnst mér fúlt hvað heimatilbúin brauð eru fljót að verða hörð og þurr. Frábær að borða ný. Allt í lagi að borða þau næsta dag eftir bökun, en ekki eru þau góð á öðrum degi. Ekki er þetta svona með búðarbrauðin. Þau endast lengur. Oft miklu lengur. Enda örugglega full af rotvarnarefnum. Bara þar er nú fín ástæða til að baka sín eigin brauð.

Draumurinn er að baka brauð um helgar sem hægt sé að borða út vikuna. Því er ekki nóg að vera flinkur að baka, heldur þarf að spá í frystingu og afþýðingu. Því er ég nú að lesa mér til um brauðgerð og er núna tilbúinn að gera tilraunir.

Ég bý að því að hafa tvær bækur við hendina. Önnur er Brauð- og kökubók Hagkaups, sem sjálfur Jói Fel leggur nafn sitt við. Hún er ágæt, en þó fæ ég aðeins á tilfinninguna að flýtir hafi valdið smámistökum og ósamræmi.

Hin bókin er eftir sænskan brauðgerðarmann - reyndar súkkulaðigerðarmaður líka - Jan Hedh heitir hann. Bókin er á sænsku og heitir einfaldlega Bröd. Mynd af forsíðu bókarinnar er hér til hægri. Doddi gaf mér þessa bók fyrir einhverjum árum. Hann er jú óþreytandi við að sænskuvæða mig. Erfitt verk, en ekki gefst hann upp.

Gamla dönskukunnáttan og þýðingarsíða Google gera að verkum að ég get stautast í gegnum þessa bók. Verð ég að viðurkenna að þessi bók stendur Hagkaupsbókinni mun framar. Allskonar hollráð eru veitt, sum sem ég hefði aldrei látið mér detta í hug.

Tilraun helgarinnar að þessu sinni, úr sænsku bókinni, er ítalskt brauð sem kallast Cornetti. Útbjó ég áðan fordeig sem fær að súrna aðeins í dag og nótt. Skv. bókinni er þetta bráðnauðsynlegt til að ná „ítalska bragðinu.“ Svo á morgun held ég áfram með deigið og baka brauðið. Reyndar eru þetta mörg smábrauð. Ef ég skil sænskuna rétt...

Þetta er fyrsta sinn sem ég ræðst í tveggja daga bakstur og er ég spenntur að sjá hvernig til tekst.

18. júní 2013

Sumir lenda í ræsinu

Í gær fórum við út að borða. Enda var jú lýðveldisdagurinn og því við hæfi að gera sér dagamun. Kínamatur á einu af flottustu hótelum bæjarins varð fyrir valinu. Gullni páfuglinn, heitir það, hvorki meira né minna.

En, ég ætlaði nú ekki að skrifa um kínverska veitingastaðinn.

Nei, ég ætlaði að skrifa um það sem gerðist þegar heim var komið.

Núna leggur maður bílnum varlega í bílskýlinu, því litlu hvolparnir - fjögurra vikna - eru farnir að flækjast svolítið um. Ekki vill maður nú hafa á samviskunni að keyra yfir þessi litlu grey. Mér tókst að leggja áfallalaust að þessu sinni. Enda fór Rúnar Atli út áður en ég lagði til að tryggja að hvolparnir væru ekki fyrir.

En þegar við komum út úr bílnum - ekki gleyma að það er niðamyrkur eftir klukkan hálfsex þessa dagana - þá heyrðum við óttalegt væl í hvolpunum. En áttuðum okkur ekki alveg á hvaðan það kom. Svo rennur Rúnar Atli á hljóðið og þá kemur í ljós að einn hvolpanna hafði stungið sér ofan í niðurfallið sem tekur vatnið úr eldhúsvaskinum.

Ég sting höndinni ofan í niðurfallið og finn eitthvað mjúkt viðkomu. Sá ekki neitt í myrkrinu. Vonaði að þetta væri nú ekki rotta eða eitthvað svoleiðis kvikindi... Nei, heyrði nú í hvolpnum, svo ég vissi nú að þetta væri hann. Dró vesalinginn upp, en hann var hálf dasaður greyið.

En, ég heyrði enn væl upp úr niðurfallinu. Dró upp farsímann til að fá smábirtu og sá glitta í ljósa hvolpinn þarna ofan í. Hann hafði sem sagt verið undir hinum í rörinu. Ég lét því höndina vaða ofan í á nýjan leik og náði þessum upp. Hann var löðrandi blautur og lyktaði eins og... ja ... eins og eitthvað úr ræsinu. Og var eiginlega varla ljós á litinn lengur.

Haldiði ekki að ég heyri svo enn meira væl upp úr rörinu!

Ég rýndi ofaní en sá ekkert. Stökk því inn í eldhús og náði í ennisljós sem var þar í skúffu. Kíki svo aftur ofan í. Sé ég þar ekki hvolpsaugu rétt yfir vatnsborðinu. Rétt náði að grípa utanum höfuðið á þessum hvolpi og dró hann upp. Eiginlega með hálfgerðu hálstaki. Sá var ógeðslegur ásýndar. Fosslak af honum drullan og lyktin, maður minn, sú var ekki góð.

Fjórði hvolpurinn hafði haft vit á að elta ekki systkini sín þarna ofaní, svo nú tók við hreinsunarstarf. Dýfðum vesalingunum ofan í volgt vatn í eldhúsvaskinum og margsápuðum þá. Það gekk erfiðlega því það var einhver olíubrák á þeim, en að lokum tókst þetta.

Síðan lokuðum við þá inni í þvottahúsinu, ásamt móðurinni, til að þeir færu sé ekki frekar að voða, og einnig til að þeim væri þolanlega heitt. Svo kíktum við nokkrum sinnum á þá síðar um kvöldið.
Í morgun voru þeir sprellikátir, svo þeim virðist ekki hafa orðið meint af volkinu.

En, þegar ég skoðaði aðstæður betur, þá áttaði ég mig á því að það vantaði grindina ofan á niðurfallið. Þess vegna duttu greyin bara ofan í, hvert á fætur öðru. Sá fyrsti hefur náð að snúa sér við, því hausinn fer alltaf á undan hjá þeim, og síðan hefur hann haft fótfestu í fyrstu beygju á rörinu. En bara rétt haft hausinn uppúr. Svo hinir ofan á.

Alveg með ólíkindum að þeir skuli hafa haft þetta af. Við vitum auðvitað ekki hversu lengi þeir voru þarna ofan í.

Hér er mynd af niðurfallinu, ásamt fæti Rúnars Atla. Núna er komin grind, eins og vel sést. Var fyrsta verk í morgun að kaupa svoleiðis. 


En, sem betur fer eru hvolparnir hressir. Hér er Rúnar Atli með tvo þeirra...


... og svo hina tvo.


Allt er gott sem endar vel.

Og þá sérstaklega ef maður endar ekki í ræsinu...


17. júní 2013

Enn eitt beltapróf

Eins og margoft hefur komið fram í pistlum mínum, þá leggur sonurinn stund á karate. Finnst mér virðingarvert hversu stífa stund hann leggur á þessa íþrótt. Æfir yfirleitt þrisvar í viku og skemmtir sér vel.

Nú um helgina fór fram beltapróf. Svoleiðis próf eru haldin þrisvar á ári hér. Núna náði guttinn sér í grænt belti. Er þar með að ljúka sjöttu gráðu (6 kyu) og hálfnaður upp í gegnum kyu stigann, en á toppnum þar er svart belti. Þá hefst frekara stigakerfi innan svarta beltisins, en ég er nú ekki enn farinn að velta því kerfi fyrir mér. Ekki ennþá.

Einbeiting er mikilvæg í karate. Á þessum árum sem guttinn hefur æft karate hef ég séð mikla breytingu á stílnum og ákveðni í öllum hreyfingum. Kennarinn er líka endalaust að benda nemendunum á eitthvað sem betur má fara. T.d. í svona stöðu eins og hér til hægri, er algengt að hægri hendin sígi aðeins og bendi því ekki fram heldur skáhallt niður. Kennarinn er óþreytandi á að leiðrétta svona.

Eins hvort lófinn á hinni hendinni vísi upp eða til hliðar. Allt þetta skiptir máli. Hvert snúa tærnar? Endalaust nostrar kennarinn við þá og smátt og smátt síast þetta inn.

En þarna sjáið þið að Rúnar Atli er með appelsínugult belti með grænni rönd. Eftir þetta beltapróf er hann kominn með algrænt belti.

Ætli hafi ekki verið um 50 krakkar sem þreyttu beltaprófið að þessu sinni. Langflestir eru tiltölulegir byrjendur með hvít og rauð belti. Svo smám saman fækkar krökkunum eftir því sem beltin verða hærri, enda er karate ekki öðrum vísi en annað. Áhuginn er oft mikill til að byrja með en svo þegar nýjabrumið hverfur þá minnkar áhuginn. Enda er margt annað sem hægt er að gera. Lílongve er ekki frábrugðin öðrum stöðum þar.

Rúnari Atla finnst sport í því að vera oft í öftustu eða næst öftustu röð þegar hópæfingar eru. Þá eru byrjendurnir fremst í salnum og þeir reynslumeiri aftar. Á þessu beltaprófi var hann í öftustu röð og það finnst honum skemmtilegt. Svo fá þessir reynslumeiri oft að gera æfingar fáir í hóp og það finnst honum einnig gaman.

Hér er mynd af hálfri öftustu röðinni.


Í karate er mikið sparkað. Hér er kennarinn, sensei George,  að leyfa Rúnari Atla að láta ljós sitt skína í spörkum. Kennarinn gleymdi sparkvettlingunum heima, en lét það ekki slá sig út af laginu. Náði í flip-flops, eins og opnir plastskór, töfflur, kallast hér og lét krakkana sparka í þá.

Hér er flott spark í uppsiglingu:


... og svo smellur hátt í skónum.


Ekki má gleyma að æfa vinstri fót líka.


Og svo ein sparkmynd til viðbótar að lokum.
 

Jafnvægi virðist ekki vandamál á þessum aldri.

Svo er æfing á eftir. Skiptir engu þótt það sé lýðveldisdagur Íslands. Rúnar Atli ætlar að mæta til að sjá hvort eitthvað verði öðrum vísi að vera með grænt belti. Þetta verður síðasta æfing fyrir Íslandsferð. Innst inni veit ég að hann vonar að enginn mæti með hærra belti en hann.

Þá er víst skemmtilegast á æfingu.

26. maí 2013

Góðgerð í morgunsárið

Við Rúnar Atli tókum daginn snemma í dag. Vöknuðum á sama tíma og á skóladegi. Ástæðan var að pilturinn ætlaði að taka þátt í góðgerðarhjólreiðum til stuðnings blindum og sjóndöprum börnum. Er þetta á vegum Lions í Malaví. Hann hafði safnað áheitum og nú átti að hjóla eftir hlaupabraut á íþróttavelli hér í Lílongve eins marga hringi og hann kæmist.

 Hér er piltur klukkan rétt rúmlega sjö í morgun tilbúinn í slaginn.

Er á fína Mongoose hjólinu sem var keypt á Íslandi fyrir tæplega tveimur árum. Hjólið fer að verða of lítið. Búið er að hækka hnakkinn nokkrum sinnum og nú er orðið lítið eftir af hnakkstönginni.

En hverju sem líður því, þá var svo farið að hjóla. Og það var hjólað og hjólað. Hring eftir hring. 

Stundum var stoppað til að fá vatn að drekka hjá aðstoðarmanninum. Í leiðinni var spurt um fjölda hringja sem búið væri að fara. Var ekki laust við að aðstoðarmaðurinn, sem hafði einnig það hlutverk að telja hringi, væri grunaður um græsku. Stundum voru menn nefnilega ekki sammála um töluna. En ávallt var komist að niðurstöðu.

Svo var hjólað meira.


Rúnar Atli býr enn að því að hafa fengið gefins hjólaföt af konunni sem seldi mér reiðhjól í fyrra. Hann var ósköp feginn að hafa púða í buxunum, ekki síst þegar leið á.

Eftir því sem leið á morguninn fjölgaði hjólreiðafólkinu. Stundum hljóp mönnum kapp í kinn og fóru að keppast við nágrannann. Bara gaman að því.


Rúnar Atli hjólaði 47 hringi á vellinum. Mér þótti það vel að verki staðist. Hringurinn er 400 metra langur, þannig að heildarvegalengdin sem hann hjólaði var 18,8 kílómetrar.

Safnaði hann 25.000 kvökum, sem er í kringum níu þúsund krónur.

Morgunstund gefur gull í mund.

21. maí 2013

Fjórir hvolpar til viðbótar!

Þegar við vöknuðum í morgun uppgötvaðist að í nótt fæddust fjórir hvolpar! Já, hún Bounty var ekki í vandræðum með þetta að þessu sinni. Sá bara alveg um þetta sjálf og þurfti enga aðstoð frá okkur. Þrír hvolpanna eru svartir og einn hvítur.

Úff, þá eru hundarnir hjá okkur orðnir níu!

Einhverjir þessara nýja fara örugglega eitthvert í fóstur...

Meiri fréttir síðar og örugglega koma þá myndir. Rúnar Atli á reyndar eftir að sjá stubbana, því hann var farinn í skólann þegar þetta uppgötvaðist.

19. maí 2013

Afróvisjón?

Í gærkvöldi fórum við Gulla í kvöldverðarboð. Gestgjafinn var írsk kona og sátu 16 manns til borðs hjá henni. Maturinn var fínn, meðal annars Guinness-gúllas. Já, gúllas soðið upp úr Guinness bjór. Smakkaðist mjög vel, get ég sagt ykkur.

En þarna voru allraþjóðakvikindi, þó flest okkur værum evrópsk. Fyrir utan Íra og Íslendinga, voru þarna fulltrúar Hollands, Finnlands, Þýskalands og Bretlands frá Evrópu. Einnig var þarna fulltrúi Bandaríkjanna, Indlands og - æ, nú er minnið að stríða mér - einhvers mið- eða suður-Ameríkulands. Ég held þá séu allir upptaldir.

Eins og gengur var spjallað um heima og geima. Á einhverjum tímapunkti komst Evruvisjón auðvitað að. Öll okkar frá Evrópu höfðum skoðun á keppninni. Í flestum löndum hefur greinilega í gegnum tíðina þótt lummó að fylgjast með, en flestir þó gert það engu að síður. Finnski kossinn var svolítið ræddur, sem og skrýtin framlög Íra til keppninnar. Kalkúnninn Dustin var þar efstur á blaði.


Einhver, líklega Bandaríkjamaðurinn, velti upp þeirri spurningu hvort Afríka ætti ekki að setja á laggirnar svona keppni.

Afróvisjón.

Hugmyndin þótti ekki slæm. Mikil tónlistarhefð er jú í Afríku og yfirleitt dansað með.  Afróvisjón gæti orðið flott.

Spurningin bara hvernig á að byrja?

18. maí 2013

Ég er íslenskur!

Vinur hans Rúnars Atla, Paolo, er búinn að vera hér síðan í hádeginu. Þeir eru góðir vinir og þarf ekkert að hafa fyrir þeim. Núna áðan, þegar var að rökkva, voru þeir í fótbolta úti á flötinni framan við húsið. Rúnar Atli var búinn að rífa sig úr treyjunni, enda var heitt í dag. Ég stakk upp á að hann færi í hana aftur, því nú færi að kólna.

„Nei,“ svaraði hann að bragði. „Ég þarf þess ekki. Mér verður ekkert kalt. Ég er nefnilega Íslendingur!“

17. maí 2013

Eru ekki orkuboltar þreytandi fyrir okkur hin?

Fyrr í dag skutlaði ég Rúnari Atla á karate-æfingu. Æfingarnar á föstudögum eru ekki í skólanum hans, eins og aðra daga, heldur í fundarsal á móteli einu hér í Lílongve. Kannski 10 km akstur.

Stundum koma einn eða tveir skóla- og karatebræður hans með heim úr skólanum og þeir fá að fljóta með. Enda skemmtilegra að fara með vinum.

Í dag voru vinirnir reyndar fjórir. Þrír guttar átta og níu ára, og svo einn svolítið eldri.

Fimm gaurar samtals.

Og lætin í þeim, jedúddamía, eins og tengdamóðir mín sáluga hefði án efa sagt.

Þeir þutu hér út um allt hús og út í garð þegar þeir áttu að vera að fara inn í bílinn. Á endanum byrsti ég röddina og þá tíndust þeir að bílnum. Stukku svo inn, hver um annan þveran, þegar ég lofaði að þeir mættu öskra eins hátt og þeir gætu þegar ég væri búinn að loka bílhurðunum.

Þeir tóku mig á orðinu...

Og svo var hoppað og ærslast eins og hægt var. Mikið hrópað og hlegið. Mest var að sjálfsögðu hlegið þegar fýlubombur leystust úr læðingi.

Já, svona gekk þetta alla leiðina.

Síðan tók við karate-æfing í 70 mínútur eða svo. Allir voru rennandi sveittir þegar ég náði í pilta.

Var ekki heimferðin róleg? spyrjið þið.

Ó, nei, ekki var því að heilsa. Heimferðin var nákvæmlega eins og ferðin á æfingu.

Nema hvað, umferðin í Lílongve á föstudagseftirmiðdögum sniglast áfram á einhverjum lúsarhraða.

Tók mig þrjú-korter að losa mig við alla guttana og komast heim.

Á meðan - stanslaust stuð í bílnum.

Þvílík orka...

... maður verður bara þreyttur að hugsa um hana...

Hjólað í vinnuna

Þriðja árið í röð pjakkast maður með í að hjóla í vinnuna. Verður að segjast að maður hefur verið frekar slappur við að hreyfa sig það sem af er ári og því fínt að fá hvatningu af þessu tagi.

Við erum tveir hér á Lílongve-skrifstofunni sem tökum þátt. Neyddumst reyndar til að skrá okkur í Reykjavík. Ekkert póstnúmer í Malaví fannst á heimasíðu Hjólað í vinnuna...

Æ, svo hálfpartinn skammaðist ég mín þegar ég fór af stað fyrsta daginn. Ég ruglaðist nefnilega á gírskiptingunni, tvisvar, þrisvar sinnum. Setti í þyngri gír þegar ég ætlaði að létta stigið. Og öfugt.

Ekki gott til afspurnar. Og nú er þessi vitneskja komin á veraldarvefinn.

Jæja, ég hlýt að lifa það af.

En ég er búinn að hjóla til og frá vinnu í sjö daga. Tvisvar hef ég meira að segja notað hjólhestinn til að komast á fundi. Það hefur vakið athygli. Ekki á hverjum degi sem „maður í minni stöðu“ (svo maður ofmetnist nú) hjólar á fund. Ég hélt því reyndar fram við kollega mína að þetta væru nýjar aðgerðir íslenskra stjórnvalda í niðurskurði, að skikka alla til að fara á hjóli á fundi. Kollegarnir keyptu það nú ekki alveg.

Væri reyndar ekki vitlaus hugmynd. Myndi spara bensín, þar með vernda umhverfið, og svo til lengri tíma leiða til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Væri ekki flott fyrir þá Sigmund og Bjarna að hjóla til Þingvalla í bústaðinn?

En, nóg komið af bulli.

Á þessum sjö dögum hef ég hjólað 132 kílómetra. Mér finnst það vel að verki staðið. Næstum því 19 km að meðaltali á dag. Reyni að hjóla ekki alltaf sömu leið og hef mest hjólað 23 km á einum degi.

Sex dagar til viðbótar og þá er kvótinn fylltur þetta árið.

Hjóla svo!

5. apríl 2013

Utankjörstaðakosningasaga

Fyrir nokkrum dögum var haldinn kjörfundur vegna alþingiskosninga heima hjá okkur Gullu. Þannig vill nefnilega til að ég er kjörstjóri hér í Malaví. Frést hafði af fari heim og þótti tilvalið að koma sem flestum kjörseðlum heim með þessari ferð. Lét ég því boð út ganga að hægt yrði að kjósa og fá miðdagskaffi og vöfflur með sultu og rjóma.

Mættu hingað nokkrir landar og greiddu sín atkvæði, allt samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum. Hélt ég að engir eftirmálar yrðu síðan.

Nema hvað. Einhverjum klukkustundum eftir að kjörfundi lauk, birti einn kjósenda eftirfarandi fésbókartilkynningu:
Var alveg staðráðinn í að hunsa þingkosningarnar. En svo kom ég á kjörstað í dag og fékk vöfflur með rjóma og sultu. Þá varð ég svo hamingjusamur að ég fyllti út kjörseðil og sinnti allri pappírsvinnunni sem fylgir utankjörstaðaatkvæðum. Sé svo núna að ég hef gert verstu mistök ævi minnar. Kjörseðillinn endar í malavísku klósetti!
Mér þótti þetta með ólíkindum. Ég fletti upp í öllum mínum kjörstjóraleiðbeiningum, en hvergi er minnst á það að vöfflur með sultu og rjóma séu eigi leyfilegar á kjörfundi. Og ekkert um að þær teljist áróður á kjörstað. Enda erfitt að sjá hvernig það að gera fólk hamingjusamt sé áróður.

Eru kannski einhverjir flokkar sem gera tilkall til þess að vera „hamingjuflokkar“ og aðrir sem eru „óhamingjuflokkar“?  Eða jafnvel „hörmungarflokkar“?

En, í kjölfar þessa atburðar fæddust þessar hnoðlimrur, svona til að reyna að skilja þessa hörmungarupplifun:
Á kjördegi vild'ég ei kjósa
nei, fyrr skal í helvítinu frjósa
æ, fæ mér þó rjóma
vá, söngvar óma
er dásama dýrð í lit rósa
Kjörseðil kátur í mér næ
atkvæði kasta má ei á glæ
nú ég kýs
og gleðin gýs
vöfflu með rjóma víst ég fæ


Svo inn í bílinn ég sest
höndlað hamingjuna fyrir rest
guð minn góður
er ég snaróður?
sturt'öllu niður er best
 

23. mars 2013

Beltapróf

Rúnar Atli baksar alltaf í karate. Honum finnst það skemmtilegt og er ágætlega flinkur í því.

Í morgun var beltapróf. Rúnar Atli var með appelsínugula beltið þegar sólin kom upp í morgun, en er núna kominn með fyrra græna beltið - hálft grænt og hálft appelsínugult. Karate er vinsælt hjá krökkum hér í borginni. Líklega voru milli 80 og 90 krakkar þarna í morgun.

Prófið var í alltof litlum sal svo erfitt var að setja sig í ljósmyndarastellingar. Þó náði ég nokkrum myndum sem fylgja hér með.

Maður þarf að ná niður í gólf í teygjunum

Upphitun

Menn líta fagmannlega út

Allt gert eftir kúnstarinnar reglum

Einbeiting

Kurteisi og agi er kennt í karate - alltaf þarf að ljúka æfingu á réttan hátt

Foreldrar í Lílongve eru tæknivæddir

28. febrúar 2013

Að læra að funda

Flesta daga minnum við börnin okkar á að hlusta á kennarann, að skila verkefnum á réttum tíma, að læra heima, ekki hlaupa á göngunum sé það bannað og endalaust fleira í þeim dúr. Að hluta til er þetta því við viljum að börnin okkar standi sig vel í skólanum, en að hluta til erum við að kenna þeim að fara eftir reglum samfélagsins. Því við vitum að ef allir fara eftir reglum þá virkar samfélagið okkar eins og við viljum að það virki.

Eitt af því sem sonur minn ungur lærir í skólanum er að vinna hópavinnu. Þar með lærir hann allskonar reglur um fundahöld, því auðvitað snýst hópavinna um að funda saman, ræða málin, komast að niðurstöðu um hvernig best sé að vinna verkefnið sem liggur fyrir, skipta verkefnum sín á milli og í kjölfarið framkvæma það sem samþykkt var. Í hópavinnunni þurfa krakkarnir alltaf að velja sér hópstjóra og ritara. Og auðvitað, auðvitað, verða allir að vera virkir í hópnum.

Mæta á fundinn.

Og af hverju?

Jú sá sem mætir ekki nær ekki að koma sínu sjónarmiði fram. Hann hefur ekki tækifæri til að hafa áhrif á hvernig verkefnið er unnið. Það er slæmt fyrir þann sem hefur skoðanir á hlutunum. Sá sem mætir ekki hefur nefnilega engan rétt á því eftirá að tuða yfir því að horft hafi verið fram hjá hans sjónarmiðum.

Sonur minn er átta ára. Og þetta kann hann og skilur.

Ég held að einhverjir fúlir flokksmenn í ónefndum stjórnmálaflokki heima á Fróni mættu taka átta ára börnin sér til fyrirmyndar.

Ef maður mætir á fund og vill hafa áhrif á ákvarðanir fundarins, þá situr maður fundinn til enda.

Ekki flókið mál.

Af hverju skyldu þeir sem höfðu öðrum og „mikilvægari“ hnöppum að hneppa gera lítið úr starfi þeirra sem fóru eftir reglum og sátu fundinn til enda?

Ég bara spyr.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...