30. apríl 2006

Brúðkaupsveisla

Í gær fórum við Tinna Rut í brúðkaupsveislu. Bróðir hennar Imeldu,
þeirrar sem skaffaði okkur barnapíu, var að gifta sig. Nokkrum sinnum
er búið að tala um að okkur verði boðið og svo í fyrrakvöld, um
níuleytið, hringdi Imelda og sagði mér að mæta næsta dag! Góður
fyrirvari, eða hvað?

En við Tinna fórum sem sagt, og skemmtum okkur bara vel. Reyndar voru
allar ræður og brandarar á afrikaans, en það er móðurmál flestra sem
þarna voru. Þessar fjölskyldur eru það sem kallað er litaðar, og fyrir
löngu, löngu síðan var litið niður á litaða fólkið bæði af hvítum og
svörtum. Endaði þetta fólk í hópum utanveltu og talaði mál nýlenduherrana. Margir þessara hópa enduðu í sunnanverðri Namíbíu á sínum tíma. Hvað
um það, við mættum í þessa veislu. Eftir helling af ræðum var skálað í
kampavíni fyrir brúðhjónunum og síðan farið að borða. Flott hlaðborð
með helling af allskonar kjötréttum, og meira að segja einum fiskrétti.
Eitthvað hefur hnífurinn nú runnið til í flökuninni, því sjaldan hef ég
fengið jafnmikið af beinum úr fiskstykki áður. En maturinn var mjög
góður, það vantaði ekki.

Að loknum matnum var farið að dansa. Hljómsveit lék fyrir dansi og stóð
sig vel. Reyndar rak gítarleikarinn sig í trommusettið, en því var
reddað án þess að slegin væri feilnóta. Heyrðu, ég gleymdi að segja frá
því að brúðguminn tók lagið í miðjum ræðuhöldum. Kom niður á
dansgólfið, dró brúðina með sér, og söng ástarljóð til hennar. Hann kom
mér á óvart með sönghæfileikum sínum, verð ég að segja. Var varla þurrt
auga í kofanum að söng hans loknum og ávann hann sér mikið lófaklapp að
söngi loknum.

Sem sagt, það var farið að dansa. Að sjálfsögðu byrjuðu brúðhjónin og
svo bættust systkini þeirra og makar við í fyrsta lagi. Eftir það var
stanslaust spilað og fólk streymdi á dansgólfið. Greinilega er mikil
dansmenning hjá þessu fólki, því allir kunnu þau dansspor sem þurfti.
Nokkrir voru greinilega miklir dansarar og fóru mikinn. Fyrir einn
dansinn var dreift hveiti á gólfið, því í honum þurfti að vera hægt að
renna sér eftir gólfinu. Síðan voru stundum hringdansar, þar sem einn
stökk inn í hringinn og dró einhvern annan út á gólfið. T.d. fór bróðir
brúðgumans, stór og mikill maður á alla kanta, sennilega tvöfaldur á
breiddina miðað við mig, út á gólfið og ein kona líklega nálægt sextugu
fór með honum og ég hélt hreinlega að þau myndu enda fatalaus á
gólfinu... Í öllum þessum dansi sem var þarna var mikil kátína og grín.
Haldiði síðan ekki að þessi tæplega sextuga kona stansi allt í einu
fyrir framan mig í hringnum, ranghvolfi í sér augunum og bendi mér inn
á gólfi. Ekki fór hjá því að ég væri örlítið hissa, en ekki þýddi að
skorast undan, þ.a. ég stökk bara á móti henni og fór eitthvað að dilla
mér þarna. Hún skakaði sér á alla kanta, með vægast sagt vafasömum
handahreyfingum neðan beltisstaðar, ekki síst í áttina til mín... Ekki
var annað hægt en að taka þátt í þessu, svo ég lét bara ímyndunaraflið
flakka og reyndi að fylgja konunni eftir. Þetta tókst bara skikkanlega
vel og mikið hlegið að þessu.

Við vorum þarna frá sjö til rúmlega ellefu en ég á von á því að fjörið
hafi haldið áfram langt fram eftir nóttu. Hljómsveitin virtist ekki
þurfa nein hlé, heldur var bara spilað lag eftir lag, og alltaf mættu
einhverjir út á gólfið.

Þetta var skemmtileg lífsreynsla.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hefði viljað sjá dansinn. Var engin sem tók upp á video?
Doddi

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...