Loksins rann stóri dagurinn upp. Ég vaknaði snemma, fór í sturtuna og
vakti síðan guttann. Jú, svo þurfti að hleypa vinnukonunum inn, því
ekki gengur að hafa allt í drasli þegar eiginkonan mætir á svæðið. Svo
fékk ég mér teið og jógúrtina og múslíið og Rúnar Atli fékk ristað
brauð, peru og smájógúrt hjá pabba sínum. Síðan skellti ég hornum
(croissants) í ofninn svo við feðgarnir fengum volg horn líka. Fínn
morgunmatur og ég gat ekki látið hjá líða að hugsa að ágætt væri að
þurfa ekki að keyra Tinnu Rut í skólann fyrir sjö á hverjum morgni og
geta frekar setið við morgunverðarborðið. Mitt í mínum dagdraumum pípir
síminn. Sms - frá hverjum, korter fyrir átta? „Lent og er að bíða eftir
töskunni,“ hljómaði skeytið. Sem betur fer eru croissants mjúk, því
eitt sat fast í hálsinum á mér. Lent! En samkvæmt flugmiðanum átti hún
ekki að lenda fyrr en 8:45! Klukkutíma seinna. Virðist sem
flugmiðaútgefandinn hafi ekki áttað sig á því að tímanum var breytt hér
- sjá bloggið í fyrradag.
Hvað um það, Tinna Rut var rifin út - óburstaðar tennur... og Rúnari
Atla hent í aftursætið og svo var brunað af stað út á völl. Litlir 42
kílómetrar, en þar sem hámarkshraðinn er 120 þá er þetta ögn
fljótfarnara en heima á Fróni. Síðan var engin umferð - allir hinir
bílarnir virtust hafa verið klukkutíma fyrr á ferð!? Hvernig vissu þeir
þetta eiginlega?
Við mættum síðan út á völl kl. 8:09:23. Þar sat hún Gulla mín
hálfeymdarleg á bekk með töskuna í fanginu. En síðan tók hann Rúnar
Atli sprettinn, því hann var nú ekki lengi að koma auga á hana múttu
sína. Ó, nei, enda sonur minn. Þarna voru fagnaðarfundir og ekkert
spillti þessi bið fögnuðinum. Meira að segja þótt þessi blessaði mágur
minn í Sverige væri eitthvað að reyna að spilla sambandi hjónanna.
Svo var rúllað í rólegheitum til baka í bæinn. Tinnu Rut varð að ósk
sinni - hún fékk að sitja frammí, því móðirin tróð sér í aftursætið hjá
syninum. Hvað annað?
Nú vantar bara hana Dagmar Ýr og þá verður sameiningin fullkomnuð.
3 ummæli:
OHHHH ekkert smá hjartnæm saga... Ég vona að þú sért búin að ná þér eftir þetta hihi
Ég get ekki BEÐIÐ að koma!!!!!
En eftir 6 daga verð ég komin og þá er allt gott hjá okkur, og eins og það á að vera.
Ekkert kjaftæði!
Núna eru bara 2 dagar þangað til ég legg af stað, og 3 dagar þangað til að ég kem!!!!!!!
Skrifa ummæli