19. janúar 2012

Ef aðeins...

Rúnar Atli fór í gær á sínu fyrstu karate-æfingu í Malaví. Hann var jú í karate á Íslandi í fyrra, en var ekki spenntur fyrir því í haust eftir að við komum hingað.

Ég skal alveg viðurkenna að hafa ýtt svolítið á hann núna að byrja aftur. Mér finnst karate fínt fyrir stráka og stelpur á hans aldri. Þau læra aga og svo er jú heilmikið af alvöru æfingum í karate. Og góðar teygjuæfingar líka. Gott að venjast ungur á að styrkja skrokkinn.

Þegar ég kom heim í gær þá vildi ég auðvitað vita hvernig hefði gengið. Jú, gaman. Ég spurði hann síðan hvort hann hefði gert einhverjar magaæfingar. Ekki vildi hann meina. Teygjur? Nei, hann kannaðist ekki við svoleiðis.

Hmm, mér þótti þetta skrýtið og fór að spurja nánar. Eitthvað varð minn elskulegi sonur þreyttur á pabba sínum. „Sko, pabbi, það getur vel verið að við höfum gert svona æfingar. Ég tók þá bara ekki eftir því!“

Ef aðeins... ef aðeins maður gæti gert maga- og teygjuæfingar án þess að taka eftir því.

Ef aðeins...

18. janúar 2012

Þekkir sitt heimafólk

Fyrir einhverjum dögum vorum við Gulla að stússa eitthvað í eldhúsinu. Þá dæsti frúin allt í einu:

„Æ, stundum er nú gólið í honum Jónatan svolítið þreytandi.” 

Jónatan er auðvitað annar haninn okkar. Hinn ber nafnið Kjartan. Veit ekki alveg af hverju. Kannski eitthvað Strumpadæmi.

En Jónatan er nefnilega svolítið ánægður með að geta galað. Rígmontinn, eiginlega. Galar hann linnulítið liðlangan daginn og byrjar snemma. Mjög snemma.

Þessi yfirlýsing undraði mig þó aðeins, því ég er eiginlega hættur að taka eftir þessu. Spurði ég Gullu hvort hún væri ekki eins. „Jú, yfirleitt,” svaraði hún, „en stundum getur maður bara ekki annað en heyrt.”

Í þeim töluðum orðum var svo enn galað.

Gulla snarhætti því sem hún var að gera, leit upp með undrunarsvip, og sagði síðan ákveðnum rómi: „Þetta var Kjartan!”

Þarf ég að fara að hafa áhyggjur?

15. janúar 2012

Golfáhugi

Eins og dyggir lesendur mínir vita þá tók sonurinn upp á því að fara í golf í skólanum á haustönninni. Auðvitað langaði hann í sínar eigin golfkylfur. Getur nokkur láð honum það? Einhverjir skólafélagarnir eiga jú sitt eigið golfsett. Ég samdi því við hann. Ef hann væri duglegur að mæta og ef hann myndi skrá sig í golf á vorönninni, þá fengi hann sitt eigið golfsett.

Hann var duglegur að mæta alla síðustu önn. Er víst mjög áhugasamur, eftir því sem golfkennarinn segir. Og svo skráði hann sig í golf þegar skólinn hófst að loknu jólafríi.

Skilyrði uppfyllt.

Í gær kom því að skuldadögum. 

Við Gulla fórum með hann í búð sem selur golfsett fyrir krakka og keyptum eitt. Sonurinn var himinlifandi, verður að segjast. Áðan skutumst við svo út í garð, milli skúra, og hann sýndi okkur nokkur högg.

Auðvitað var myndavélin með í för.

Fyrst þarf að halda á settinu út á völl...

... svo stilla því upp, ná í kúlur og svoleiðis.

Því næst koma kúlunni fyrir á réttan stað.

Draga djúpt andann. Taka þann tíma sem þarf.

Sveifla kylfunni langt upp fyrir haus...

... og láta vaða!

 

5. janúar 2012

Bensínstöð í Afríku

Var að skoða myndir sem ég tók á sl. ári og rakst á meðfylgjandi mynd frá ferð okkar í gegnum Sambíu. Þarna voru við búin að aka eitthvað yfir 500 km án þess að sjá bensínstöð og eitthvað á annað hundrað km í þá næstu. Sem betur fer vorum við tilbúin fyrir svona nokkuð.


28. desember 2011

26. desember 2011

Hvað gerðirðu í gær?

Skrapp með frúnni áðan í matvörubúðina. Eigum von á matargestum í kvöld og aðeins þurfti að bæta á búrið.

Náunginn sem vigtar ávexti og grænmeti í búðinni spurði mig hvernig jólin hefðu verið.

,,Jú, ágæt, þakka þér fyrir,'' svaraði ég. ,,En þín jól?"

Náunginn hristi höfuðið og andvarpaði: ,,Ekki góð."

,,Nú?"

,,Mig vantar peninga," var svarið, ,,ef maður á peninga, þá er allt miklu betra."

Við ræddum aðeins hvort peningar væru virkilega svarið við öllu. Að lokum sagði hann: ,,Allt er á leiðinni fjandans til."

Ég var forvitinn hvað hann ætti við.

,,Jú, heimsendir nálgast. Allir spádómar Biblíunnar eru að rætast. Bráðum kemur heimsendir."

Þegar þarna var komið sögu var allt grænmeti vigtað, svo ég þakkaði pent fyrir og hélt áfram að versla. Heimsendir kemur varla í dag.

Svo kom að því að borga. Mjög almennileg afgreiðslustúlka spurði mig hvernig jólin hefðu verið. Þegar ég hafði sagt henni það kom næsta spurning:

,,Fórstu í messu í gær?"

Ekki gat ég svarað því með jái. Og fann vandlætingarstrauma frá þessari annars vinalegu stúlku.

Á leiðinni út í bíl velti ég því fyrir mér hvort hún hefði haldið að hefði farið í kirkju og því væri þetta gott umræðuefni, eða hvort augljóst væri að ég hefði ekki farið og því væri ráð að reyna að bjarga villuráfandi sauði.

Ætli seinni valkosturinn sé ekki líklegri.

25. desember 2011

Aðfangadagur; kominn og farinn

Jóladagur runninn upp hér í Lílongve. Þrjátíu-og-eitthvað stiga hiti og allir taka lífinu með ró. Rúnar Atli dundar sér í dótinu sínu, Tinna Rut og ég sitja úti bak við hús, hundurinn liggur undir borði og hrýtur, Dagmar Ýr prjónar og Gulla farin að stússast í eldhúsinu. Kötturinn... veit ekki hvað hann er að gera, en hænurnar vappa um garðinn.

Gærdagurinn var fínn, eins og við var að búast. Fyrri hluti hans fór í snatt, því ýmislegt þurfti að útrétta, svona eins og gengur og gerist. Svo var ýmislegt smálegt sem þurfti að klára. Síðast jólaskrautið þurfti að komast upp. Dútl við smákökur þurfti að klára og ýmislegt í þeim dúr.

Smákökur, já. Ég bakaði eina tegund, súkkulaðibitasmákökur, Tinna Rut og Gulla tóku piparkökur saman og Dagmar Ýr bakaði mömmukökur. Aðalmálið var auðvitað að leyfa Rúnari Atla að taka þátt í smákökubakstri, en svo æxluðust mál þannig að hann var alltaf upptekinn við eitthvað annað og tók því minnstan þátt í kökubakstrinum.

Svo var það piparkökuhúsið.

Æ, nei, ég held ég sleppi því að segja frá því. Skemmst er frá að segja að það mistókst. Allhrapalega.

Og ekki orð um það meir.

Jólin voru hefðbundin, ja, svona eins og hægt er þegar úti er hásumar og yfir þrjátíu stiga hiti. Jólafötin okkar Rúnars Atla voru t.d. ekki hefðbundin. Báðir vorum við í stuttbuxum og stuttermaskyrtu. Ætli við höfum ekki öll verið berfætt. Held það bara.

Jólasteikin var þó hefðbundin. Við fundum nefnilega svínahamborgarahrygg hér í búð um daginn. Hann smakkaðist vel. Við sáum úti við, en bak við hús erum við með ágætissvæði með matarborði og þar er líka sófasett og grillaðstaða. Þar er yfirleitt svalur vindblær um kvöldmatarleytið og því þægilegt að sitja þar úti og borða.

Ætli sé ekki við hæfi að fyrsta myndin hér sýni uppvöskunarliðið?


Við Dagmar Ýr vorum upptekin við ýmislegt annað mikilvægt, he-humm.

Heyrðu, svo gerðist reyndar merkilegur atburður seinnipartinn í gær. Algjörlega óundirbúinn.

Rúnar Atli missti tönn. Önnur tönnin sem fer þegar hann er að þurrka sér eftir sturtuferð. Ekki veit ég hvernig honum tekst að flækja handklæðinu utan um tönn, en hann hefur nú gert þetta tvisvar. Auðvitað var tekin mynd í tilefni atburðarins.


Þegar hann fór í háttinn um kvöldið, þá átti hann í miklu sálarstríði. Átti hann að setja tönnina undir koddann og fá 500 malavíska kvaka fyrir tönnina, eða átti hann að eiga hana sjálfur og fórna peningunum? Hann ákvað að halda þessari tönn og er því ekki 500 kvökum ríkari í dag. En er sáttur.

Jólatréið var óhefðbundið þetta árið. Við vorum aðeins of sein að kaupa okkur jólatré og voru þau búin þegar til átti að taka. Því skreyttum við bara í kringum arininn, sem við notum aldrei til að kveikja eld í, og skelltum pökkunum inn í arininn. Kom bara vel út.

Hér er myndin sem alltaf er tekin: Börnin hjá „tréinu“ og pökkunum. Takið eftir, öll eru berfætt.


Í bakgrunni sjást marglitir miðar upp á vegg. Á þeim stendur gleðileg jól á margvíslegustu tungumálum.  Veggurinn setur skemmtilegan svip á stofuna.

Eins og hefð er fyrir, þá sá Rúnar Atli um að sækja pakka, lesa á þá, og útdeila til viðeigandi fjölskyldumeðlims. Hann hefur sjóast í þessu í gegnum tíðina og er orðinn glúrinn við að dreifa gjöfunum, þ.a. sá sami sé ekki að opna marga í röð. Ja, reyndar gildir sú regla ekki alveg um hann sjálfan, en ástæðan er jú sú að hann fær megnið af gjöfunum og þarf því stundum að taka upp nokkra í röð.

En hér er guttinn að finna fyrsta pakkann. Ég held meira að segja að þetta sé pakki handa föður hans.


En eins og segir í einhverjum söngtexta, þá var gleðin við völd hjá okkur í gær. Hér er Rúnar Atli spenntur við að opna einn pakka. Auðvitað var hann ánægður með innihaldið. Hvað annað?


Eitthvað hefur stundum gengið brösulega hjá okkur Gullu að láta heimilisbókhaldið ganga upp í lok mánaðar. Því fékk ég þá snilldarhugmynd að gefa henni reiknivél. Héðan í frá mun bókhaldið sko ganga upp. Ekki spurning.


Ein besta gjöfin hennar Tinnu Rutar kom frá systur hennar. Nestisbox og -brúsi merkt bíómyndinni Martröðin fyrir jólin (e. The nightmare before Christmas). Þessi ungdómur er bara ekki alveg í lagi...


Úr Eyjabakkanum komu tvær syrpur. Kátína yfir þeim. Fótboltasokkarnir voru líka vel þegnir, þótt engin sé mynd af þeim.


„Bíddu, hvað er að þessu liði? Bíómynd handa mér sem var búin til þegar pabbi og mamma voru enn táningar.“ Þetta virtust fyrstu viðbrögð Rúnars Atla þegar hann fékk fyrstu myndina um ferðalög Griswald fjölskyldunnar. Honum þykir jólamyndin með skemmtilegri myndum, en eitthvað virtist hann efins um gæði þessarar.


„Hver fær næsta pakka?“ Vandasamt val.


Að lokum er hér ein mynd af Rúnari Atla í jólagjöfinni frá ömmu sinni. Keppnistreyja UMF Grundarfjarðar. Fer honum vel. Enda númer 10, alveg eins og Messi!


Allir fóru sofa í gærkvöldi, þreyttir en sáttir.

Kvöldið var skemmtilegt, þótt á nýjum stað væri. Það undarlegasta var þegar nágrannar okkar tóku upp á því að skjóta upp flugeldum. Það hef ég aldrei vitað neins staðar á aðfangadagskvöldi. Hundurinn okkar var ekki sáttur og kom fljúgandi inn í stofu, hríðskjálfandi. Þetta er annars útihundur, sem aldrei fær að koma inn, en við sáum aumur á honum í gær útaf þessum hávaða. Flugeldahernaðurinn stóð þó ekki yfir lengi.

Svo má ekki gleyma að minnast á flotta gjöf sem við Gulla fengum frá dætrum okkar. Myndaalbúm með hinum og þessum myndum úr okkar lífi. Þær eyddu þónokkrum tíma í að finna myndir og skanna inn og síðan létu þær gera flotta bók úr þessu hjá Odda. Alveg meiriháttar flott gjöf, sem kom foreldrunum mjög á óvart.

Skemmtilegt aðfangadagskvöld þetta árið.

21. desember 2011

Feðgin

Í gær skellti fjölskyldan sér á veitingastað. Þá var þessi mynd tekin af mér og Dagmar Ýri. Sjö ára myndasmiður stóð sig vel þar.



Skriffinnskan endalausa

Nú reiknast mér til að við séum búin að eiga heima í Malaví í ríflega fjóra mánuði. Allan þann tíma höfum við staðið í stappi við að skrá bílinn okkar. Bílinn komum við með frá Namibíu og reiknuðum ekki með neinu veseni við þetta. En, þetta hefur reynst vera sagan endalausa. Alltaf eitthvað nýtt sem þarf að gera, alltaf nýtt eyðublað sem þarf, og ég veit ekki hvað og hvað. Líklega hefur pirrað mig mest hvað erfitt hefur reynst að fá upplýsingar um ferlið fyrirfram. Oft virðist viðhorfið hér vera á þann veg að ef ekki er spurt nákvæmlega um hlutinn þá þurfi ekki að segja frá honum. Reyndar lendir maður líka í þessu í Namibíu, en hér virðist þetta útbreiddari siður.

En í gær gerðist hið ótrúlega: Bíllinn komst á malavískar númeraplötur! Og kerran okkar líka.



Ekki er verra að hafa fengið flott númer.

Í dag verður svo gengið frá tryggingu og þá er allt í höfn.

Eftir rúmlega fjögurra mánaða stapp.

Skiptir stærðin máli?

Þá eru fyrstu eggin komin. Loksins eru hænurnar farnar að skilja til hvers er ætlast af þeim.

En spurningin er þó: skiptir stærðin máli?

Hér á myndinni eru fimm egg frá okkar hænum og eitt búðarkeypt egg.


Okkar egg eru nú ósköp lítil, ekki satt?

Við erum nú ekki miklir bændur og vitum lítið hvað við erum að gera í þessu blessaða dýrahaldi. Mér finnst ekki ólíklegt að eggin stækki eftir því sem hænurnar eldast.

Kemur í ljós.

14. desember 2011

Silfur-hvað?

Tuttugu og fimm ár eru langur tími.

Aldarfjórðungur.

Ríflega helmingur af minni ævi. Svona nokkurn veginn 53%.

Silfur, segja þeir sem þekkja til.

Silfurbrúðkaup.

Já, í dag eru 25 ár síðan við Gulla giftumst.

Mér finnst nú ekkert svo rosalega langt síðan. Einhvern veginn finnst mér að talningin hljóti eitthvað að vera vitlaus hjá okkur. En svo er víst ekki. 2011 mínus 1986 gera víst 25.

Ég man að einhver spurði okkur í kringum brúðkaupsdaginn: Og hvenær kemur svo barnið?

Gulla hlyti auðvitað að vera ófrísk úr því við vorum að taka upp á þessu. Ég 21 árs, alveg að verða 22 og hún 19 ára. Nei, ekkert barn á leiðinni. Það kom ríflega einu og hálfu ári síðar.

Skondið er til þess að hugsa að eldri dóttirin er í dag 23 ára og sú yngri 19. Á þeim aldri sem við vorum þegar við giftum okkur.

Eftir því sem ég best veit eru þær ekkert á þeim buxunum að gifta sig á næstunni.

En það er skemmtilegt að kíkja á moggann frá 14. desember 1986 og sjá hvað var helst í fréttum (á bls. 2, því þá voru bara erlendar fréttir á forsíðu):
  • Mæðrastyrksnefnd: Ástandið síst betra en í fyrra
  • Mælingar sýna fleiri gos undir jöklinum
  • Fjárlög samþykkt til þriðju umræðu
Hefur nokkuð breyst?

Veit það svei mér þá ekki. Þetta gæti vel verið úr mogganum í dag.

Stundum velti ég því fyrir mér hvernig okkur hefur tekist að vera gift svona lengi. Ekki síst þegar ég les fréttir af hjónaböndum fræga fólksins, sem oftar en ekki telja endingartíma í mánuðum. Ég veit svei mér ekki svarið. En mér virðist þó að oftast líði okkur Gullu vel saman. Þyki gott að vita af hvort öðru nálægt.

Hvað ætlum við svo að gera til hátíðarbrigða?

Ekkert voðalega mikið. Við skellum okkur líklega út að borða í kvöld, en lítið annað er planað. Guttinn verður auðvitað í eftirdragi. Ekki þýðir að skilja hann eftir útundan. Við höfum sjaldan haldið mikið upp á daginn. Fórum á súperflott og rándýrt gistihús í eyðimörkinni í Namibíu fyrir fimm árum. Ætli við gerum ekki eitthvað flott á perlubrúðkaupinu.

En dæturnar tvær eru á leiðinni til okkar, sitja núna á flugvelli í Lundúnum, og það verður besta gjöfin að öll fjölskyldan verður saman um jólin.

Úff, manni verður nú hálfóglatt af væmninni...

En, þetta er samt satt.

Gulla, skál fyrir 25 árunum okkar! Megi þau verða mörg til viðbótar.

12. desember 2011

Fjölhæf frúin í starfsnámi

Fyrir einhverjum vikum komum við á stað þar sem konur nokkrar voru að mala maísbaunir. Gulla fékk að prófa við mikla kátínu nærstaddra. Hún bar sig nú þokkalega að við þetta, en ég veit ekki hvort hún myndi endast í djobbinu dag eftir dag.


Lífið er ljúft

Hvað er betra en að slaka á í jólafríinu með paddann hennar mömmu sinnar á grjónapúða systur sinnar?


Æ, já, lífið er ljúft.

11. desember 2011

Kominn aftur til Lílongve

Kominn aftur heim til Lílongve. Skemmtilegri ferð til Namibíu lokið. Þangað er alltaf gaman að koma.

En, sem sagt kominn heim á nýjan leik. Það var gaman að hitta Gullu og Rúnar Atla á ný.

Nú vantar bara dæturnar. Og það styttist í þær. Akkúrat þegar ég skrifa þetta, þá situr Tinna Rut á flugvellinum í Vancouver. Búin með fyrsta áfangann á ferðalaginu sínu. Á morgun lendir hún í Keflavík. Gistir á Fróni í tvær nætur og síðan halda systurnar saman í Afríkuferð. Á fimmtudag lenda þær hér hjá okkur.

Þá verður gaman!

10. desember 2011

Gripinn ,,glóðvolgur''

Lentur í Jóhannesarborg á leiðinni til Lílongve. Þarf að gista hér eina nótt, því flug til Lílongve eru ekki mörg á hverjum degi.

Ég þarf því formlega að fara inn í Suður-Afríku, með tilheyrandi innflytjendaeftirliti. Yfirleitt gengur það smurt fyrir sig. Einn af kostum þess að vera með íslenskt vegabréf er að hægt er að fara til mjög margra landa án vegabréfsáritunar.

Rétt áður en kemur að manni, þá þarf maður að horfa í myndavél sem á einhvern snilldarhátt mælir hitastig húðarinnar á viðkomandi. Komu þeir með þetta fyrir nokkrum árum þegar allir voru skíthræddir við svína- eða fuglaflensu. Þetta tekur augnablik og fólk rennur framhjá þessari myndavél. Fær grænt ljós í bókstaflegri merkingu. Þeir sem sjá um myndavélina virðast frekar leiðir. Enda lítið að gerast.

Þar til kom að mér!

Fór ekki bévítans vélin að blikka rauðu ljósi. Ég bölvaði klaufaskapnum í sjálfum mér að geta ekki staðið kjurr, en það þarf maður að gera. Reyni því að vera grafkyrr, en alltaf blikkar rautt.

Nú voru góð ráð dýr. Átti ég að vera svellkaldur og labba til næsta innflytjendaeftirlitsfulltrúa? Í því sem svona hugsanir þjóta um kollinn á mér, þá lifnar allt í einu yfir verðinum sem glápir á myndavélina. Hann kallar á stúlku sem kemur til mín, segir mér að véli mæli líkamshita minn 37,85 gráður. Því þurfi ég að tala við hjúkkuna á vakt.

Fyrst fékk ég þau að fá stimpilinn í vegabréfið, en síðan var ég leiddur eins og glæpamaður í öfuga átt við alla hina.

Skemmtilegt.

Ég hafði þá tilfinningu að allir væru að stinga saman nefjum og velta því fyrir sér hvað þessi vafasamlega útlítandi náungi hefði til saka unnið.

Ég hitti hjúkkuna. Sagði henni að ég hefði verið í rótarfyllingu hjá tannlækninum mínum í Windhoek fyrr í dag. Sem var satt.

Þess vegna ertu svona bólginn á vinstri kinninni? spurði hún.

Sjálfsagt leit ég út fyrir að hafa lent í slagsmálum og með nokkra daga skeggbrodda til að kóróna allt.

Hjúkkan stakk hitamæli í eyrað á mér. 37,5 var útkoman þar.


Svo þakkaði hún fyrir og bað mig að fara vel með mig í kvöld.

Það ætla ég að gera.

4. desember 2011

Jólalegt í Jóhannesarborg

Sit nú á flugvellinum í Jóhannesarborg.

Uppáhaldsflugvellinum mínum. Drekk kaffi mokka, maula smáköku og spjalla við eiginkonuna á feisbúkk.

Hér óma jólalög úr hátölurum flugstöðvarinnar.

Hér er ein mynd úr komusalnum. Risastórt jólatré þar.


Svei mér þá ef ég fer ekki að komast í jólaskap.

Hávaðasamir ferðalangar

Að mínu mati er ég frekar umburðalyndur.

Eins og flestir hef ég þó mína fordóma. Reyni þó eftir fremsta megni að halda þeim fyrir sjálfan mig og umgangast alla eins. Annarra er að dæma hvernig það gengur.

Þó eru einir fordómar mínir sem mér reynist erfitt að hemja. Þetta eru fordómar gagnvart Bandaríkjamönnum á ferðalögum. Fæ ég iðulega ónotatilfinningu þegar ég heyri í Bandaríkjamönnum nálægt mér á flugvöllum.

Á ferðalögum lendi ég oft í því að spjalla við samferðafólk mitt um daginn og veginn. Held ég rómi mínum þá frekar lágum, þ.a. viðmælandinn heyri í mér og kannski heyra einhverjir sem nálægt standa samtalið, ef þeir hafa áhuga.

Bandaríkjamenn, almennt, haga sér öðrum vísi. Einhverra hluta vegna er þeim nauðsynlegt að allir innan 50 metra radíuss, að lágmarki, heyri allt sem þeir hafa að segja. Ég gæti því núna sagt ykkur allt sem skiptir máli um bandarískan trúboða og hans fjölskyldu, en þau hafa búið í Malaví í tvö ár. Bróðir konunnar rekur þjónustufyrirtæki í Bandaríkjunum og eiginmaðurinn vann fyrir hann á árum áður. Fyrirtæki bróðurins gengur ágætlega, þótt tæpt hafi staðið eftir fjármálakrísuna 2008. Ég get sagt ykkur ýmislegt sem þetta fólk upplifði á stúdentagörðunum í háskóla í Missouri fylki í Bandaríkjunum. Að þau hafa svolitlar áhyggjur af uppeldi barnanna sinna í Malaví, og nú eru þau að fara til Bandaríkjanna í frí í þrjár vikur. Faðir konunnar flýgur mikið með Delta flugfélaginu og þykir það besta flugfélag í heimi. Bróðir eiginmannsins þarf mikið að ferðast í vinnunni og hann er algjörlega sammála þessu um Delta flugfélagið.

Úff, og á milli mín og þessa fólks stóðu líklega um 10 manns.

Svo voru aðrir Bandaríkjamenn sem eru að flytja fyrir fullt og allt frá Malaví eftir fimm ára veru. Þeirra fjölskyldur í Bandaríkjunum ....

... æ-nei, ég hlífi ykkur við þeirra sögu.

3. desember 2011

Horft á heiminn úr lofti

Í dag átti ég ágætt tækifæri að horfa úr lofti á tvö lönd. Malaví, annars vegar, og S-Afríku, hins vegar. Ég flaug reyndar yfir Simbabve líka, en var ekkert að glápa út um gluggann þá.

 Malaví er eitt af þéttbýlustu löndum í heimi. Ef vötn eru dregin frá, þá búa tæplega 16 milljónir manna á rúmlega 94 þúsund ferkílómetrum. Níu þúsund færri ferkílómetrar en Ísland. Margfalt fleira fólk. En það svæði sem ég sá út um gluggann í dag (flugleiðin milli Lílongve og Blantyre) var ekki þéttbýlt. Fjalllent og ekki mikið af íbúum og ekki mikið af ökrum.

Akrarnir í Malaví eru frekar litlir, enda einstaklingar sem plægja þá með eigin vinnuafli. Engir traktorar og engir uxar sem draga plóga. Nei, tvær, þrjár manneskjur sem rífa upp jörðina með einhverju áhaldi sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku. Handplógur, kannski?

 Þá voru nú akrarnir öðrum vísi nálægt Jóhannesarborg. Stærðarinnar flæmi. Það sem ég tek alltaf eftir þegar ég flýg þarna yfir er hversu margir akranna þar eru kringlóttir. Eins og einhver hafi tekið risastóran sirkil og teiknað heilmikið af kringlóttum ökrum. Þeir eru misstórir, þeir stærstu hljóta að vera með radíus á annað hundrað metra. Reyndar er erfitt að meta þetta úr lofti. Lögunin er til komin vegna vökvunarkerfisins. Frá miðju hringsins er sett upp vatnsrör á hjólum sem nær út að jaðri hringsins. Einhver mótor sér svo til þess að rörið fer hring eftir hring þegar er vökvað. Nokkuð sniðugt kerfi, sem ég hef líka séð sumstaðar í Namibíu.

 Í Malaví eru áveitukerfi fátíð. Þar treysta menn á rigninguna, þ.e.a.s. guð og lukkuna. Stundum er lukkan hliðholl, stundum ekki. Þessa dagana liggja menn á bæn og biðja þess að rigningartímabilið hefjist. Ef það gerist ekki bráðum, þá verður lítill matur til á næsta ári.

Jólaboðskapur

Jæja, þá er ég búinn að horfa á Love actually. Einhvern veginn er orðinn fastur punktur hjá mér á aðventunni að horfa á þessa mynd. Er með hana á ipodinum mínum og horfði á hana í flugvélinni til Jóhannesarborgar.

Mjúkur karlmaður.

Margar af smásögunum í þessari mynd finnast mér skemmtilegar. Sumar þó síður, en engin skemmir myndina.

Boðskapur myndarinnar er fyrst og fremst að á jólunum eigi maður að segja sannleikann, láta allt flakka, þótt maður sé skíthræddur við það. Og að þeir sem heyra sannleikann eigi ekki að erfa það við mann.

Ég man nú ekki eftir þessum boðskap í kringum íslensk jól. Allir eiga að vera góðir og svoleiðis, en að menn eigi að segja sannleikann á þessum tíma frekar en öðrum... nei, ég man ekki til þess.

Kannski er þetta eitthvað sem við ættum að taka upp?

Ferðalagið mjakast

Það hafðist að komast til Jóhannesarborgar. Ég fékk brottfararspjald á elleftu stundu í Blantyre, en vélin var full útúr dyrum. Við vorum nokkur sem lentum á biðlista, en allir komust með. Einni fjögurra manna fjölskyldu var sagt að þrjú sæti væru laus: „Hvert ykkar ætlar að verða eftir?“

Svo bætti starfsmaður flugfélagsins snöggt við: „Bara að grínast! Þið komist öll með.“

Hefðu ekki einhverjir sprungið? Nokkuð hugaður náungi að koma með svona brandara. Kannski er hann bara svona einfaldur að fatta ekki að mörgum þætti svona spaug ekki mjög spaugilegt.

En, ég komst sem sagt til Jóhannesarborgar. Það tók mig smástund að finna einhvern á flugvellinum sem þekkti mín mál, en það tókst á endanum. Núna sit ég á litlu gistiheimili ekki langt frá vellinum. Gistihús Petru heitir það. Lítið en huggulegt.

Þeir stórgræða á vandræðum Air Malaví, eigendur þessa gistihúss. Allt upp í þrjátíu gestir í einu hafa gist hér strandaglópar. Hér er mér sagt að Air Malaví komist ekki í gang með millilandaflug fyrr en í janúar.

Flugfélagið hlýtur að tapa formúu á þessu. Og svo er það algjörlega rúið trausti. Það er auðvitað það versta.

Hér verð ég til ellefu í fyrramálið. Þá held ég út á flugvöll og flýg til Windhoek.

Ég hlakka til.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...