Jóladagur langt kominn. Letidagur væri kannski ekki verra orð. Hef legið í leti megnið af deginum. Náði þó í Dagmar Ýri um kaffileytið. Hef síðan eytt hluta dagsins í lestur bókar Jónasar Kristjánssonar. Ágæt bók og auðlesin, enda fylgir Jónas þeim reglum um stíl sem hann ráðleggur öðrum.
Reyndar fékk piparkökuhúsið að finna fyrir því áðan. Rúnar Atli tók sig til og rústaði því. Drenginn vantaði greinilega útrás. Hann eyddi nefnilega um fimm klukkutímum í morgun að setja saman landhelgisgæsluskip og vita úr legókubbum.
Aðfangadagur jóla var góður dagur sem endranær. Við Rúnar Atli tókum daginn þó snemma. Vorum lagðir af stað til Grundarfjarðar klukkan hálfátta að morgni. Vorum komnir þangað skömmu fyrir tíu, kipptum ömmu Rúnars upp í bílinn og ókum til baka. Í Æsufellið komum við uppúr hálfeitt, ef ég man rétt.
Hamborgarahryggurinn úr Fjarðarkaupum smakkaðist vel. Enda Gulla listakokkur.
Ýmislegt skemmtilegt leyndist undir jólatréinu. Sérkennilegasta gjöfin mín var líklega öfugsnúin veggklukka sem Gulla gaf mér. Hún er öfugsnúin því hún gengur rangsælis. Tölurnar 12 og 6 eru á sama stað og á hefðbundinni klukku, en 3 er þar sem 9 er á þeirri hefðbundnu. Aðrar tölur eru öfugsnúnar í samræmi við það. Ekki er ýkt þótt sagt sé að ruglingslegt sé að horfa á klukku þessa. Svona klukkur þykja víst eitt af því sem heimur rétthentra hefur af okkur örvhentum. Ég er ekki saklaus af því að kvarta stundum yfir heimi rétthentra. T.d. er ótrúlegt hversu auðveldara er að klippa með „örvhentum“ skærum. Eins getur verið hættulegt, jafnvel lífshættulegt, að nota vélsagir og ýmis verkfæri í þeim dúr því rofar eru oft á kolröngum stöðum. En ég skal nú viðurkenna að ég sé ekki alveg tilganginn með öfugsnúnu klukkunni.
Tinna Rut fékk einnig magnaða gjöf. Doddi frændi í Svíaríki gaf henni púðaver. Varla í frásögur færandi, nema fyrir þá staðreynd að á púðaverinu er andlitsmynd af Dodda sjálfum! Hversu miklum kvikindisskap lýsir þetta eiginlega?
Annars fylgdi aðfangadagskvöldið forskriftinni. Það er alltaf best.
25. desember 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
2 ummæli:
HA,ha,ha,ha góður Doddi,ég sé að myndin sem við Ívar ætluðum að taka og færa Tinnu hefði alveg gengið!!!!!!!!
Hún tekur koddaverið(Doddaverið) með sér til Canada svo að hún gleymi mér ekki HAHAHAHAHA
Skrifa ummæli