11. júní 2007

Kaffi og ljósmyndun

Jæja, í gær lét ég loksins verða af því. Kaffivél keypt... ferfalt húrra fyrir Villa!!

Þetta er voðalega fín vél, held ég a.m.k., DeLonghi heitir tegundin og er, hvað sem öðru líður, frá Ítalíu. Við erum meira að segja búin að útbúa kaffihorn í eldhúsinu og eru allar kaffigræjurnar þar, tilbúnar í tuskið.

Við helltum því upp á nokkra bolla í gær, en þessi vél er þeirrar náttúru gædd að vera bæði kaffivél upp á gamla móðinn og einnig expressóvél. Við Dagmar Ýr fengum okkur því þetta fína cappucino í gær, æðislega gott.

Vorum snobb fram í fingurgóma og gæddum okkur á einhverju dýrindis ítölsku kaffibrauði með. Nammi, namm.

Tinna Rut hins vegar er meira upp á gamla móðinn og hellti uppá „venjulegt“ kaffi og drakk með bestu lyst. Síðan gerði hún kaffivélina tilbúna í gærkveldi og kom upp eins og svefngengill um klukkan sex í morgun og kveikti á henni. Gat því fengið sér tíu dropa áður en haldið var í skólann.

En síðan get ég líka sagt frá því að í síðustu viku skráði ég mig á fjögurra vikna ljósmyndanámskeið. Þetta er fjarkennslunámskeið, betri myndir kallast vefsíðan. Þarna eru víst voðalega frægir ljósmyndarar að kenna okkur aulunum. Er boðið upp á nær óendanlegan fjölda af námskeiðum, en ég valdi námskeið sem snýr að uppstillingu á myndefninu. Líst mér vel á þetta og eyddi stórum hluta helgarinnar að taka myndir.

Hvernig tengist þetta kaffivélinni?

Jú, ég var í vandræðum með eitt verkefnið og ákvað því að prófa að notfæra mér nú nýlagaðan kaffibolla. Varð útkoman þessi:


Maður er víst svolítið sérstakur er manni sagt...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott og listræn mynd.

Kveðja,
Gulla

Nafnlaus sagði...

Er eitthvað vit í þessum námskeiðum? Er mikið að spá í svona byrjenda photosjopp námskeiði fyrir sjálfan mig. Er þetta 12 þús kr virði???

Villi sagði...

Eftir fyrstu vikunni að dæma, þá er mjög faglega staðið að námskeiðunum þarna. Munurinn á þessu og kennslubókum er að þarna er alvöru ljósmyndari sem gagnrýnir verkefnin og bendir á leiðir til úrbóta. Einn sem er með mér á námskeiðinu er á sínu sjötta námskeiði og er mjög ánægður. Ef þú hefur áhuga á ljósmyndun og myndvinnslu þá er þetta engin spurning í mínum huga.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...