27. janúar 2008

Hreyfing

Doddi var eitthvað að nöldra um daginn eins og honum er einum lagið. Skemmst er frá því að segja að lítið hefur verið um líkamsrækt undanfarnar vikur. Ekki hefði þó veitt af eftir Íslandsferðina því eitthvað af kílóum bættust á kappann. Alveg ótrúlegt hvað maður dettur oft í íslenskt sælgæti þegar maður skreppur heim. Jólin auðvitað ekki besti tíminn.

En, hreyfing hefur sem sagt verið af skornum skammti. Ég hef aðeins verið að dunda mér við smíðar á kvöldin í bílskúrnum, en ekkert annað. Þó fór eitt kíló í síðustu viku, hverju sem veldur.

Tók mig svo loksins til áðan og hugsaði mér til hreyfings. Dustaði rykið af reiðhjólinu mínu. Verður að segjast að í gegnum nokkra köngulóarvefi þurfti að berjast. Pumpaði í dekkin, þreif hjálminn, greip gemsann - ef ske kynni að maður yrði strandaglópur einhvers staðar - og hjólaði af stað.

Lenti reyndar í smáklemmu með hjólreiðafatnað. Á einhvers staðar þessar fínu hjólabuxur með svampi á viðeigandi stöðum, en þær eru líklega heima á Fróni. Æfingabuxurnar urðu því fyrir valinu, og rakst svo á sérkennilegan undirfatnað í skápnum mínum. Bláar buxur með einhverjum gulum kórónum á. Ákvað að nota þær þótt tilfinningin væri ekki alltof þægileg.

Var búinn að hugsa mér 20-30 mínútna túr svona í fyrsta skipti og kominn með leið í kollinn. Eftir 35 mínútur var enn heilmikið eftir að leiðinni svo ég sá mér þann kost vænstan að stytta mér leið. Ekki veit ég hvort ég er hreinlega orðinn svona slappur að hjóla, en þykir það nú ólíklegt, eða þannig sko. Gætu verið undirbuxurnar...

Einn galli er við að hjóla hér í Windhoek. Sá er hversu hæðótt borgin er. Auðvitað hefur það kosti, sér í lagi þegar hallar niðurímóti. Þá næ ég oft mikilli siglingu og vindurinn þýtur um eyru. Ekki fráleitt að ferðin sé milli 40 og 50 km á klst þegar best lætur. En ég er nú ekki frá því að gallarnir, þ.e. að hjóla mikið uppímóti séu nú verri en kostirnir. Staðsetning hússins okkar er efst upp á hæð og skiptir engu máli úr hvaða átt er komið, alltaf er brött og löng brekka í restina. Vippaði, ja, vippaði er nú kannski fullsterkt að orði komist, en notum það samt. Vilhjálmur, sem sagt, vippaði sér af hjólhestinum og staulaðist með hann upp síðustu brekkuna. Ja, fram að síðasta horni, því auðvitað varð að koma hjólandi í hlað. Hvað ef sonurinn hefði verið að horfa út um gluggann og séð karl föður sinn koma teymandi fákinn? Það hefði verið erfitt að útskýra.

En þetta hafðist að lokum og nú er ekki frá því að strengir séu að gera vart við sig.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Flott hjá þér Villi "minn". Á svo ekki að hjóla í vinnuna á morgun? Hef samt ekki hugmynd um hversu langt það er fyrir þig að fara í vinnu, sjálfsagt lengra en fyrir mig að labba í mína vinnu:-) Hreyfing er holl, mundu það.
koss og knús frá Maju í Norge:-)

Nafnlaus sagði...

Sko minn mann.. þetta geturu en ég persónulega hefði bara haldið þvi fyrir mig ef þurft hefði að vippa sér af hjólhestinum og ganga með hjólið síðustu brekkuna....

Nafnlaus sagði...

mér finnst að Gulla hefði getað tekið mynd af þér á þessum flottu nærum.vonandi straujar Lýdia þær á morgum.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...