29. september 2007

Bleyjuleysi

Hálfdasaður í dag, verð ég að viðurkenna. Sé líka að dagbókarfærslan frá í gær var sett inn þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í tvö ... eftir miðnætti.

En frétt dagsins snýst nú um hann Rúnar Atla. Ekki í fyrsta sinn, eða hvað?

Fyrir rúmri viku forvitnaðist leikskólakennarinn afar pent um hvort við værum eitthvað að spá í að venja soninn af bleyju... Maður kveikti nú áður en skall í tönnum. Í vikunni höfum við því verið að láta drenginn vera bleyjulausan eftir hádegið. Hlaupið svo reglulega með hann á salernið til að gá hvort eitthvað gerist.

Síðan á fimmtudag gerist það að hann segist þurfa að pissa, og viti menn, svo kom pissið í klósettið. Ekki er laust við að foreldrarnir hafi tapað sér smávegis í fagnaðarlátum og hrósi.

En svoleiðis er þetta nú bara.

Guttinn var sendur bleyjulaus á leikskólann á föstudaginn og eingöngu eitt slys. En hann hefur látið vita og þrátt fyrir eitt og eitt slys þá hefur þetta gengið glettilega vel.

Svo í dag var greinilegt að eitthvað meira þurfti að gera en bara að pissa. Voru stanslaus hlaup fram og til baka á klóið, en ekkert gerðist. Pabbinn, verður að viðurkennast, var farinn að þreytast aðeins á þessu og sá stutti var greinilega búinn að átta sig á því. Kemur svo allt í einu fram og tilkynnir að hafi verið að kúka. Nú, foreldrarnir hlupu upp til handa og fóta og könnuðu málið. Mikið rétt, hann hafði skilað einu stykki eða svo á réttan stað.

Við foreldrarnir erum ósköp glaðir yfir hversu vel þetta gengur. Nú erum við hins vegar byrjuð að sigta út almenningssalerni hér í Windhoekborg. Líklegt að heimsóknum á þau fjölgi á næstunni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er svo stolt af honum frænda mínum:-) Skil ykkur foreldrana vel að hafa næstum því misst ykkur í fagnaðarlátunum.
Koss og knús frá Maju og liðinu hennar í Norge.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...