15. júlí 2007

Matgæðingar

Margir vita að ég er ekkert mjög hrifinn af ostum. Fínt er að fá bræddan ost ofan á samloku og hamborgara. Jú, og auðvitað er nauðsynlegt að hafa ost á pitsu.

En snobbostum er ég lítt hrifinn af. Á erfitt með að skilja þessa áráttu að setja illa lyktandi kvoðukenndan ost ofan á ritskex og eitt vínber með. Gulla skilur ekkert í þessum kúltúrskorti hjá mér, en hún nýtur reyndar góðs af, því ekki stelst ég í ostana hennar.

Skildi því nokkur trúa því að í gærdag stóð ég í biðröð í næstum fimmtán mínútur til að fá mér svona illa lyktandi osta? Þannig var málum háttað að í gær var Bastilludagurinn, þjóðhátíðardagur Frakka, og var okkur boðið í móttöku hjá franska sendiherranum hér í borg. Þegar nokkuð var liðið á teitið var tilkynnt að búið væri að bera á borð gæðaosta frá Frakklandi. Brást á nokkurs konar múgæsingur og allir þutu í röð eftir þessum kræsingum. Gat ég ekki staðið eins og illa gerður hlutur utan raðar og tók því þátt í athöfninni. Röðin lá inn í hús og upp stiga og fyrir horn og inn í borðstofu nokkra þar sem ostarnir voru á borði. Þegar ég komst inn í húsið þá kom þessi líka svakalegi fnykur á móti okkur. Lá við að liði yfir eina namibíska konu sem næst mér var í röðinni. Greip hún fyrir vit sér og þurfti greinilega að beita öllum sínum viljastyrk að leggja ekki á flótta.

Fnykurinn smájókst eftir því sem ofar dró í stigann og var jú allnokkur þegar í borðstofuna kom. Valdi ég mér tvo litla ostbita, sem voru ekki kvoðukenndir og alls ekki með blágrárri myglu utan á. Gat ég ekki betur séð en myglan á sumum ostunum hreyfðist... gæti verið missýning, þið skiljið, ég var með tárvot augu af fnyk.

Greip svo nokkrar brauðsneiðar og stökk niður stigann - þrjú þrep í hverju skrefi - og náði svo út í fríska loftið. Nartaði aðeins í ostinn og með því að drekkja honum í hvítvíni bragðaðist hann ágætlega.

Enn skil ég ekki þessa snobbáráttu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er alveg sammála Gullu:-) Elska illa liktandi osta og ritzkex og auðvitað er ómissandi að hafa vínber með herlegheitunum
koss og knús fra Maju

Nafnlaus sagði...

rizkex og vinber er algjör óþarfi ég vill finna bragðið óspilllt jommy

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...