16. apríl 2007

Nostalgía

Æ, mikið var ég þreyttur í morgun.

Í gærkvöldi sat ég við tölvuna og var eitthvað að skoða mbl.is. Rek þá augun í bloggsíðu þar sem minnst er á Vancouver Canucks, íshokkílið Vancouverbúa. Álpast ég til að skoða síðuna, en hún er skrifuð af íslenskri konu sem stundar nám við háskóla í Vancouverborg.

Sem ég byrjaði að lesa um hin og þessi kennileiti borgarinnar fór fullt af minningum að hrúgast upp. Gleymdi ég mér gjörsamlega við lesturinn og fór ekki upp í rúm fyrr en eftir miðnætti. Gekk síðan ekkert að festa svefn, og var því hálfpirraður þegar klukkan hringdi 20 mínútum fyrir sex. Óvenjuseint þar sem Rúnar Atli fer ekki í leikskólann á mánudögum. Sem betur fer í þetta sinn.

Ég leiði ekki oft hugann til áranna í Vancouver, en þegar það gerist, þá eru alltaf góðar minningar. Svona líf í rósrauðu ljósi. Þrátt fyrir peningaleysi námsáranna og skort á ýmsum veraldlegum gæðum, þá leið okkur yfirleitt ósköp vel þarna.

Náttúran ægifögur eins og meðfylgjandi mynd af háskólasvæðinu ber með sér.



En hvað var svona gott við staðinn?

Jú, í fyrsta lagi fæddist jú Tinna Rut þar, sem hlýtur að teljast hápunktur verunnar þarna.

Síðan voru dæturnar á þeim aldri þegar lífið er svo skemmtilegt og margar skemmtilegar minningar tengjast þeim.

Við eignuðumst mjög góða vini þarna, sérstaklega ein hjón sem áttu dætur á svipuðum aldri og við. Ferðuðumst við mikið með þeim og voru tjaldútilegur það sem blífaði. Þarna lærði maður að höggva við í varðeldinn, kveikja upp eld og sitja og glóða sykurpúða.

Ja, við vorum reyndar aldrei mjög hrifin af sykurpúðunum, en það var engu að síður einhver sérstök stemming sem fylgdi því að tálga grein og stinga í sykurpúðann og halda yfir eldinum.

Síðan var jú allt til alls í borginni, og bókabúðirnar, maður minn, algjör himnasæla að dunda sér tímunum saman í þeim.

Lengst af ókum við um á 78 módeli af svörtum tveggja dyra Chrysler LeBaron, alveg víðáttustórum. Hann var svolítið dyntóttur greyið og átti Gulla það stundum til, komin sex til átta mánuði á leið, að þurfa að opna húddið og stinga skrúfjárni ofan í blöndunginn til að loft kæmist að þegar bílnum var startað. Fólki varð stundum starsýnt á þessa kasóléttu konu sem stóð í bílaviðgerðum. En í gang fór bíllinn alltaf hjá henni.

Síðan átti framrúðan bílstjóramegin það til að opnast að fyrirvaralausu, og lítið mál var ef lyklarnir læstust í bílnum. Maður bara stakk fingrum milli pósts og rúðu og þrýsti henni niður og þar með var hægt að opna bílinn innan frá.

Einhvern veginn var lífið þægilegt og áhyggjulítið. Við áttum heima í Vancouver í fimm og hálft ár og vorum orðin eins og innfædd þarna. Á þeim tíma hefðum við alveg verið til í að ílengjast þar.

Stundum höfum við velt því fyrir okkur hvað hefði gerst ef við hefðum vitað áður en við fluttum út að Tinna Rut væri á leiðinni. Hefðum við farið út í óvissuna? Við munum aldrei vita svarið, en líklega væri lífið öðrum vísi á einhvern hátt.

En, eitt er þó víst. Í kvöld verður farið snemma í bólið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æi já þetta voru yndisleg ár. Gaman væri að búa þar aftur - við ættum kannski að athuga með vinnu þar :-)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...