Sit núna á alþjóðaflugvellinum í Seattle og bíð eftir kalli út í vél til Vancouver. Ferðalagið hefur gengið ágætlega. Byrjuðum reyndar með seinkun í Keflavík, u.þ.b. einn og hálfur tími. Allt vegna seinkunar á vél frá Glasgow, skilst mér. Ferlega pirrandi að bíða vegna svoleiðis.
Við vorum mætt snemma út á völl, þremur tímum fyrir áætlaða brottför. Vorum fyrst í öryggisleit númer tvö. Fékk ég hrós fyrir að hafa lítið í handfarangri, og Tinna Rut fékk hrós fyrir fartölvuna sína. Sú sem fór í gegnum Tinnu tösku á víst alveg eins tölvu. Alltaf létt stemming á Íslandi.
Loksins þegar vélin fór af stað þá gátum við slakað á. Þjónustan fín hjá Flugleiðum. Þetta var þriggja bíómyndaferð hjá mér, en Tinna Rut sofnaði og náði bara tveimur myndum. Ekkert er að því að fá lítið að borða og þurfa að borga fyrir það sem maður vill. Á meðan er maður ekki með full borð af einhverjum matarílátum.
Við lentum í Seattle tíu mínútur yfir sex að staðartíma. Tíu mínútur yfir tvö að morgni að íslenskum tíma. Innflytjendaeftirlitið tók heila eilífð, og ekki bætti úr skák að helmingur af starfsfólkinu hætti að vinna klukkan sjö. Vaktin greinilega búin og fólk bara hætti að vinna þótt enn væri slatti af fólki í biðröð. En þetta gekk allt. Tinna Rut var voðalega ánægð, því hún notaði kanadíska vegabréfið sitt og fékk stimpil. Fyrsta skipti sem er stimplað í það vegabréf. En af því að hún dröslaðist með pabba sinn, þá tók þetta mun lengri tíma fyrir hana en ef hún hefði verið ein á ferð.
Stundum er maður dragbítur...
Töskurnar biðu eftir okkur þegar innflytjendaeftirlitinu lauk. Síðan örkuðum við þangað sem hótelstrætóar ganga og biðum eftir vagni frá okkar hóteli. Engin smáræðisfjöldi af hótelum, því það var stanslaus traffík af kálfum að sækja hótelgesti.
Hótelið var flott. Stofa og svefnherbergi, þ.a. ekki væsti um okkur. En ekki vildum við fara að sofa, þótt klukkan væri um fjögur að nótt á Íslandi. Tinna Rut sá nefnilega McDonalds hinum megin við strætið og vildi ólm fara. Ég skal viðurkenna að sú staðreynd að McDonalds var þarna hafði áhrif á hótelvalið mitt. Ég notaði nefnilega Google Maps til að leita að hóteli og síðan tékkaði ég á veitingastöðum í nágrenninu áður en ég pantaði.
En... en þið hefðuð átt að sjá sælusvipinn á Tinnu Rut þegar hún beit í fyrsta kjúklinganagginn. Þetta var hrein himnasæla fyrir hana. Ekki skemmdi fyrir að grunnskammturinn þarna var tíu naggar, ekki sex eins og var á Íslandi.
Við röltum okkur síðan að stærðarinnar verslunarmiðstöð sem þarna er. Þar er opið til hálftíu sex kvöld vikunnar. Úði og grúði af verslunum þarna og hefði líklega verið hægt að skella bæði Kringlunni og Smáralind þarna inn og samt eiga pláss afgangs.
Þegar við komum á hótelið var klukkan að nálgast tíu - sex að morgni á Fróni - og var mikið gott að leggjast upp í rúm.
Vöknuðum svo rúmlega fjögur og, eins og sagði í byrjun, bíðum við núna á flugvellinum. Nú fer að kalla um borð. Bið að heilsa öllum. Ég reyni að skella inn færslum þegar færi gefst til.
3. janúar 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
2 ummæli:
Gott að heyra að vel gekk. Ég sendi þér póst á facebook.
kv,
Gulla
Gott að miðarnir ykkar voru teknir gildir...
Ég er búinn að uppfæra acrobat readerinn minn, það er kominn sko útgáfa nr 9 ef þú vissir það ekki :)
Skrifa ummæli