Allt virðist nú vera að komast í lag hjá honum Rúnari Atla. Við mættum
á spítalann rétt fyrir klukkan eitt eftir hádegi, og fljótlega þar á
eftir vorum við komin á dagdeildina. Þar fékk Rúnar Atli aðgang að
þessu fína skærgula rimlarúmi. Það versnaði nú í því þegar átti að
skipta um föt á drengnum. Hann harðneitaði spítalanærfötum, barðist um
á hæl og hnakka, svo ég hreinlega gafst nú upp. Þetta voru nú ekkert
mjög sexí nærur þannig ég skildi drenginn nú ósköp vel.
Eftir einhverja stund fórum við inn á skurðdeildina. Þar var ég klæddur
upp í grænan slopp, hárnet og skóhlífar sem hefðu hæft ágætlega á
norðurskautinu. Meira að segja Rúnar Atli fór að hlæja þegar hann sá
múderinguna á mér. Góður með sig, losna við spítalanærurnar og hlæja
svo að mér.
Svona um korter yfir tvö var svo kallað í okkur inn á skurðstofuna og
svæfingalæknirinn útskýrði allt fyrir okkur. Ég sat með Rúnar Atla í
fanginu og setti grímuna fyrir andlitið á honum og svo bara sofnaði
hann þarna í fanginu á mér. Auðvitað sýndi hann mótþróa fyrst, en það
dugði nú skammt. Hann fékk sínu framgengt með nærurnar, en hér var sko
ekkert elsku mamma neitt.
Síðan fór ég fram og beið. Biðið var nú ekki nema örfáar mínútur, því
læknirinn var snöggur að þessu. Hann sagði að þetta hefði gengið vel,
en hann var búinn að segja mér að ef illa gengi gæti þurft að opna
handlegginn. Sem betur fer þurfti ekkert svoleiðis. Hann sagði mér að
áður en hann byrjaði þá gat hann sett olnbogann í 90 gráðu horn, þá
læstist allt. Þegar hann var búinn að smella þessu á sinn stað, þá var
hægt að beygja olnbogann alveg eins og ætlast er til.
Síðan var bara að bíða eftir að drengurinn vaknaði. Þegar mér var
farinn að lengja biðin fór ég að tala við hann og viti menn, opnar hann
bara augun. Góð tilfinning það. Síðan fórum við aftur á dagdeildina og
vorum þar í einhverja stund á meðan hann var að jafna sig. Útskrifaður
klukkan tuttugu mínútur yfir þrjú.
Svo var bara að labba og borga, litlar 45 þúsund krónur. Svo er bara að
senda reikninginn til Íslands og vona að einhver sé til í að taka þátt
í þessu ævintýri.
En það varð strax mikill munur á Rúnari Atla. Svona klukkutíma eftir að
við komum heim var hann farinn að nota hendina, auðvitað ekki eins og
hún ætti að vera en mikil framför samt. Svo er hann allur krambúleraður
eftir lækninn, verður sjálfsagt marinn og blár næstu daga.
En allt er gott sem endar vel.
1 ummæli:
Mikið er nú gott að allt gekk vel. ég var nú bara komin með stórar áhyggjur af drengum eftir fyrsta pistil. Kikti í skólabækurnar og fann ekkert sem líkist þessu enda er ég nú bara sjúkraliði en ekki læknir. En hvað með myndir af þessu öllu.... múderíngunni þinni. Rúnar sofandi í spítalarúminu.... Bið spennt :)
Skrifa ummæli