Núna sit ég á flugvellinum í Jóhannesarborg. U.þ.b. fjórir tímar í brottför til Windhoek. En sá tími vex mér ekki í augum, því eins og ég hef áður sagt þá er þetta uppáhaldsflugvöllurinn minn. Núna er ég búinn að koma mér fyrir við útsýnissvæði þar sem ég get fylgst með flugvélum koma og fara. Ekki skemmir að við hliðina á mér er innstunga þegar rafhlaðan í tölvunni fer að gefa sig. Kaffið hér er líka frábært.
En í dag hef ég aðeins verið að melta heimsóknina til Mósambíkur. Ferðin var ekki skemmtiferð. Þrátt fyrir það var hún skemmtileg. Ég ferðaðist m.a. ásamt nokkrum vinnufélögum að skoða verkefni í fullorðinnafræðslu sem stutt er af íslenskum stjórnvöldum.
Það er nefnilega þannig að þótt maður skipuleggi fram og til baka á pappír, með allskonar flæðiritum, línuritum, talnasúpu og guð má vita hverju, þá kemur ekkert í staðinn fyrir vettvangsferð. Að fara á staðinn, hitta fólk, sjá staðhætti, eins og t.d. aðbúnað þann sem fólk býr við, vegakerfið, fjarlægðir milli staða o.s.frv. Í svona ferð fær maður tilfinningu fyrir því hvort okkar verkefni skili sér til fólks og síðan það sem er ekki síður mikilvægt, hvort verkefnið sé eitthvað sem fólk raunverulega vill og hefur áhuga á. Staðreyndin er nefnilega sú að eitthvað sem einhverjum sprenglærðum fræðingi eins og mér sjálfum finnst alveg stórkostleg hugmynd, þegar ég sit inni á loftkældu skrifstofunni minni, er kannski eitthvað sem fólki sem njóta á góðs af finnst fáránlegt.
Svoleiðis er lífið stundum.
Hvað um það. Við heimsóttum sem sagt ýmsa staði í Mósambík og reyndum að meta það sem við sáum. Sumt virðist svínvirka, annað þarf að betrumbæta eitthvað. Fínstilla getum við sagt.
Einn af fullorðinnafræðsluhópunum sést hér á myndinni.
Konurnar, og í þessum hópi voru bara konur, sungu og dönsuðu fyrir okkur af mikilli innlifun. Aðspurðar sögðu þær að fullorðinnafræðslan breytti miklu fyrir þær. Eldri kona sem er fyrir miðri mynd, sagði okkur t.d. að núna skildi hún tölur. Þegar hún selur sína landbúnaðarframleiðslu á markaði sem er þarna nálægt, þá getur hún núna reiknað sjálf. Bæði til að vita hvað kúnninn á að borga og líka til að geta gefið rétt til baka. Svo sagðist hún geta séð verðin sem aðrir eru að bjóða og þá líklega aðlagað sín eftir þörfum. Þarf ekki lengur að treysta á einhvern annan.
Þarna voru líka nokkrar ungar konur sem lítið höfðu gengið í skóla. Sumar ekkert. Þær sögðu að þegar fullorðinnafræðslunni lyki þá ætluðu þær að fara í skóla til að ljúka sjöunda bekk. Þá, nefnilega, mega þær fara að kenna fullorðnum sjálfar. Það er þeirra draumur.
Síðan heimsóttum við annan bekk. Sá notast við útvarpskennslu. Kennarinn þeirra er með segulbandsspólu af kennsluþætti sem útvarpað er reglulega. Nemendurnir sitja síðan með kennslubók, fylgjast með og vinna þau verkefni sem þeim er sagt. Greinilega þótti þeim þetta erfitt, en áhuginn skein úr andlitum þeirra og öllu fasi. Kennarinn rölti síðan á milli og leiðbeindi eins og þurfti.
Þetta var ekki auðvelt. Þau voru að læra um bókstafinn u og áttu t.d. að skrifa hann í línur í bókinni. Sumir áttu erfitt með að beita blýantinum, en enginn gaf sig.
Þarna voru rúmlega 20 konur og þrír menn. Þegar kennslunni lauk sögðu nokkrir nemendur sögu sína og af hverju þeir eru á námskeiðinu.
Maðurinn sem situr lengst til hægri á myndinni, í blárri skyrtu, sagðist einfaldlega vilja sjá ljósið. Þess vegna vill hann læra að lesa. Ég hugsa að þessi maður sé yfir sextugt.
Konan sem stendur vinstra megin á myndinni hér að neðan sagði okkur að hún væri hætt að vinna vegna aldurs. „Núna hef ég loksins tíma til að læra,” sagði hún.
Hún Amilía vildi sýna okkur að hún gæti skrifað nafnið sitt. Það gerði hún svikalaust og virkilega vel. Með skrifstöfum.
Þessi unga stúlka gifti sig í fyrra. Í Mósambík þurfa nýgift hjón að kvitta á hjúskaparvottorðið. Hún kunni það ekki og því stendur undir nafninu hennar „Kann ekki að skrifa.” Þetta þykir henni sárt og nú vill hún fara og breyta þessu. Fá nýtt vottorð og kvitta fyrir sjálf.
Og svo var það þessi hérna kona. Ég ætla ekkert að segja hvað henni finnst um að hafa tækifæri á að læra að lesa. Stundum segja jú myndir meira en þúsund orð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
1 ummæli:
LIKE!!!
Skrifa ummæli