Nokkuð er um liðið síðan ég keypti mér föt. Ekki er það að mér finnist leiðinlegt að vera í nýjum fötum. Nei, þvert á móti finnst mér yfirleitt gaman að vera í fötum sem nýbúið er að versla. Hins vegar finnst mér hundleiðinlegt að flækjast í fatabúðum, og reyna að meta hvort einhver flík sem hangir á herðatré eða liggur samanbrotin í hillu passi mér. Svo er það þetta með hvaða litir passa saman og hvaða litir ekki.
Í nokkrar vikur er ég búinn að vera að telja í mig kjark til að fara út og kaupa mér einar eða tvennar buxur, og kannski einhverjar skyrtur. Í morgun var svo haldið af stað. Sem betur fer fékkst Tinna Rut til að koma með. Reyndar á fölskum forsendum að nokkru leyti, en ætli hún skrifi ekki færslu um það sjálf.
Ég er síðan í einni af fínni búðum bæjarins og kominn með einar fínar gallabuxur á arminn, ekki kúrekastíll heldur eitthvað nýmóðins - ítalskt merki, og að skoða aðrar. Álpast til að spurja afgreiðsludömuna hver síddin á buxunum sé. „34 tommur,“ hélt hún - „æ,“ sagði ég, „ég þarf 32 tommur,“ og hengdi buxurnar aftur upp.
Fór svo að máta þessar ítölsku. Blótaði í sand og ösku (í hljóði þar sem Rúnar Atli var inni í mátunarklefanum) þegar ég sá að buxurnar voru alltof síðar. Datt þó í hug að fara í skóna líka, en þótti þetta ekki alveg í lagi. Fékk þó þann hugstorm að kalla í dóttur mína og spurja hana álits.
„Pabbi, þetta á að vera svona,“ sagði hún, og tókst glettilega vel að fela þreytuna yfir þessari vankunnáttu karls föður síns. „Nú?“ sagði ég, „ertu alveg viss?“ Þetta var nú eiginlega ekki svaravert.
En aðra hugljómun fékk ég og sendi telpuna eftir buxunum sem ég hafði skömmu fyrr hengt upp (34 tommur í stað 32ja), og eftir að máta og fá staðfestingu dótturinnar að ég liti ekki út eins og alltof stuttur lúði, heldur væri þetta hátíska, þá lét ég slag standa og keypti báðar buxurnar.
Rúnar Atli brá sér svo í hlutverk ljósmyndara þegar heim var komið og smellti af mynd af fæti mínum.

© Rúnar Atli WiiumSvalur er ég víst orðinn, en dæmi hver sem vill.