Ríkissjónvarpsstöð Namibíu, NBC kallast sú, þykir nú ekkert sérlega
spennandi stöð. Eilífur fjárhagsvandi hrjáir hana og síðan er hún í
samkeppni við stafrænt gervihnattasjónvarp frá Suður-Afríku, og fer
vægast sagt halloka í þeirri rimmu. Gengur illa að kaupa gott
sjónvarpsefni og er því leitað fanga víða. Rósin í hnappagati NBC er
mexíkósk sápuópera sem ber nafnið „Þegar þú ert minn“ eða kannski
„Þegar þú ert mín.“ Skiptir sennilega engu hvort er. Stundum þegar ég
er á spani milli stöðva dett ég inn á þennan þátt. Þar rífast
föngulegar senjórítur um sykursæta menn, eins og gengur í svona sápum.
Verst við þáttinn er að töluð er spænska af mikilli innlifun og
gríðarlega hröðum munnhreyfingum, en við heyrum bara tiltölulega hæga
ensku talaða, sem passar engan veginn við varahreyfingarnar.
Þessi sápa er víst töluvert vinsæl. Berlega kom það í ljós í gær þegar
tvö ýturvaxin fljóð sem leika í þessum þáttum birtust hér í Windhoek.
NBC bauð þessum tveimur stúlkum, Sylvíu Navarro, eða Paloma eins og hún
heitir í þáttunum, og Anettu Michel Carillo, en hún leikur Barböru. Er
ekki ofsögum sagt að íbúar borgarinnar hafi gjörsamlega tapað glórunni
þegar þessar konur óku um stræti og torg. Voru þúsundir manna á götum
úti og var lífsins ómögulegt að komast um aðalgötur borgarinnar. Gegnt
vinnustaðnum mínum er lystigarður og þar stóð til að mynda stúlkurnar í
bak og fyrir. Þurfti hins vegar að aflýsa myndatökum, því múgæsingurinn
var þvílíkur að lá við stórslysi. Fór þó betur en á horfði, en
greinilegt er að þessir sjónvarpsþættir njóta gríðarlegra vinsælda hér.
Fyrr má nú aldeilis fyrrvera.
2 ummæli:
Jáhá það er greinilegt að þú sért vel inní þessari sápu... hehe
Hvenær kemur pistillinn um Brad og frú? Ekkert inside-skúbb hérna?
Skrifa ummæli