9. maí 2006

Kokteilmóttökur

Dagurinn í dag, 9. maí, er víst merkisdagur í sögu Evrópu. Ja, a.m.k. í
sögu Evrópusambandsins. Ber þessi dagur heitið Dagur Evrópu, eða
Evrópudagurinn, og er víst verið að minnast þess að 56 ár eru síðan
fyrsti vísir að sambandinu leit dagsins ljós. Sá sem er í forsvari
fyrir framkvæmdastjórn ESB hér í Windhoek, er sem sagt sendiherra ESB í
Namibíu, bauð gestum heim í tilefni dagsins. Smákokteill í hádeginu. Ég
fékk meira að segja boðskort, jafnvel þótt Íslendingar séu nú ekki
beint á leiðinni í ESB. En á tyllidögum er svoleiðis bara smámunir.
Nafnið mitt vefst svolítið fyrir fólki og stundum áttar fólk sig ekki á
því hvort Vilhjálmur eða Wiium sé skírnarnafnið mitt. Boðskortið var
því stílað á doktor Vilhjálm, og mátti ég koma með gest með mér líka.

Þar sem ég er án eiginkonunnar minnar þessa stundina, þá datt mér í hug
að spyrja nú Tinnu Rut hvort hana langaði með. Jú, greinilegt að henni
leiðist í skólafríinu, því hún var nú til í þetta. Strílaði sig upp, í
stuttu pilsi og háhæluðum skóm. Mjög fín og myndarleg. Enda stóð á
boðskortinu að ætlast væri til spariklæðnaðar. Við fórum sem sagt og
hlustuðum á tvær ræður, svo voru þjóðsöngvar leiknir og auðvitað var
hlaðborð og tilheyrandi. Ég held að Tinnu Rut hafi þótt svolítið
forvitnilegt að vera innan um ráðherra, sendiherra og guð má vita hvaða
fleiri herra. En ekki fannst henni nú mjög gaman. Ekki bætti úr skák
að móttakan var utandyra. Það rignir örugglega ekki hér fyrr en í
nóvember. Skilst mér að grasflötum og háhæluðum skóm sé ekki sérlega
vel til vina. Eftir einn og hálfan tíma var mín því orðin nokkuð þreytt
í fótunum.

Nú er rætt um að kaupa nýja skó handa dömunni, ekki háhælaða, en þó
hæfa í svona móttökur. Skyldi þó ekki vera að hún væri til í að koma í
aðra seinna?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hey what a great site keep up the work its excellent.
»

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...