Þættinum hefur borist bréf. Spurt var um hjónaleysin amerísku Bradda
Pitt og Angelínu Jólamær. Skemmst er frá að segja að um tíma olli koma
þeirra til Namibíu miklu uppnámi. Þeim fylgdi sægur af ljósmyndurum, í
óþökk hjónaleysana, og kvað svo rammt að ágangi þeirra að namibískir
ráðherrar stigu á stokk og sendu innflytjendaeftirlitið af stað. Kom í
ljós að flestir ljósmyndaranna höfðu komið inn í landið á
ferðamannaleyfi, sem þýðir að bannað er að stunda launuð störf í
landinu. Var mörgum því vísað úr landi fyrir að brjóta á þessu skilyrði
dvalarleyfisins.
Ýmsir spurðu í kjölfarið um lífverði Bradda og Angelínu, hvort þeir
hafi atvinnuleyfi. Ekki hefur komið fullnægjandi svar við þeirri
spurningu, en lífverðirnir hafa gengið hart fram í því að rýmka til á
Langasandi hinum namibíska og hafa rekið saklaust ferðafólk af
sandinum. Sýnist sitt hverjum um þessi mál.
Sagan segir að konan sem á gistiheimilið stórgræði. Angelína gisti hjá
henni á sínum tíma þegar kvikmyndatökur fóru hér fram, og leigja
hjónaleysin allt gistiheimilið. Vertskonan gat því losað sig við slatta
af þjónustuliðinu, því mun færri eru í fylgdarliði hjónaleysanna en
rýmast í gistihúsinu. Nágrannar gistiheimilisins eru ekki mjög sáttir,
einkum vegna vaskrar framgöngu lífvarða.
Nú er beðið eftir að króginn komi í heiminn. Smávandamál hefur komið
upp í þeim efnum. Angelína er að sjálfsögðu með sinn einkalækni, hver
ferðast ekki án læknisins síns? En sá hinn sami hefur ekki
lækningaleyfi í Namibíu. Ef eitthvað kæmi upp á í fæðingunni, þá væri
hægt að stinga þessum ágæta lækni í steininn fyrir skottulækningar og
því hefur þurft að leita á náðir innlendra lækna.
Beðið er í ofvæni eftir að krakkinn komi í heiminn, og eins ganga sögur
fjöllunum hærra að gifting sé einnig í vændum, og þá gifting að hætti
Himba ættbálksins. Ekki er ég nú viss um að henni Angelínu minni þætti
það eftirsóknarvert, því brúðurin kemur á hjánum skríðandi úr tjaldið
til að votta eiginmanninum undirgefni. Einhvern veginn virðist það ekki
alveg vera stíll Angelínu.
Vona að þessi pistill svali spurnarþorsta bréfritara.
Lifið heil.
1 ummæli:
Djö... er ég ánægður með þig, þú lætur okkur kannski fylgjast með ef þú heyrir eitthvað nýtt! Spurning um að þú hættir að senda þessa pistla þína í Moggann og leggir frekar undir þig dálkinn "Fólk í fréttum". Annars finnst mér þetta hið eðlilegasta mál, lágmark að hafa smá olnbogarými á Langasandi.
Skrifa ummæli