31. desember 2010

Góður árangur og ánægjulegur

Stundum þarf að monta sig aðeins af eigin árangri.

Í morgun þegar ég steig á vigtina þá sýndi hún 21 kg minna en hún gerði í ársbyrjun.

21 kíló!

Ég er ánægður yfir þessu. Og reyndar rígmontinn, ef ég á að vera alveg hreinskilinn.

Í ársbyrjun var ákveðið að nú þyrfti að taka sig á.

„...annars verðurðu dauður eftir ekki alltof mörg ár...“ sagði einn læknir mér.

Ekki alveg það sem maður vill heyra.

En, ég var heppinn. Mér tókst að lagfæra lífsstílinn og árangurinn lét ekki standa á sér. Kílóin hreinlega hrundu af mér. Bara það að hætta að drekka gos og borða sælgæti hafði greinilega mikil áhrif. Enda þegar maður drekkur um og yfir tvo lítra af Pepsíi á hverjum einasta degi, þá innbyrðir maður slatta af sykurmolum.

Sykur tók ég útúr mínu mataræði eftir því sem hægt er og síðan var regla að fá sér aldrei oftar en einu sinni á diskinn.

Næringarfræðingur sagði mér að borða sex máltíðir á dag og mér hefur tekist að fylgja því nokkuð vel. Þá verður maður aldrei mjög svangur og gúffar því ekki matnum í sig með látum.

Síðan hef ég stundað leikfimi af miklum móð. Undir leiðsögn hámenntaðs þjálfara. Kellingaleikfimi hef ég stundum kallað þetta í gríni. Ligg á bakinu og lyfti mjöðmum og fótum. Er síðan að velta mér yfir stærðarinnar bolta og geri allskonar æfingar sem ég hefði aldrei hugmyndaflug til að láta mér detta í hug.

Aftur, árangurinn er ljós. Nú er ég miklu léttari, en ekki bara það. Einnig er ég miklu hraustari en áður.

Og hvað gerði ég í tilefni dagsins og árangursins?

Jú, byrjaði daginn á 500 metrum í sundlauginni. Fór síðan heim, bakaði vöfflur og borðaði tvær með sultu og rjóma. Því maður má ekki fara út í öfgar. Lífstíllinn er langtímamarkmið og í góðu lagi að gera vel við sjálfan sig inn á milli.

Gleðilegt nýtt ár og gangi öllum vel að ná sínum markmiðum á næsta ári.

2 ummæli:

davíð sagði...

Góður

Sigga sagði...

Til hamingju með þennan frábæra árangur Villi - glæsilegt hjá þér.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...