Við fórum á laugardegi að heiman, og grilluðum þessar fínu svínasteikur og búapylsu í kvöldmatinn. Jú, og fyrir Rúnar Atla voru grilluð svínarif, en hann er mikill rifjaaðdáandi um þessar mundir.
Þegar við skráðum okkur inn í þjóðgarðinn, þá fengum við landakort af svæðinu og hljóp þjóðgarðsvörðurinn á hundavaði yfir ýmsar gönguleiðir. Um kvöldið skoðaði ég svo kortið frekar og ákvað að taka sunnudaginn snemma og fara í göngutúr. Svona rölta smáhring. Þá myndi ég komast á stað þar sem hægt var að sjá yfir svæðið. Skv. þjóðgarðsverðinum var þetta ekki erfið leið.
Rúnar Atli brást pabba sínum að þessu sinni og nennti ekki með. Gulla þurfti þá að vera með honum, þ.a. ég fór einn í leiðangurinn. Var vopnaður myndavél og einni vatnsflösku.
Arka ég svo af stað og gengur bara vel til að byrja með. Minnti fyrsti hluti leiðarinnar mig á háskólasvæðið í Vancouver, þar sem ég stundaði nám margt fyrir löngu. Mjúkur stígur og slútandi trjágróður. En svo fer gamanið að kárna. Þarna fara að verða grjóthnullungar á vegi mínum og dregur því aðeins úr gönguhraðanum. Á endanum var farið að sækja allmikið á brattann fyrir mig. Og enn fjölgaði hnullungunum.

Ég læt fylgja tvær myndir með sem sýna „göngustíginn“.

Svona frekar groddalegur stígur, að mínu áliti. Kannski erfitt að sjá leiðina?
Ja, ég verð nú að viðurkenna að hafa einu sinni villst af leið. Tafði það mig um kortér á meðan ég labbaði fram og til baka í skóginum leitandi að leiðinni réttu.
En allt hafðist þetta nú að lokum. Ég fann leiðina og komst alla leið upp á topp Vatnafellsins. Og útsýnið var fagurt, það vantaði ekki.
Á myndinni hér að neðan sést langt yfir víðan völl. Þarna sést vel hversu þráðbeinir namibískir vegir eru yfirleitt. Ekkert verið að skella inn óþarfa beygjum.
Ég komst sem sagt á toppinn. Og fór létt með. Er kominn í ágætis form, en meira um það síðar. Göngutúrinn, sem ég hafði áætlað svona hálftíma langan, reyndist klukkutími og korter.
Að honum loknum smakkaðist morgunmaturinn vel.