3. mars 2007

Hrakfall

Hann Rúnar Atli hefur í gegnum tíðina átt það til að detta ofan af sófum, rúmum og fleiri húsgögnum. Um tíma leið varla sú vika að ekki kæmi ný kolsvört kúla á höfuðið á honum.

En í nokkurn tíma hefur honum tekist að forðast föll af þessu tagi. Þar til í gær. Þá tókst honum að falla ofan af stól eða sófa niður á gólf. Hann er allur að koma til í þessum föllum sínum og er farinn að bera hendur fyrir sig. En eftir að detta núna, rak hann upp ramakvein og vildi ekki hreyfa vinstri hendina með nokkru móti.

Var einungis um eitt að ræða, að fara með drenginn á slysavarðstofuna. Þar var drengurinn skoðaður, myndaður, skoðaður enn betur og síðan gifsaður á vinstri handlegg. Kom nefnilega í ljós hann hafði brákað handlegginn rétt neðan við olnboga. Sýndi einn læknirinn mér röntgenmynd þar sem ég gat séð örfína sprungu á beininu.

Verður þetta ekki vandamál, mun gróa að fullu á stuttum tíma, en gifs er nauðsynlegt í þrjár vikur. Guttinn litli var nú ekki alveg sáttur við gifsið, en ekki þýddi að deila við dómarann.

Við gengum út af slysavarðstofunni rúmum þremur tímum eftir að við mættum. Eftir því sem ég les í Mogganum þætti það vel sloppið í henni Reykjavík.

Nóttin var okkur síðan erfið. Rúnar Atli vaknaði á hálftíma til þriggjakortera fresti með miklar kvalir. Við vorum því hálftuskulegir í morgun. Hann hefur þó verið hress í dag og nú er ég búinn að ná mér í einhverja töfrastíla til að drengurinn sofi í nótt. Tók hann sér þriggja klukkutíma blund eftir hádegið í kjölfar inntöku fyrsta stílsins.

En hér er ein mynd af drengnum með nýju múnderinguna.



Síðan þykir honum greinilega allur varinn góður og er kominn með plástrakassa innan seilingar.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æi elsku litli stúfurinn, þarf ekki drengurinn einhvern svona með heilbrigðismenntun til að hugsa um sig. Ég get alveg komið gegn því að fá greitt flugfar og uppihald á meðan.... Þú bara hóar Villi minn

Nafnlaus sagði...

elsku drengurinn, ekki alveg nógu gott. En mikid svakalega er hann líkur Dodda frænda sínum. Kvedja Maja. Ps enginn er betri en Jóhanna frænka thegar madur er slasadur:-))

Nafnlaus sagði...

Ju hann er sætur eins og Doddi frændi:)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...