Þá er nýtt ár runnið í hlað. Í Morgunblaðinu les ég að aldrei hafi verið sprengt jafnmikið um áramót á Íslandi og um þessi. Hmm. Hér var frekar lítið um flugelda. Ég heyrði í tveimur, en tókst ekki að sjá þá. Mikið fjör. Ég sat einn fyrir framan sjónvarpið og horfði á niðurtalningu til áramóta, sem fram fór á íþróttavelli hér í bæ, en þar voru miklir áramótatónleikar. Gulla og mamma sváfu af sér áramótin, og Rúnar Atli auðvitað líka, en Dagmar Ýr og Tinna Rut fóru í heljarinnar partí sem haldið var af namibísku Bylgjunni - RadioWave. Ég þurfti því að halda mér vakandi til hálfþrjú, svo þær kæmust nú heim.
Svo á nýjársdag fækkaði í kotinu. Helmingurinn af liðinu fór til Íslands. Ekki er hægt að neita að hálftómlegt virkar hér núna. Við Rúnar Atli skutluðum öllum út á flugvöll. Hann er orðinn vanur þessu, því ég hef misst tölu á þeim skiptum sem við höfum keyrt fólk út á völl síðustu tvo mánuði.
En, reyndar má segja að ekki hafi fækkað jafnmikið og við héldum. Í gærkvöldi uppgötvaðist nefnilega að lítil og krúttaraleg húsamús hefur tekið sér bólfestu hér hjá okkur. Það var mikill handagangur í öskjunni hjá okkur Tinnu Rut þegar þetta uppgötvaðist. Ja, a.m.k. hjá mér, því Tinna Rut sat sem fastast uppi í sófa með hné undir höku. Á meðan var ég með ennisljósið mitt að lýsa undir sófann og gólfkústinn í hendinni að reyna að ná mýslu undan þessum sama sófa. Gekk þetta nú allt hálfbrösulega og um tíma játaði ég mig sigraðan. En svo glæddist leikurinn, því seint um kvöldið sé ég mýslu sitja við svaladyrnar. Tekst mér á mjög fimlegan, eigum við ekki að segja akróbatískan, hátt að opna svaladyrnar og viti menn, mýsla rölti sér út. Ég skellti í lás og greyið þeysti til baka, en lenti með andlitið á glerinu í hurðinni.
Ég vann því í bili. Nú er bara að vona að mýsla finni sér annan samastað.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
1 ummæli:
Ojjj mús ojjjj. Ég skil Tinnu vel að hafa setið uppí sófa með hnén undir höku :/
Skrifa ummæli