8. desember 2012

Týndur farþegi, áttavillt fjölskylda - fríið byrjað

Þá er jólafríið byrjað. Við lögðum af stað í gær frá Lílongve, en þaðan er ríflega tveggja tíma flug til Jóhannesarborgar. Þar stoppum við í tvær nætur, svona til að fá tilfinningu fyrir því að vera í fríi.

Í Lílongve er búið að vera yfirvinnubann hjá flugvallarstarfsmönnum, sem þýðir að ekkert gerist á flugvellinum í hádeginu. En þá er einmitt mesta traffíkin um völlinn. Flugvélin sem við tókum lendir t.d. um hálfeitt og er farin aftur þremur korterum seinna. Því vissum við ekki alveg hvort allt yrði á réttum tíma. En í gær virtist þetta komið í lag. Við mættum á réttum tíma, fengum brottfararspjöld og vorum komin út í vél um eittleytið.

Allt eftir bókinni.

En svo gerist ekkert. Allir sestir, en einhverju virðist beðið eftir. Tuttugu mínútum eða svo eftir áætlaða brottför segir flugstjórinn okkur að það vanti einn farþega. Vandamálið sé að það sé ekki alveg vitað hver það sé. Auðvitað má ekki fljúga með töskur einhvers sem hverfur svona, en til að finna töskurnar þarf að vita hver maðurinn er.

Skömmu síðar koma flugfreyjurnar með farþegalistann. „Hvað heitið þið?“ vorum við spurð. Hinum megin við ganginn sat kínverskur maður sem virtist ekki tala ensku. Eftir smástund tekst flugfreyjunni þó að fá brottfararspjaldið hjá honum. Upphófst þá mikið óðagot við að koma okkur af stað. Þarna var nefnilega týndi maðurinn kominn!

Sat allan tímann út í vél.

Fjörutíu mínútna seinkun út af engu.

Viðbúið er að flugstjórinn hafi blótað allhressilega.

Svo lentum við í Jóhannesarborg. Náðum okkur í bílaleigubílinn og Gulla sat með leiðbeiningar frá hótelinu um hvernig ætti að komast á hótelið. Hún var sem sagt lóðsinn.

Vandamálið var hins vegar að greinilega vantaði upplýsingar um fyrstu götuna sem fara átti á!

Við hringsóluðum því í kringum flugvöllinn í góða stund, leitandi að veganúmeri sem hvergi sást.

Á endanum datt mér í hug að gamli Nókía-síminn minn er með einhverjum kortafídus. Kveikti á þessu, og viti menn, síminn vissi hvar við vorum.

Sló síðan inn hótelheitinu og, viti menn aftur! Síminn gat sagt mér að þangað væru 14,8 kílómetrar.

Akstursleiðbeiningar, var það næsta sem ég bað um.

Jú, „taktu vinstri beygju eftir 350 metra og svo strax vinstri beygju.“

Við brunuðum af stað og undir skýrum leiðbeiningum einhverrar dásamlegrar kvenraddar komumst við klakklaust á leiðarenda. Beygði reyndar vitlaust einu sinni, en daman var enga stund að koma mér aftur á beinu brautina.

Já, er ekki tæknin dásamleg?

Nú er bara að njóta lífsins fram á sunnudag.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta minnir á þegar hjálparsveitir voru kallaðar út í sumar til að leita að týndum farþega úr rútuferð inni á hálendi. Allir farþegar rútunnar leituðu líka ....og þar með talinn týndi farþeginn:):)
...Eruð þið á leiðinni á klakann?
Kv Gerða

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...