9. desember 2012

Beðið eftir flugvél

Nú sitjum við fjölskyldan á alþjóðaflugvellinum í Jóhannesarborg. Mættum tímanlega, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Enda þurftum við að treysta á nókía-dömuna með yndisþýðu röddina, og vildum því hafa vaðið fyrir neðan okkur. Tókum einu sinni eða tvisvar ranga beygju, en enduðum á réttum áfangastað. Reyndar ætluðum við á ákveðinn veitingastað fyrst og nókía-daman lóðsaði okkur þangað. En viti menn, ekkert veitingahús! Kannski er götukortið í símanum orðið gamalt og veitingastaðurinn kominn á hausinn. Gæti svosum vel verið, því ég hef ekkert spáð í kortafídusinn í símanum lengi, lengi.

Þar sem við mættum snemma, var rólegt við innritunarborðið og eins í öryggiseftirlitinu og vegabréfsskoðuninni. Við komum okkur fljótlega fyrir á kaffistað, hvers nafn útleggst Bollinn og baunin á því ylhýra.

Núna drekk ég mjólkurhristinginn minn eins hægt og mögulegt er, en við viljum sitja hér í góða stund enn. Pöntum eitthvað smálegt öðru hverju til að halda þjóninum heitum.

Fyrir höndum er ellefu tíma flug til Lundúna. Ekkert okkar hlakkar sérlega til þessa flugs, en þetta fylgir því að eiga heima langt í burtu frá Fróni. Ekki bætir úr skák að þurfa að sækja töskurnar á Heathrow og koma þeim á réttan stað. Eitthvað bull um að suður-afrísku flugleiðirnar og þær íslensku séu ekki með einhvern samstarfssamning. Ekki veit ég hversu oft við höfum ferðast milli Jóh.borgar og Keflavíkur og tékkað farangurinn alla leið. En, einstaka sinnum lendir maður á einhverjum flugvallarstarfsmanni sem höndlar þetta ekki.

En sem betur fer er nægur tími í Lundúnum.

Svo er flug þaðan klukkan eitt e.h. að staðartíma og lending heima klukkan fjögur.

Ætli maður verði ekki að fara úr stuttbuxunum og fara í síðar áður en vélin opnar dyrnar í Keflavík?

Gæti trúað því.

1 ummæli:

davíð sagði...

Mæli ekki með stuttbuxunum

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...