Sit núna á hóteli nokkur hundruð metra frá Heathrow flugvellinum í Lundúnum. Hef það alveg ágætt, þó auðvitað vildi ég miklu frekar vera í faðmi fjölskyldunnar í Æsufellinu.
En klúður gærdagsins heldur áfram. Þá gátu flugvallaryfirvöld ekki tekist á við 2-3 sm snjólag. Vélin frá Keflavík var síðasta vélin sem lenti áður en vellinum var lokað. Þá var klukkan 12:15. Eftir það snjóaði ekkert. Sex klukkutímum seinna er ég kominn út í vél og allt klárt fyrir brottför. Klukkutíma síðar tilkynnti flugstjórinn okkur að flugvöllurinn yrði ekki opnaður þann daginn. Allir farþegarnir þurftu því að fara frá borði.
Ekki nög með það, heldur var okkur líka sagt að öll hótel væru full og við þyrftum því að sjá um okkur sjálf. Og svo þyrftum við að finna töskurnar okkar.
Ýmsir þjóðþekktir Íslendingar og útrásarvíkingar eru í sama bobba og ég. Má nefna Eggert Magg, fyrrum West Ham stjóra, Steina í Kók og frú og Jón stórforstjóra Sigurðsson.
Í töskusalnum ríkti algjör ringulreið. Þar voru hundruðir taska út um allt og ekkert skipulag. Ég spurð einn starfsmann hvar töskurnar úr mínu flugi kæmu. Sá ranghvolfdi í sér augunum og sagði: ,,Þú verður bara að leita.''
Já, sæll!
Eftir klukkutíma bið hafði slatti af mínum ferðafélögum fengið sínar töskur, en ekkert bólaði á minni. Fór ég að spyrjast fyrir. Eftirgrennslan leiddi í ljós að þar sem mín taska kom úr tengiflugi þá var hún tekin til hliðar einhvers staðar og yrði sett beint í vélina sem ég færi í. Ágætt hefði verið ef maður hefði fengið að vita þetta.
Á meðan ég beið eftir töskunni sem aldrei kom áskotnaðist mér símanúmer hjá Hotels.com og tókst mér með þeirra aðstoð að fá herbergi á einhverju litlu hóteli guð-má-vita-hvar.
Svo var að koma sér þangað.
Leigubíll.
Ég fer út úr flugstöðinni og sé heljarinnar biðröð eftir leigubílum. Mér leist ekki vel á þessa röð því ég var ekki klæddur fyrir mikla útivist í tveggja stiga frosti eða svo. Ég var bara á stuttermaskyrtu og gallabuxum. Hafði beðið Gullu að koma með úlpu út á völl í Keflavík, en ég átti ekki von á því að fara út á meðan á ferðalaginu stóð.
En ég þurfti leigubíl og rölti mér þvî að endanum á röðinni. En þá lá við að mér væri öllum lokið. Þar sem ég hélt að röðin endaði fór hún fyrir horn og var margfalt lengri en ég hélt. Varlega áætlað, ég endurtek varlega, voru ekki undir 500 manns í þessari röð. Án gríns.
Þarna stóð ég í meira en klukkutíma í röð. Í stuttermaskyrtu og undir frostmarki. Ég var reyndar með bol í handtöskunni og fór líka í hann. Sem betur fer er ég heitfengur, en síðustu mínúturnar í röðinni var ég farinn ad fá ósjálfráðan skjálfta öðru hverju. Óþægileg tilfinning, megið þið trúa.
En á endanum komst ég á hótelið. Svaf ég vel til morguns, þótt eitthvað af gormum í dýnunni væru full uppstæðir.
Starfsfólk Icelandair sagði okkur að brottför yrði í kringum 8 næsta morgun. Mætti ég því út á völl rétt eftir sex.
Þá var kominn lögregluvörður við allar aðkeyrslur að Heathrow. Völlur var lokaður var mér sagt. Tókst mér þó að komast gangandi inn í innritunarsalinn. Þar voru þúsundir manna, sem flestir höfðu eytt nóttinni á vellinum. Öðru hverju var lesin upp tilkynning þar sem sagt var að völlurinn væri lokaður og að allir ættu að yfirgefa hann.
Ekki bólaði á starfsfólki Icelandair. Símanúmerið sem upp var gefið var símsvari sem sagði að skrifstofa opni á mánudag kl. 9.
Ekki þótti mér þessi þjónusta til fyrirmyndar. Ég sá t.d. srafsmenn Swiss Air þarna sem leitðu uppi sína viðskiptavini, fræddu þá um stöðu mála og gáfu þeim skriflegar leiðbeiningar og símanúmer. Svipað virtist í gangi hjá Lufthansa.
En engar upplýsingar frá Icelandair.
Eftir smátíma virtist mér einsýnt að ekkert myndi gerast næstu klukkutímana. Hringdi ég því aftur í vini mína hjá Hotels.com og redduðu þeir mér hótelherberginu sem ég er í núna. Ég er einn af þeim heppnu því fullt af fólki finnur ekki hótelherbergi.
Gulla náði sambandi við Icelandair heina, en þeir vissu ekkert. Ekki nema að þar sem ég átti flug í gær, þá væri ég ekki í forgangi í dag.
Eru menn ekki að grínast?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
2 ummæli:
Ja hérna hér... svo er alltaf verið að drulla yfir iceland express þegar sama ruglið er í gangi hjá icelandair.
Vonandi kemstu nú heim fyrir jól Villi minn. Góða ferð.
Ég skildi líka ekkert af hverju þú varst ekki búinn að bjóða mér í kaffi.
Skrifa ummæli