4. september 2012

Lílongve logar - og allt vatnslaust

Reyndar logar borgin ekki bókstaflega. Hins vegar logar allt í verkföllum opinberra starfsmanna í Lílongve sem og í öðrum stórum byggðakjörnum í landinu. Nokkuð er orðið síðan þetta hófst, en kveikjan er gengisfelling sem varð á gjaldmiðli Malava, kvakanum, í apríl og því gengissigi sem í kjölfarið fylgdi. Er nærri lagi að kvakinn hafi fallið um 70% gagnvart bandaríkjadal.

Eins og við Íslendingar þekkjum mætavel þá fylgir verðbólga gengisfalli. Því hafa Malavar fengið að kynnast undanfarna mánuði. Tölur frá hagstofu Malaví gefa til kynna að verðbólga í júlí hafi verið tæplega 22 prósent. Hefur hún vaxið hröðum skrefum frá í apríl og ekkert sem bendir til að henni linni í bráð.

Auðvitað kemur þetta við almenning. Þegar nýtt fjárhagsár hófst hjá ríkinu malavíska hinn 1. júlí sl. þá kynntu stjórnvöld launahækkanir opinberra starfsmanna. Meðaltalshækkunin var 21%, mest hjá lægst launuðum, ríflega 40%, en minni eftir því sem laun hækkuðu. Starfsmenn fyrirtækja í eigu ríkisins fengu mun minna, 5%.

Skemmst er frá að segja að launþegar eru ekki sáttir. Starfsmenn ýmissa opinberra fyrirtækja og stofnana hafa farið í verkföll undanfarnar vikur. Þetta hefur ekki haft mikil áhrif á fólk almennt, þar til starfsmenn vatnsveitu Lílongve fóru í verkfall og kröfðust 30% launahækkunar í stað þeirrar 5% sem þeir höfðu fengið. Innan tveggja daga var öll borgin orðin vatnslaus. Einum eða tveimur dögum seinna var búið að semja um 25% launahækkun og starfsmenn mættu aftur til vinnu. Manni datt nú bara í hug íslenskir mjólkurfræðingar og þeirra verkföll hér á árum áður.

Þar með kom vatnið aftur, ekki satt?

Ó, nei, ekki er það nú svo gott. Til að borgin hafi nægjanlegan vatnsþrýsting til að þjónusta allri borginni þá þarf ákveðið lágmarksmagn í vatnstanka borgarinnar. Hægara sagt en gert virðist vera að ná því vatnsmagni eftir að tankarnir tæmast. Í okkar húsi kemur vatn inn í einhverja klukkutíma á sólarhring, yfirleitt að nóttu til. Líklega eru fjórir dagar síðan verkfalli lauk, en við sjáum enga breytingu á ástandinu.

Við erum þó heppin því við höfum forðatank á lóðinni okkar. Líklega komast 5.000 lítrar í hann, ef hann nær að fyllast. Í tankinn safnast vatn þegar vatnsveitan hleypir vatni til okkar. Þegar ekkert vatn kemur inn á lóðina þá rennur vatnið úr tankinum í kranana okkar. Við höfum því vatn til að fara í sturtu og til helstu nauðsynja. Þó sé ég mikið eftir vatninu sem sturtast niður úr klósettkassanum...

Í dag settum við í eina þvottavél... annars er handþvegið.

Sumir eru ekki jafnheppnir og við. Þeir sem enga forðatanka hafa mega sætta sig við að hafa ekki vatn í krönunum megnið af sólarhringnum.

Við nældum okkur að auki í þrjár 200 lítra tunnur af vatni sem við notum við uppvask og vökvun á matjurtagarðinum. Við notum vatnið úr forðatankinum eins sparlega og hægt er og vonum á kvöldin að nóg dælist í tankinn á nóttunni til að duga næsta dag. Enn sem komið er hafa þær vonir ræsts.

En mikið er maður háður vatni. Rafmagnsleysi er miklu auðveldara viðfangs. Að komast ekki í sína daglegu sturtu er skelfilegt. Við vorum ekki nægjanlega vakandi þegar verkfallið hófst og áttuðum okkur ekki á því í heilan dag að ekkert vatn kom inn til okkar. Því kláraðist vatnið úr forðatankinum. Engin sturta í tvo daga, bara einhver þvottapokaþvottur.

Óskemmtilegt.

Nú er bara að vona að vatnsveitan nái að safna því vatni sem til þarf til að allt komist aftur í lag.

Og á meðan logar allt í verkföllum annarra. Nýjust fréttir voru að borgarstarfsmenn í hinni stóru borginni í landinu, Blantyre - sorphirðumenn og fleiri - væru farnir í verkfall. Og þeirra kröfur?

150% launahækkun!

Já, sæll.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...