18. apríl 2011

Ráðist á garðinn

Þá kom að því.

Í morgun klæddi ég mig í nýja Didriksons 1913 vind- og regngallann minn og settist á reiðhjólið. Nú var stefnan sett á að komast í vinnuna á hjóli.

Er ég leit út um gluggann í kringum sjöleytið var hæglætisveður. Nokkuð kyrrt af trjátoppunum að dæma og úrkomulaust. Greinilega hafði þó rignt í nótt. Síðan þegar búið var að borða morgunmatinn og ég hálfnaður að græja mig upp, þá sá ég að byrjað var að snjóa.

Of seint að hætta við. Enda ef maður hættir við einu sinni, þá er voðinn vís í framtíðinni...

Ég hjólaði því af stað. Ferðin sóttist vel. Þó var óþægilegt að frá snjódrífuna í augun og því horfði ég meira niður á stíginn heldur en ég er vanur. Kannski ég ætti að fá mér skíðagleraugu? Nei, ætli fólk hætti þá ekki alveg að kannast við mann.

Það snjóaði alla leið. En þar sem gallinn stóð fyrir sínu, þá var hjólatúrinn bara fínn. Erfiðasti hjallinn var Suðurhlíðin, meðfram Fossvogskirkjugarðinum. Sú brekka leynir á sér. Ekkert svakalega brött en svona í lengri kantinum.

En allt hafðist þetta. Kom í vinnuna eftir rúmlega hálftíma hjólatúr og voru þá níu kílómetrar að baki. Mætti ég nokkuð fyrr en ef ég hefði farið með strætó. Munar þar mestu að þegar labbitúrinn í skólann á morgnana með syni og eiginkonu er búinn, þá þarf ég að bíða í hátt í tíu mínútur eftir vagninum. Því fékk ég forskot á hjólinu.

Heimferðin tók aðeins lengri tíma. Tæpar 40 mínútur. Enda meira upp í móti en hin leiðin.

En stór þröskuldur yfirstaðinn.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ánægð með þig, held ég hefði guggnað á snjónum!
kv.
Sigga og páskaungarnir.

Jóhanna sagði...

ég fór í 2faldan zumba tíma inni í þurru og heitum íþróttasal...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...