4. júlí 2009

Útilegufrásögn

Á mánudaginn var lögðum við af stað í útileguna okkar. Ég þurfti að skoða vatnsveitur sem hafa verið útbúnar fyrir íslenska peninga. Svæðið þar sem þetta er hefur ekki gistiheimili á hverju strái og því var tjald í för.

Fyrsti dagurinn fór í akstur til Opuwo og sátum við í bílnum í átta tíma. Aðeins 750 km þann daginn. Næsti dagur hófst með fundarsetu, en skömmu fyrir hádegi lögðum við af stað inn í óbyggðirnar. Við eina vatnsveituna hafði ég mælt mér mót við jarðfræðing sem stýrir borunum fyrir okkur. Þegar þarna var komið sögu þá var degi farið að halla og því kominn tími á að finna næturstað.

Komum við okkur fyrir í árfarvegi nokkrum, en eins og sum ykkar kannski muna, þá eru namibískir árfarvegir þurrir mestan hluta árs. Þarna skelltum við upp tjaldinu og fórum að huga að kvöldverði. Tandoori kjúklingur og búapylsa. Ekkert slor.

Svona leit tjaldstæðið út:


Rúnar Atli skemmti sér konunglega. Þótti alveg stórkostlegt að vera undir berum himni með foreldrunum. Hann var ekki í vandræðum með að fá útrás, spilaði fótbolta, gróf sjálfan sig ofan í djúpa holu og stundaði síðan skógarhögg...

Hér er öxin munduð...


... og svo heljarinnar sveifla


Síðan fljótlega eftir sex fór að skyggja og þá var prílað upp í tjald. Rúnar Atli var kominn í bælið rúmlega sjö, en við hjónin sátum nokkuð lengur við varðeldinn. Alltaf notalegt að horfa í eldinn. Síðan fórum við líka í bælið.

Ég hef velt svolítið fyrir mér hvenær ég fór síðast í útilegu. Ég er einna helst á því að það hafi verið árið sem ólympíuleikarnir voru haldnir í Atlanta, árið sem æviráðning ríkisstarfsmanna var að mestu afnumin, flug TWA 800 fórst rétt hjá Nýju Jórvík. Já, árið var 1996.

Næsta morgun var vaknað rétt eftir sólarupprás, svona kortér yfir sex. Þá kom meiriháttar klúður í ljós. Þannig var að ég ætlaði að baka kanadískar pönnukökur í morgunmat. Gætti þess að hafa hina ýmsu vökva með sem þurfti, s.s. vanilludropa, súrmjólk og auðvitað egg. Þessu átti svo að hræra saman við þurrefnablönduna sem ég útbjó fyrir brottför.

Eða útbjó ég blönduna?

Nei, haldiði að ekki hafi uppgötvast að þurrefnablandan gleymdist...

Sem betur fer hafði Gulla bakað jólaköku og marmaraköku og möffin. Morgunmaturinn var því fínn, þótt planið hafi aðeins klikkað. En þetta gengur bara betur næst.

Svo var lagt af stað. Á fyrsta stoppi eignaðist Rúnar Atli ágætis vin:


Ekkert asnalegt við þetta.

Þessi hluti Namibíu er frumstæður að mörgu leyti. T.d. er ekki farsímasamband þarna. Ja, eða hvað? Á ferðalagi okkar komum við að merkilegum steini. Á honum stóð ,,MTC er hér'' en MTC er stærsta farsímafyrirtækið í Namibíu. Ef prílað er upp á steininn þá næst sem sagt samband við umheiminn í gegnum farsíma.


Ég get alveg séð Himbana fyrir mér labbandi um allt með farsímann á lofti að leita að sambandi :-)

Ýmislegt forvitnilegt bar fyrir augu. Til dæmis rákumst við á kirkjugarð stórmenna út Himba-ættbálkinum. Þarna báru flestir ættarnafnið Tjambiru, en flestir höfðingjar á þessum slóðum bera það nafn.


Til að sýna ættgöfgi þeirra sem grafnir eru þarna, þá eru hafðar nokkrar hauskúpur af nautgripum við grafirnar. Eru útbúnir rekkar sem hauskúpunum er raðað í.


Síðan ókum við fram á stórmerkilegt tré. Var það eins og steinn viðkomu.


Vegakerfið á þessum slóðum er ekki upp á marga fiska. Tók okkur þrjá klukkutíma að aka 36 km kafla. Meðalhraði 12 km! Stöðvaði ég í einni beygju og tók mynd. Vegslóðarnir eru mjög stórgrýttir og holóttir. Er maður stóránægður að komast í annan gír - tala nú ekki um þriðja.


Seinna útilegukvöldið, þá tjölduðum við hjá trjálundi nokkrum. Rúnari Atla fannst stórkostlegt að geta klifrað í tréi sem var þar. Gekk það þó ekki þrautarlaust fyrir sig. Í eitt skipti rann hann aðeins til. ,,Er allt í lagi,'' kallaði ég til hans. ,,Já,'' svaraði hann ,,eða nei! Hjálp!!!'' Þurfti ég að hlaupa til og bjarga honum. Hruflaðist hann aðeins á framhandlegg og þótti honum mikið til koma um sárabindið sem móðir hans setti á sárið. Þarf hann enn að fá sárabindi, þremur dögum seinna. Er greinilegt að hann stefnir á að hafa sárabindisvafning á hendinni á mánudaginn í leikskólanum.


Sumum var frekar kalt seinni morguninn:


Landslagið þarna er tiltölulega hrjóstrugt. Svæðið er mjög þurrt og ekki mikið af gróðri umfram runna og gróft gras. Einna leiðinlegast er allur sandurinn sem er þarna og sandrykið sem fylgir. En sumstaðar er greinilega vatn í jörðu og birtast allt í einu pálmatré, eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Þetta risavaxna pálmatré rákumst við á og þótti þess virði að hægja á okkur. Úr 12 km meðalhraða niður í ekki neitt.


Á fimmtudagskvöldið komum við aftur til Opuwo. Gott var að komast í sturtuna. Síðan á föstudeginum var lagt af stað aftur til Windhoek og komum við í bæinn rétt fyrir myrkur.

Eftir ferðalagið er ég þrælspenntur fyrir fleiri útilegum. Rúnar Atli er á sama máli. Jú, og Gulla bara líka.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fór ekki tengdamamma þín með í útileiguna 1996 og svo dó hún :-(
Doddi

Villi sagði...

Ja, ég veit nú ekki hvort orsakatengsl voru þar á milli...

Má bjóða þér í útilegu, Doddi minn?

Villi sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...