Skrýtnir þessir ,,annar í" dagar. Merkilegt að okkur skuli ekki hafa tekist að nefna þessa ,,b-hliðar" daga einhverjum almennilegum nöfnum. T.d. er annar í jólum nefndur fjölskyldudagurinn hér í Namibíu. Mér finnst það nú nokkuð smellið nafn á þeim degi.
En, ég fór nú að hugsa um ,,annar í" dagana vegna þess að annar í hvítasunnu er ekki frídagur hér í Namibíu. Rúnar Atli fór til læknisins, en komið hefur upp úr kafinu að drengurinn er með miklar birgðir af merg í eyrunum sínum. Því höfum við tekið eyrnadropaskorpur, en ekki með miklum árangri. Á föstudaginn var mættum við til læknisins og var þá dregin upp sú stærsta sprauta sem ég hef lengi séð og vatni dælt inn í eyrun á drengnum. Tilgangurinn var að losa um merginn og helst að hann sprautaðist úr. Árangurinn þá var ekki mikill og var því sammælst um að nota dropa stíft um helgina og mæta aftur í dag.
Rúnar Atli var þægðin uppmáluð, eins og hans er von og vísa. Hann varð geysilega hvekktur á læknum eftir allar sprauturnar sem hann fékk í desember 2005, rétt áður en við fluttum til Namibíu. Tíminn hefur þó læknað þau sár og í dag er hann mjög rogginn þegar farið er til læknis. Býður góðan daginn og spjallar ef sá er gállinn á honum. En þessi vatnsaustur í eyrun fannst honum skrýtinn. Hann sat þó alveg grafkyrr, en í eitthvert skiptið sem læknirinn var að fylla á sprautuna, leit drengurinn til mín og sagði:
,,Pabbi, þessi læknir er alveg kolvitlaus!"
Átti ég erfitt með að halda aftur af hlátrinum. Tókst það þó. Ekki langaði mig að þýða fyrir lækninn að drengurinn hefði talað um þennan ,,crazy doctor" - lái mér hver sem vill.
Í dag fórum við aftur og nú gekk miklu betur. Úr öðru eyranum kom heill hellingur af mergflyksum, en ekki gekk alveg eins vel í hinu eyranu. En allt lofar þetta góðu. Næsta helgi verður önnur helgi í dropum og síðan til læknisins á mánudaginn. Vonandi næst þá restin af þessum hryllingi. Örugglega munar þetta miklu fyrir heyrn Rúnars Atla, annað getur bara ekki verið.
Kolvitlausi læknirinn... dásamlegt það sem stundum veltur upp úr börnunum manns.
1. júní 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
3 ummæli:
Best við svona vandamálum er að setja ólivuolíu í bómull og setja í eyrun og leyfa að liggja við í nokkra stund fyrir svefninn. Daginn eftir þá er mergurinn orðinn mun mýkri og þá ætti að losa um hann amk auðveldara að skola útúr eyranu
Með bestu kveðju frá heilbrigðisstarfsmanni fjölskyldunnar
Gott að hafa heilbrigðisstarfsmann í fjölskyldunni - þakka gott ráð :-)
kv,
Gulla
Þetta er einfalt; þetta er meðfætt hjá sumum karlmönnum,nú? Þá heyra þeir ekki í mömmum sínum,systrum og ég tala nú ekki um KONUM sínum þegar eitthvað tuð er í gangi.
Ivar
Skrifa ummæli