Þá erum við komin aftur heim eftir norðurför. Áttum við skemmtilega ferð og fórum við Tinna Rut í svaðilför.
En fyrst smáljósmyndasnilli. Tinna Rut er í ljósmyndun í mynd- og handmennt í skólanum og er alltaf að taka myndir. Allt í einu verða til fullt af myndum af mér, en frekar sjaldan er ég með á myndum. Hér er til dæmis undirritaður allvígalegur, ekki satt?
En, takið eftir spegilmyndinni í gleraugunum. Hér kemur hún aðeins stækkuð:
Jú, þar er bara sjálfur ljósmyndarinn. CSI hvað?
En nóg um þetta. Á föstudaginn var keyrðum við að Rúakana-fossunum. Ekki í fyrsta sinn sem við komum þangað, en þegar vatn er í fossunum eru þeir stórkostleg sjón. Systkinin tóku sig vel út saman þar.
Við ókum síðan sem leið lá meðfram Kúnene-ánni. Frekar hægfarinn vegur, en við á fjórhjóladrifnu ökutæki svo það var ekki til vandræða. Áðum við síðan í tvær nætur á gististað með útsýni yfir ána sjálfa. Að sitja við þessa á, horfa á hana fljóta í átt til Atlantshafs, algjör þögn utan skordýrasuð, ekkert farsímasamband, hitinn tæplega 30 gráður, ja, manni dettur bara helst í hug aldingarðurinn Eden. Ef ég væri rithöfundur, þá væri þetta staðurinn þar sem ég sæti við skriftir.
Hér er ein mynd tekin af ánni rétt fyrir sólarlag.
En þarna var reyndar hægt að ná upp innspýtingu á adrenalíni. Við Tinna Rut fórum nefnilega í svokallaða flúðasiglingu. Þá er farið að stórum gúmmíbát og róið niður flúðir og vonað að maður komist á leiðarenda í bátnum. Í svona reisu fer maður ekki með myndavél, en hér er ein mynd sem ég stal frá vefsíðu gistiheimilisins.
Við vorum átta í borð í bátnum, tveir atvinnumenn og sex ferðalangar. Er við vorum sest í bátinn, hófust æfingar til að við myndum nú bregast á réttan hátt við skipunum: Hægri hlið róa áfram! Vinstri hlið róa afturábak! og þar fram eftir götunum. Síðan stöðvuðum við bátinn og annar leiðsögumaðurinn lítur á mig og segir: "Herra minn, stökktu útbyrðis!¨ Nú, og ég varð auðvitað að hlýða. Skipstjórinn ræður. Henti mér fyrir borð á bólakaf í drulluskítuga Kúnene-ána. Angólumegin, ef það skiptir máli. Síðan var ég halaður um borð. Allir þurftu að skella sér útbyrðis þarna. Tilgangurinn var jú að kenna okkur hvernig við ættum að komast aftur um borð ef ske kynni að við þeyttumst fyrir borð þegar á hólminn væri komið.
Var ég búinn að nefna að í Kúnene-ánni eru krókódílar? Hér er mynd sem ég tók seinna sama dag...
Sjáið þið illskulegar glyrnur krókódílsins gægjast upp úr vatninu? Ekki skrýtið þótt við Tinna Rut værum ekki alltof æst í að detta útbyrðis.
Svo var lagt af stað niður ána. Fyrstu flúðirnar voru tiltölulega auðveldar viðureignar. Við fengum nokkrar gusur yfir okkur og aðeins átti báturinn til að hallast, en þetta gekk nú allt vel.
Náttúran þarna er ægifögur. Þarna eru kolsvartir hamraveggir á báða kanta, en svo inn á milli koma gulllitaðar strendur og stórkostlegur trjágróður. Það er eiginlega ómögulegt að lýsa þessu, maður verður að sjá þetta með eigin augum.
Eftir kannski klukkutíma siglingu var áð. Áningarstaðurinn var fullkomin baðströnd. Bogadregin strandlengja og aftur þessi gulllitaði sandur. Þegar við renndum að ströndinni, spurði leiðsögumaðurinn hvort við heyrðum ekki einhverjar drunur. Jú, ekki var laust við það. Já, sagði hann, þetta eru næstu flúðir - Dómsdagshylur! Þar með var ekki mikið hægt að slappa af yfir hádegismatnum.
Svo var lagt af stað í dómsdagshylinn. Búið var að undirbúa okkur, en þarna áttum við að snúa bökum saman, grúfa okkur niður og halda dauðahaldi í reipi sem strengt er hringinn í kringum bátinn. Ekki sleppa reipinu, hvað sem á dyni. Svo leggjum við af stað og báturinn tekur að dansa í flúðunum. Náunginn hrópar til okkar að grúfa okkur niður, en eitthvað var þetta lengi að síast inn í kollinn á okkur öllum. Nema hvað, báturinn tekur risadýfu með tilheyrandi hliðarveltu og gusugangi. Við Tinna Rut áttum fullt í fangi með að halda okkur um borð, en tókst þó. Hins vegar, þegar báturinn kemur upp úr dýfunni, þá vantar tvo fremstu farþegana. Par, sem hafði verið mjög kokhraust fyrir ferðina, breskur náungi og kona frá Púertó Ríkó. Sáum við þau skjóta upp kollinum aðeins neðar í ánni. Var nú róinn lífróður til að ná þeim og tókst það giftusamlega. Sem betur fer, því þarna eru stórhættulegir klettar rétt undir vatnsborðinu og því gæti þetta hafa farið illa. Konan fékk hálfgert áfall við þetta og var í góða stund að jafna sig.
En þetta voru síðustu flúðirnar og síðan var flotið í rólegheitum niður ána þar til komið var á áfangastað.
Ég hafði ekki verið viss um hvort ég ætti að leggja í þessa ferð, en núna er ég kominn með bakteríuna. Ef tækifæri gefst til að fara í aðra flúðasiglingu, þá mun ég grípa það hiklaust.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
2 ummæli:
Þetta hefur verið hið mesta ævintæri og flúðasiglingarnar skemmtileg viðbót,við förum í eina slíka þegar þið komið til landsins. Krókudílar,ekki frínilegir og en ágætir til átu.
Ég vil koma á framfæri einn klassiskri setningu
" I'LL BE BACK"
Nei bara þetta með gleraugun!!!!!!!!!!!
Skrifa ummæli