Eitthvað er að kólna hér í Windhoek. Reyndar búið að vera kalt undanfarnar nætur. Í morgun kveikti ég hreinlega upp í arninum. Einhverjar 15 gráður inni í húsi. Miklu mun heitara úti. Les ég í fréttum að einhver kuldabylgja frá Höfðaborg sé að valda þessu.
Horfðum á kosningasjónvarpið í gær. Æ, ég læt þetta nú hljóma betur en það var. Einhverra hluta vegna var bara hægt að horfa á svona þrjár til fimm mínútur skammlaust í einu. Þá fór myndin að óskýrast og hljóðið datt út. Því var sífellt verið að endurhlaða RÚV síðuna. Reyndar ótrúlegt hvað við entumst lengi í þessu. Að lokum var skipt yfir á rás 1. Miklu betra. Veit ekki hvaða vesen var á netinu, en grunar að þetta hafi verið eitthvað vandamál Íslandsmegin. Ég náði að sitja til rúmlega tvö að namibískum tíma, rúmlega eitt að íslenskum tíma. Sem betur fer svaf Rúnar Atli til rúmlega 10 í morgun. Hann fór ekki í rúmið fyrr en eftir miðnætti.
Hlustaði svo í beinni í morgun þegar síðustu tölur komu í norðausturkjördæmi. Svakaspenna þegar síðustu tölur setja hringekjuna af stað. Framsóknarmenn hljóta að hafa verið illir að tapa manni svona á síðustu metrunum. Ekki síst vegna þess að tölurnar komu frá þeirra höfuðvígi.
Ég met það svo að vinstri-grænir og borgarar hafi unnið stærsta sigra. Frammararnir eru örugglega sáttir. Samfylkingin orðin stærst, en þó hlýtur aðeins að svíða að lokatölur voru nokkuð verri en fyrstu tölur. Sjálfstæðisflokkurinn í tómu tjóni, enda virðist þeim ganga hrikalega illa að skilja að nýja menn þarf. Ungir menn eru ekki sama og nýir menn.
Kannski er þó kvennabylgjan einna merkilegasta fréttin. Þar líka eru sjálfstæðismenn úti að aka og fylgjast engan veginn með því sem er að gerast.
Jæja, nóg um stjórnmálin. Fengum okkur beikon og kanadískar pönnukökur í morgunmat og nú eru allir saddir og sáttir við lífið. Eldurinn í arninum yljar og Magga Blöndal hljómar í útvarpinu. Hvað þarf meira?
26. apríl 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
1 ummæli:
Kosningarnar fóru eins og búast mátti við en nú má segja að tími samfylkingarinnar sé komin og nú dugar ekkert hálf kák nú verða þeir að standa sig og gott betur enn það því næg eru verkefnin framundan.
Kandadískar pönnukökur hljóma vel,kannski ég hræri í skammt og búi bara til venjulegar,FYRIR MIG,því engin er heima í koanum nema Ally.
Elli
Skrifa ummæli