En fyrst smáljósmyndasnilli. Tinna Rut er í ljósmyndun í mynd- og handmennt í skólanum og er alltaf að taka myndir. Allt í einu verða til fullt af myndum af mér, en frekar sjaldan er ég með á myndum. Hér er til dæmis undirritaður allvígalegur, ekki satt?

En nóg um þetta. Á föstudaginn var keyrðum við að Rúakana-fossunum. Ekki í fyrsta sinn sem við komum þangað, en þegar vatn er í fossunum eru þeir stórkostleg sjón. Systkinin tóku sig vel út saman þar.
Hér er ein mynd tekin af ánni rétt fyrir sólarlag.

Var ég búinn að nefna að í Kúnene-ánni eru krókódílar? Hér er mynd sem ég tók seinna sama dag...
Svo var lagt af stað niður ána. Fyrstu flúðirnar voru tiltölulega auðveldar viðureignar. Við fengum nokkrar gusur yfir okkur og aðeins átti báturinn til að hallast, en þetta gekk nú allt vel.
Náttúran þarna er ægifögur. Þarna eru kolsvartir hamraveggir á báða kanta, en svo inn á milli koma gulllitaðar strendur og stórkostlegur trjágróður. Það er eiginlega ómögulegt að lýsa þessu, maður verður að sjá þetta með eigin augum.
Eftir kannski klukkutíma siglingu var áð. Áningarstaðurinn var fullkomin baðströnd. Bogadregin strandlengja og aftur þessi gulllitaði sandur. Þegar við renndum að ströndinni, spurði leiðsögumaðurinn hvort við heyrðum ekki einhverjar drunur. Jú, ekki var laust við það. Já, sagði hann, þetta eru næstu flúðir - Dómsdagshylur! Þar með var ekki mikið hægt að slappa af yfir hádegismatnum.
Svo var lagt af stað í dómsdagshylinn. Búið var að undirbúa okkur, en þarna áttum við að snúa bökum saman, grúfa okkur niður og halda dauðahaldi í reipi sem strengt er hringinn í kringum bátinn. Ekki sleppa reipinu, hvað sem á dyni. Svo leggjum við af stað og báturinn tekur að dansa í flúðunum. Náunginn hrópar til okkar að grúfa okkur niður, en eitthvað var þetta lengi að síast inn í kollinn á okkur öllum. Nema hvað, báturinn tekur risadýfu með tilheyrandi hliðarveltu og gusugangi. Við Tinna Rut áttum fullt í fangi með að halda okkur um borð, en tókst þó. Hins vegar, þegar báturinn kemur upp úr dýfunni, þá vantar tvo fremstu farþegana. Par, sem hafði verið mjög kokhraust fyrir ferðina, breskur náungi og kona frá Púertó Ríkó. Sáum við þau skjóta upp kollinum aðeins neðar í ánni. Var nú róinn lífróður til að ná þeim og tókst það giftusamlega. Sem betur fer, því þarna eru stórhættulegir klettar rétt undir vatnsborðinu og því gæti þetta hafa farið illa. Konan fékk hálfgert áfall við þetta og var í góða stund að jafna sig.
En þetta voru síðustu flúðirnar og síðan var flotið í rólegheitum niður ána þar til komið var á áfangastað.
Ég hafði ekki verið viss um hvort ég ætti að leggja í þessa ferð, en núna er ég kominn með bakteríuna. Ef tækifæri gefst til að fara í aðra flúðasiglingu, þá mun ég grípa það hiklaust.
2 ummæli:
Þetta hefur verið hið mesta ævintæri og flúðasiglingarnar skemmtileg viðbót,við förum í eina slíka þegar þið komið til landsins. Krókudílar,ekki frínilegir og en ágætir til átu.
Ég vil koma á framfæri einn klassiskri setningu
" I'LL BE BACK"
Nei bara þetta með gleraugun!!!!!!!!!!!
Skrifa ummæli