30. júní 2013

Hjólatúrinn tók óvænta stefnu

Skömmu eftir hádegið lagði ég af stað í hjólatúr. Fór einn síðasta sunnudag og vildi ekki vera minni maður í dag. Þá hjólaði ég um sveitirnar hér í kringum borgina, en við búum í jaðri hennar. Í dag ákvað ég að hjóla innan borgarmarkanna. Var kominn með sirka leið í kollinn þegar ég lagði af stað. Markmiðið var að hjóla milli 20 og 25 kílómetra. Áætlaði ég sirka einn og hálfan tíma í þetta.

Í upphafi gekk vel. Á sunnudögum er frekar minni umferð en aðra daga, ja, a.m.k. fram að kaffileyti. Þá fara bílar að streyma inn í borgina í helgarlok. Því hef ég minni áhyggjur af umferð á þessum tíma sunnudags sem ég var á ferli.

Ætli ég hafi ekki verið kominn góða átta kílómetra þegar springur á hjólinu. Afturdekkið er orðið frekar vafasamt, en ég fresta alltaf fram í „næstu viku“ að kaupa nýtt dekk. Ég held ég hafi nuddast utaní beittan stein með þeim afleiðingum að gat kom á slönguna. En, ég reyni að vera við öllu búinn á þessum hjólaferðum, með bætur og einhver svona margfeldisreiðhjólaverkfæri. Svona verkfæri sem er einn hlutur, en hægt að umbreyta í allskonar sexkanta og ég veit ekki hvað og hvað. Margfeldisverkfæri. Gott orð.

Ég tek því afturhjólið af og fer að dunda mér í viðgerð. Hún gekk bara ágætlega og eftir kannski 15-20 mínútur var bótin komin á og bara eftir að pumpa í dekkið. Það gekk hins vegar ekki eins og í sögu. Ég er með einhverja svona handhægispumpu. Pumpu sem fer lítið fyrir og hægt að koma ofan í litla poka eða töskur. Hins vegar er ekkert handhægt við að pumpa með henni. Hún er svo stutt að hvert „pump“ hefur voða lítið að segja. Síðan ofhitnar hún hressilega þannig að erfitt er að halda utan um hana eftir 30-40 „pump“.

Ég sat því þarna við götukantinn, undir tré vel að merkja, og pumpaði og pumpaði. „Eitt hundrað pump í viðbót,“ hugsaði ég hvað eftir annað. Og pumpaði eitt hundrað „pump.“ Og svo eitt hundrað í viðbót. Og enn einu sinni eitt hundrað...

Þið fattið.

Þetta var farið að taka hressilega á. Svitinn bogaði af mér, enda þokkalegasti hiti svona um miðjan daginn. Örugglega 25 gráður á vin okkar Selsíus. Smátt og smátt varð dekkið aðeins stífara. Að lokum lagði ég af stað. Ætli viðgerðin, með öllu, hafi ekki tekið í kringum 40 mínútur.

Dekkið var nú engu að síður frekar lint, svo ég fór í hægara lagi. Vildi ekki eiga á hættu að skemma gjörðina, ef mikið högg kæmi á hana. Þetta er nefnilega einhver eðalgjörð, komst ég að um daginn. Ég hafði ekki hugmynd um það, en það eru til fyrirtæki sem sérhæfa sig í framleiðslu reiðhjólagjarða. Þá vitið þið það.

Ætli það hafi ekki verið fimm kílómetrum síðar sem dekkið sprakk aftur. Kannski ofsögum sagt að það hafi hvellsprungið, en þó þannig að loftið hvarf úr því í einu vettfangi.

Barasta „PÚFF!“ Og allt loft úr dekkinu.

Ekki voru falleg orð sem þutu um kollinn á mér. Ekki þó blótsyrði, enda veit sonur minn ungur að ég blóta ekki. En það eru nú til nokkur kröftug orð sem skilgreinast ekki sem blót.

Fyrir þá sem þekkja til var ég rétt við Vegamótahótelið (Crossroads). Enn slatti eftir heim. Svo ég kippi hjólinu aftur af og fer að toga út slönguna. Uppgötva þá að ventillinn hafði hreinlega rifnað af slöngunni.

Takk fyrir! Maður gerir ekkert við svoleiðis.

$#!# kínverskt slöngudrasl!

Ég sá mína sæng upp reidda. Tróð slönguræflinum inn í dekkið, smokraði dekkinu upp á gjörðina, setti hana aftur á hjólið og gerði það sem Malavar gera alltaf.

Labbaði af stað.

Og labbaði og labbaði þar til ég kom heim. Fjórum kílómetrum síðar. Þá hafði ég verið, samkvæmt staðsetningartækinu mínu, einn klukkutíma og fjörutíu mínútur á ferð og ríflega fimmtíuogfimm mínútur í kyrrstöðu. Meðalhraði ríflega níu kílómetrar á klukkustund. Heildarvegalengd var 17 komma þrír kílómetrar.

Svosum ágætis dagsverk, líkamsræktarlega séð. Og öll pumpunin! Maður minn. Þessar 55 mínútur ekki-á-ferð, voru ekki afslöppunarmínútur. Engan veginn.

En núna er ég kominn heim. Sit bak við hús. Timbrið á grillinu búið að kolagerast og marineruð lambarif komin ofan á. Einhvers staðar á ég rauðvín.

Nú á ég skilið að gera vel við mig í mat og drykk.

23. júní 2013

Afraksturinn!

Þá er bakstri lokið þessa helgina. Svolítið moj í kringum þetta allt saman, en nú er þessu lokið. Og afraksturinn... jú, hann var fínn.

Svona litu rúllurnar út áður en þær fóru inn í ofninn.

Og hér eru tvö nýbökuð brauð komin á disk.

Þau smakkast betur en úr bakaríinu, svei mér þá.

Svo er að skella nokkrum í frystipoka og sjá hvernig þau smakkast síðar í vikunni. Ég held það sé víst að ég þurfi ekki að kaupa mér brauð næstu daga.

 

22. júní 2013

Brauðgerðarlist

Þá er ég orðinn einn í kotinu. Eiginkona og sonur okkar ungur farin til Íslands. Líða víst sjö vikur eða svo áður en þau koma til baka. Í það minnsta segir hið óskeikula exell mér að í dag séu 47 dagar þar til þau lenda í Lílongve á nýjan leik.

Og hvað á svo að gera í einverunni?

Einvera af þessu tagi líkist svolítið áramótum í því að maður fyllist einhverri uppblásinni þörf að gera eitthvað merkilegt. Að setja sér einhver háleit markmið sem skal ná á meðan á einverunni stendur.

Að sjálfsögðu er ég með langan lista. Hvað annað?

Eitt af því sem mig langar til að bæta mig í er brauðgerð. Hér í Lílongve eru brauðgerðarmenn ekki miklir listamenn. Hvítt brauð og brúnt fæst í búðum, en ekki mikið annað. Reyndar hræ-billeg, ekki nema 60-70 krónur brauðhleifurinn.

Reyndar er brauðgerð ekki nýtt áhugamál. En einhverra hluta vegna hefur brauðgerð aðeins vaxið mér í augum í gegnum tíðina. Hnoðun á deigi hefur mér aldrei þótt skemmtileg. Hreinlega bara erfið. Fyrir einhverjum árum keyptum við okkur brauðgerðarvél. Það þótti mér lúxus. Vatni, hveiti, geri og einhverju smálegu öðru hent í þar til gert ílát og svo bara ýtt á takka. Voilà, eftir þrjá tíma er komið ilmandi brauð. Auðvitað er síðan algjör snilld að tímastilla brauðgerðarvélina. Henda hráefninu ofan í brauðgerðartunnuna, stilla tímarofann, og svo þegar vaknað er að morgni þá bíður nýbakað brauð í eldhúsinu.

Ég hef tekið skorpur með þessa vél (ha-ha, föttuðuð þið þennan - skorpur...) en brauðin hafa verið misjöfn. Svo er lagið á brauðinu ekki gott. Einhvern veginn alltof stórt og klossað um sig og erfitt að skera fallegar sneiðar.

Einhvern tímann fyrir ekki löngu þá áttaði ég mig á því hversu frábærlega KitchenAid hrærivélin okkar hnoðar deig. Ekkert mál. Því hef ég prófað að setja í eitt og eitt brauð undanfarið. Með fínum árangri. Hér til hliðar er afrakstursmynd sem ég setti um daginn á fésbókina, svona í smámontkasti.

Hins vegar finnst mér fúlt hvað heimatilbúin brauð eru fljót að verða hörð og þurr. Frábær að borða ný. Allt í lagi að borða þau næsta dag eftir bökun, en ekki eru þau góð á öðrum degi. Ekki er þetta svona með búðarbrauðin. Þau endast lengur. Oft miklu lengur. Enda örugglega full af rotvarnarefnum. Bara þar er nú fín ástæða til að baka sín eigin brauð.

Draumurinn er að baka brauð um helgar sem hægt sé að borða út vikuna. Því er ekki nóg að vera flinkur að baka, heldur þarf að spá í frystingu og afþýðingu. Því er ég nú að lesa mér til um brauðgerð og er núna tilbúinn að gera tilraunir.

Ég bý að því að hafa tvær bækur við hendina. Önnur er Brauð- og kökubók Hagkaups, sem sjálfur Jói Fel leggur nafn sitt við. Hún er ágæt, en þó fæ ég aðeins á tilfinninguna að flýtir hafi valdið smámistökum og ósamræmi.

Hin bókin er eftir sænskan brauðgerðarmann - reyndar súkkulaðigerðarmaður líka - Jan Hedh heitir hann. Bókin er á sænsku og heitir einfaldlega Bröd. Mynd af forsíðu bókarinnar er hér til hægri. Doddi gaf mér þessa bók fyrir einhverjum árum. Hann er jú óþreytandi við að sænskuvæða mig. Erfitt verk, en ekki gefst hann upp.

Gamla dönskukunnáttan og þýðingarsíða Google gera að verkum að ég get stautast í gegnum þessa bók. Verð ég að viðurkenna að þessi bók stendur Hagkaupsbókinni mun framar. Allskonar hollráð eru veitt, sum sem ég hefði aldrei látið mér detta í hug.

Tilraun helgarinnar að þessu sinni, úr sænsku bókinni, er ítalskt brauð sem kallast Cornetti. Útbjó ég áðan fordeig sem fær að súrna aðeins í dag og nótt. Skv. bókinni er þetta bráðnauðsynlegt til að ná „ítalska bragðinu.“ Svo á morgun held ég áfram með deigið og baka brauðið. Reyndar eru þetta mörg smábrauð. Ef ég skil sænskuna rétt...

Þetta er fyrsta sinn sem ég ræðst í tveggja daga bakstur og er ég spenntur að sjá hvernig til tekst.

18. júní 2013

Sumir lenda í ræsinu

Í gær fórum við út að borða. Enda var jú lýðveldisdagurinn og því við hæfi að gera sér dagamun. Kínamatur á einu af flottustu hótelum bæjarins varð fyrir valinu. Gullni páfuglinn, heitir það, hvorki meira né minna.

En, ég ætlaði nú ekki að skrifa um kínverska veitingastaðinn.

Nei, ég ætlaði að skrifa um það sem gerðist þegar heim var komið.

Núna leggur maður bílnum varlega í bílskýlinu, því litlu hvolparnir - fjögurra vikna - eru farnir að flækjast svolítið um. Ekki vill maður nú hafa á samviskunni að keyra yfir þessi litlu grey. Mér tókst að leggja áfallalaust að þessu sinni. Enda fór Rúnar Atli út áður en ég lagði til að tryggja að hvolparnir væru ekki fyrir.

En þegar við komum út úr bílnum - ekki gleyma að það er niðamyrkur eftir klukkan hálfsex þessa dagana - þá heyrðum við óttalegt væl í hvolpunum. En áttuðum okkur ekki alveg á hvaðan það kom. Svo rennur Rúnar Atli á hljóðið og þá kemur í ljós að einn hvolpanna hafði stungið sér ofan í niðurfallið sem tekur vatnið úr eldhúsvaskinum.

Ég sting höndinni ofan í niðurfallið og finn eitthvað mjúkt viðkomu. Sá ekki neitt í myrkrinu. Vonaði að þetta væri nú ekki rotta eða eitthvað svoleiðis kvikindi... Nei, heyrði nú í hvolpnum, svo ég vissi nú að þetta væri hann. Dró vesalinginn upp, en hann var hálf dasaður greyið.

En, ég heyrði enn væl upp úr niðurfallinu. Dró upp farsímann til að fá smábirtu og sá glitta í ljósa hvolpinn þarna ofan í. Hann hafði sem sagt verið undir hinum í rörinu. Ég lét því höndina vaða ofan í á nýjan leik og náði þessum upp. Hann var löðrandi blautur og lyktaði eins og... ja ... eins og eitthvað úr ræsinu. Og var eiginlega varla ljós á litinn lengur.

Haldiði ekki að ég heyri svo enn meira væl upp úr rörinu!

Ég rýndi ofaní en sá ekkert. Stökk því inn í eldhús og náði í ennisljós sem var þar í skúffu. Kíki svo aftur ofan í. Sé ég þar ekki hvolpsaugu rétt yfir vatnsborðinu. Rétt náði að grípa utanum höfuðið á þessum hvolpi og dró hann upp. Eiginlega með hálfgerðu hálstaki. Sá var ógeðslegur ásýndar. Fosslak af honum drullan og lyktin, maður minn, sú var ekki góð.

Fjórði hvolpurinn hafði haft vit á að elta ekki systkini sín þarna ofaní, svo nú tók við hreinsunarstarf. Dýfðum vesalingunum ofan í volgt vatn í eldhúsvaskinum og margsápuðum þá. Það gekk erfiðlega því það var einhver olíubrák á þeim, en að lokum tókst þetta.

Síðan lokuðum við þá inni í þvottahúsinu, ásamt móðurinni, til að þeir færu sé ekki frekar að voða, og einnig til að þeim væri þolanlega heitt. Svo kíktum við nokkrum sinnum á þá síðar um kvöldið.
Í morgun voru þeir sprellikátir, svo þeim virðist ekki hafa orðið meint af volkinu.

En, þegar ég skoðaði aðstæður betur, þá áttaði ég mig á því að það vantaði grindina ofan á niðurfallið. Þess vegna duttu greyin bara ofan í, hvert á fætur öðru. Sá fyrsti hefur náð að snúa sér við, því hausinn fer alltaf á undan hjá þeim, og síðan hefur hann haft fótfestu í fyrstu beygju á rörinu. En bara rétt haft hausinn uppúr. Svo hinir ofan á.

Alveg með ólíkindum að þeir skuli hafa haft þetta af. Við vitum auðvitað ekki hversu lengi þeir voru þarna ofan í.

Hér er mynd af niðurfallinu, ásamt fæti Rúnars Atla. Núna er komin grind, eins og vel sést. Var fyrsta verk í morgun að kaupa svoleiðis. 


En, sem betur fer eru hvolparnir hressir. Hér er Rúnar Atli með tvo þeirra...


... og svo hina tvo.


Allt er gott sem endar vel.

Og þá sérstaklega ef maður endar ekki í ræsinu...


17. júní 2013

Enn eitt beltapróf

Eins og margoft hefur komið fram í pistlum mínum, þá leggur sonurinn stund á karate. Finnst mér virðingarvert hversu stífa stund hann leggur á þessa íþrótt. Æfir yfirleitt þrisvar í viku og skemmtir sér vel.

Nú um helgina fór fram beltapróf. Svoleiðis próf eru haldin þrisvar á ári hér. Núna náði guttinn sér í grænt belti. Er þar með að ljúka sjöttu gráðu (6 kyu) og hálfnaður upp í gegnum kyu stigann, en á toppnum þar er svart belti. Þá hefst frekara stigakerfi innan svarta beltisins, en ég er nú ekki enn farinn að velta því kerfi fyrir mér. Ekki ennþá.

Einbeiting er mikilvæg í karate. Á þessum árum sem guttinn hefur æft karate hef ég séð mikla breytingu á stílnum og ákveðni í öllum hreyfingum. Kennarinn er líka endalaust að benda nemendunum á eitthvað sem betur má fara. T.d. í svona stöðu eins og hér til hægri, er algengt að hægri hendin sígi aðeins og bendi því ekki fram heldur skáhallt niður. Kennarinn er óþreytandi á að leiðrétta svona.

Eins hvort lófinn á hinni hendinni vísi upp eða til hliðar. Allt þetta skiptir máli. Hvert snúa tærnar? Endalaust nostrar kennarinn við þá og smátt og smátt síast þetta inn.

En þarna sjáið þið að Rúnar Atli er með appelsínugult belti með grænni rönd. Eftir þetta beltapróf er hann kominn með algrænt belti.

Ætli hafi ekki verið um 50 krakkar sem þreyttu beltaprófið að þessu sinni. Langflestir eru tiltölulegir byrjendur með hvít og rauð belti. Svo smám saman fækkar krökkunum eftir því sem beltin verða hærri, enda er karate ekki öðrum vísi en annað. Áhuginn er oft mikill til að byrja með en svo þegar nýjabrumið hverfur þá minnkar áhuginn. Enda er margt annað sem hægt er að gera. Lílongve er ekki frábrugðin öðrum stöðum þar.

Rúnari Atla finnst sport í því að vera oft í öftustu eða næst öftustu röð þegar hópæfingar eru. Þá eru byrjendurnir fremst í salnum og þeir reynslumeiri aftar. Á þessu beltaprófi var hann í öftustu röð og það finnst honum skemmtilegt. Svo fá þessir reynslumeiri oft að gera æfingar fáir í hóp og það finnst honum einnig gaman.

Hér er mynd af hálfri öftustu röðinni.


Í karate er mikið sparkað. Hér er kennarinn, sensei George,  að leyfa Rúnari Atla að láta ljós sitt skína í spörkum. Kennarinn gleymdi sparkvettlingunum heima, en lét það ekki slá sig út af laginu. Náði í flip-flops, eins og opnir plastskór, töfflur, kallast hér og lét krakkana sparka í þá.

Hér er flott spark í uppsiglingu:


... og svo smellur hátt í skónum.


Ekki má gleyma að æfa vinstri fót líka.


Og svo ein sparkmynd til viðbótar að lokum.
 

Jafnvægi virðist ekki vandamál á þessum aldri.

Svo er æfing á eftir. Skiptir engu þótt það sé lýðveldisdagur Íslands. Rúnar Atli ætlar að mæta til að sjá hvort eitthvað verði öðrum vísi að vera með grænt belti. Þetta verður síðasta æfing fyrir Íslandsferð. Innst inni veit ég að hann vonar að enginn mæti með hærra belti en hann.

Þá er víst skemmtilegast á æfingu.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...