Fyrir einhverju síðan fékk ég þá flugu í höfuðið að smíða rúm handa honum. Ég eyddi nokkrum kvöldum á veraldarvefnum og fann loks teikningu af fínu rúmi og fjárfesti í leiðbeiningunum. Síðan lá leiðin í timburverslun og efnið keypt. Frá því þetta var er liðinn nokkur tími. Hmm, ég myndi ekki mæla hann í dögum og ekki heldur vikum. Ætli
séu ekki einhverjir mánuðir síðan verkið hófst.
En nýlega fór allt í einu að komast skriður á málin. Höfum við Rúnar Atli eytt góðum hluta kvölda í þessum mánuði í bílskúrnum að dunda okkur við þetta. Hann var nú ekki alltof sáttur þegar einhver hávaðastarfsemi var í gangi. Þá vildi hann frekar leika sér í dótinu sínu. En þegar kom að málingarvinnu, þá var hann til í að hjálpa.
Tinna Rut átti það stundum til að kíkja á okkur, en eins og sést þótti henni ekkert sérstaklega spennandi að horfa á okkur.

Jafnskemmtilegt og horfa á málningu þorna, gæti hún verið að hugsa.
En svo fékk hún myndavélina í hendur og það fannst henni gaman. Hér erum við feðgarnir á fullu í málningarvinnunni. Höfum engan tíma til að líta upp.

Syninum fannst málingarvinnu eitthvað það skemmtilegast sem hann hefur gert og náði hann að mála stóran hluta af afskurðinum. Bar hann sig fagmannlega við þetta. Reyndar tókst honum í eitt skipti að sulla slatta af málningu yfir fótinn á sér, en það kvöldið var hann berfættur. Var hann eins og með eldrautt naglalakk í nokkra daga þangað til ég sá aumur á honum og þvoði honum upp úr terpentínu.

Svo skarst auðvitað Tinna Rut í leikinn...


Já, bílarúm var það, hvorki meira né minna. Ég er ósköp ánægður með útkomuna. Alltaf gaman þegar tekst að gera eitthvað sem vekur ánægju og gleði hjá börnunum.
Sængurfötin eru síðan Leiftur McQueen og Krókur - hvað annað?

Ekki var mikið mál að koma drengnum í rúmið í kvöld. Vonandi sefur hann vel fyrstu nóttina.