25. febrúar 2007

Þessir pabbar

Fyrir einhverjum dögum vorum við í bíltúr, ég, Tinna Rut og Rúnar Atli. Álpuðumst við inn í hverfi eitt sem ég hef bara aldrei komið inn í. A.m.k. man ég ekki eftir því. Þetta er íbúðahverfi með kannski tveimur hverfismatvöruverslunum, svo það hefur aldrei gefist ástæða til.

Nema hvað, þarna eru götur skírðar eftir eyjum. Þarna er til dæmis Falklandseyjagata, og Kanaríeyjagata, Sandö gata - ætli þessi sandeyja sé ekki í Svíaríki? - Mæjorkagata og heilmikið af fleiri eyjanöfnum.

Auðvitað er þarna Íslandsvegur, hvað annað? Besta eyja í heimi, skárra væri það nú ef hún ætti ekki fulltrúa þarna. Ég vissi reyndar af þessu og þegar ég fattaði í hvaða hverfi ég var fór ég að svipast um eftir þessum vegi. Fann hann að lokum.

Tinnu Rut fannst fullmikið þegar ég stöðvaði við götuskiltið og skrúfaði niður rúðuna. Þegar ég síðan dró upp farsímann til að taka mynd, þá var henni allri lokið: „PABBI!!“ með þessum vantrúarásökunarhreimi sem einungis unglingar að tala við sína fáránlegu foreldra kunna að töfra fram. „Hvað er eiginlega að þér?“

Helst held ég hún hefði viljað sökkva niður í jörðina. Ég gat ekki skilið af hverju, þarna var ein manneskja á labbi, ekki einu sinni nálægt okkur.

En hér er sem sagt sönnunargagnið að Íslandsvegur sé til í Windhoek.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað ég vissi ekki af þessu þegar ég var þarna. En ég bið að heilsa Rúnari Atla Rúnari :) kveðja Hulda

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...