28. ágúst 2006

Ofurhugar!

Haldið var niður til strandar um helgina. Svíarnir sem voru hér í heimsókn fóru niðureftir á föstudeginum, með Tinnu Rut sem leiðsögumann. Auðvitað var farið á fjórhjól, hvað annað. Við Gulla og Rúnar Atli héldum síðan niðureftir á laugardeginum. Sá dagur, 26. ágúst, nefnist hetjudagurinn hér í Namibíu og er verið að minnast fallinna stríðhetja. Hvað um það, sum okkar strandarfara sýndum hetjuskap á þessum degi, enda ekki annað við hæfi.

Við fórum í svokallað „foefie“-brun (fbr. fúfí). Einhverjum manni í Swakopmund datt það snallræði í hug að tengja vírspotta á milli tveggja fjallstinda og bjóða fólki að renna sér eftir þessu. Auðvitað gegn greiðslu. Við fórum sem sagt af stað til að prófa þetta ævintýri. Doddi og Gulla reyndar gugnuðu á þessu. Jæja, þau sýndu reyndar aldrei neinn áhuga, verður að viðurkenna. Ég, Pía, Emil og Tinna héldum hins vegar á vit ævintýranna með bros á vör. Reyndar var brosað mismikið þegar verið var á leið upp fjallið. Þurftum við að feta einstigi með hyldýpi á aðra hönd, svo ekki mátti skrika fótur. Hafðist nú að komast á leiðarenda og þá gaf að líta. Þarna var vírinn vafinn utan um klett og síðan lá hann yfir að hinum tindinum, einn kílómetra í burtu. Ekki var stutt til jarðar, svo ekki sé meira sagt. Mun þetta vera lengsta svona strengjabrunbraut í allri veröldinni.

Mönnum leist þannig á að ég væri þyngstur... og átti því að fara fyrstur. Leiðsögumaðurinn sagði að það væri til að sjá hversu langt ég færi upp hinum megin, því þær upplýsingar kæmu sér vel fyrir samstarfsmenn hans sem höfðu þann starfa að hala okkur niður að ferð lokinni. Mig grunaði þó að hugmyndin væri sú að ef sá þyngsti kæmist á leiðarenda án þess að strengurinn gæfi sig þá væru hinir nokkuð öruggir.

Jæja, ég var beislaður upp og síðan látinn góssa af stað. Er skemmst frá að segja að eftir fyrstu metrana var þetta virkilega skemmtilegt. Þjóta þarna áfram á fleygiferð - frjáls eins og fuglinn. Nær maður víst 70-80 km hraða á klst. á þessari braut.

Tinnu Rut leist ekki á þetta, en lét sig engu að síður hafa það að fara niður. Myndin hér að neðan sýnir hana að ferð lokinni, með sólgleraugu að sjálfsögðu. Hún var ánægð að ferð lokinni, ekki síst þar sem Doddi frændi þorði ekki.

3 ummæli:

Davíð Hansson Wíum sagði...

Isss Doddi!

Nafnlaus sagði...

Ofurhuginn hún Tinna Rut:-)) Vil nota tækifærid og óska honum litla frænda mínum til hamingju med afmælid sem er í dag!!
Kvedja Maja og co í Norge

Nafnlaus sagði...

Ég varð að hjálpa Gullu að passa Rúnar og svo átti ég tvær dætur heima í svíþjóð sem þurfa pabba sinn :)

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...