7. júlí 2006

Grillað

Skömm er frá því að segja hversu slappur ég hef verið í
grillmenningunni frá því ég flutti hingað fyrir réttum sex mánuðum. Nú
er Namibía þvílíkt grillland, alltaf eru menn að kveikja í sprekum til
að glóðarsteikja mat og ekki er verra að setja pottrétt yfir eldinn og
sitja með bjór í þrjá tíma og horfa á mallið í pottinum. Nei, ég keypti
mér ekki grill fyrr en um síðustu helgi, takk fyrir.

Mér til málsvarnar verður að segjast að ekki er mjög gaman að grilla
fyrir sjálfan sig aleinan, því Tinna Rut mín er ekkert ofboðslega
spennt fyrir svona mat. Því hef ég ekki látið verða af þessu fyrr en
núna, þegar konan er mætt á svæðið. Fjárfesti í nákvæmlega eins grilli
og við áttum hér í den, svona fyrir þær fáu hræður sem mættu í heimsókn
og muna eftir þessu. Fínt grill, með snúningsklemmu og svo er krókur
fyrir pottinn, ef ég fer einhvern tímann útí svoleiðis ævintýri.

Ég grillaði sem sagt um síðustu helgi, en rak mig á það að um
hálfsexleytið er komið kolniðamyrkur og því erfitt að sjá hvernig
gengur með steikurnar. Þetta tókst nú ágætlega engu að síður, en
óþægilegt að elda eftir lyktarskyni einu saman. Svo grillaði ég aftur í
dag, en ekki fyrr en búið var að fjárfesta í nauðsynlegu grilláhaldi.
Nefnilega ennisljósi, halogenperuljós fest með teygju yfir höfuðið.
Gegt kúl, eins og mér skilst sé sagt. Þetta var þvílíkur lúxus að því
fá bara engin orð lýst. Nú lýsir maður, þó ekki gegnumlýsir, steikurnar
og veit upp á hár hvenær þær eru tilbúnar.

Þannig þið sem ætlið að mæta í heimsókn getið farið að hlakka til
safaríkra grillkræsinga.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég var i heimsókn fyrir nokkrum árum og ég fékk ekki grillað heima hjá ykkur:( bara þegar við vorum í ferðalögum. Það er kanski ekki sama hver er! En ég vona að við fáum að njóta af þessu fína grilli eftir rúmman mánuð þegar við komm.

Nafnlaus sagði...

Mynd af þessu takk

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...