Rúnar Atli hefur beðið lengi eftir þessum degi. Dagurinn sem aldrei virtist ætla að koma, rann loks upp. Sex ára afmælisdagurinn.
Allt við fimm árin var orðið þreytt og leiðinlegt. Meira að segja var bókstafurinn f farinn að fara í taugarnar á þeim litla. Þess vegna var ómögulegt að vera fimm ára.
En í dag, loksins. Loksins kom langþráða augnablikið. Sex ára.
Ég man ekkert eftir mínum sex ára afmælisdegi. Er það illskiljanlegt miðað við hversu miklu máli þessi áfangi skiptir son minn. En kannski er þarna eitthvað kynslóðabil sem gerir vart við sig. Eitthvað sem skipti engu í gamla daga er mjög mikilvægt í dag.
Auðvitað er þó eitt sem er alltaf mikilvægt á afmælisdegi. Pakkarnir!
Og að sjálfsögðu er skemmtilegt að opna:
Einn pakkinn var stærri en aðrir:
Playmó er aðaldótið og hefur verið lengi. Legókubbar eru reyndar líka í miklu uppáhaldi. En risaeðlu-playmó og safarí-playmó er mest leikið sér við í dag.
Svo var öllum þakkað fyrir. Þá náðist mynd af sætum systkinum:
Annars hefur vinsælasta setning afmælisbarnsins í dag verið: ,,Ég ræð í dag!'' Kemur þetta til vegna þess að fyrir einhverjum dögum var hann spurður hvað hann vildi í morgunmat á afmælisdeginum sínum. Íslenskar pönnukökur urðu fyrir valinu. Síðan var hann spurður hvað hann vildi í kvöldmat. Eftir nokkra umhugsun var svarið: ,,Kjúkling með beini.'' Á hann þar við kjúkling bakaðan heilan.
En, sem sagt, þessar spurningar urðu til þess að hann sá að auðvitað ætti hann að ráða öllu á afmælisdeginum sínum. Þó þurfti aðeins að skerpa á þessu við suma fjölskyldumeðlimi (les: föðurinn) eins og meðfylgjandi mynd ber með sér:
Sumir eru bara þyngri í taumi en aðrir.
En svo sá faðirinn að sér og bakaði afmælistertuna, sem drengurinn bað um. Kringlótt súkkulaðiterta:
Mikil átök voru við að blása á kertin. Blásið var af afli. Var atgangurinn þvílíkur að fætur voru á lofti eins og sést á meðfylgjandi mynd. En á öllum kertunum slökknaði í kjölfarið.
Gestir í dag voru fáir. Bara fjölskyldan. Þannig er að núna er skólafrí í Namibíu. Annarfrí milli annarrar og þriðju annar. Því var ákveðið að halda afmælisveislu handa bekkjarsystkinum um miðjan ágúst. Áður en skólinn færi í frí.
Var þetta fyrsta alvöru afmælisveisla Rúnars Atla og var því öllu tjaldað til. Fengum við inni á einu kaffihúsa bæjarins, en þar er mikið gert úr barnaafmælum. Nær 20 krakkar mættu í veisluna og skemmtu sér vel. Enda var stærðarinnar hoppukastali á svæðinu og svo var hægt að föndra undir leiðsögn. Hópurinn var stór:
Takið eftir fótabúnaðinum. Langflestir berfættir, en þannig finnst krökkum hér best að vera. Rúnar Atli er annar frá hægri í fremstu röð.
Auðvitað þurfti að baka tertu líka fyrir veisluna. Textinn á henni var á þýsku, því það er móðurmál stórs hluta barnanna og svo eru þau líka í þýskum skóla.
Þessi afmælisdagur mun ábyggilega lifa lengi í minningunni, enda skemmtilegur með afbrigðum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
1 ummæli:
Til hamingju með þennan stóra áfanga í dag Rúnar Atli.
kveðja úr Eyjabakkanum
Skrifa ummæli