Á leiðinni heim frá Vatnafellinu um daginn, þá kíktum við á sveitabæ sem heitir því ekki mjög svo þjála nafni Otjihaenamaparero.
Þvílíkur tungubrjótur. Og svo kvarta Namibíumenn yfir því lipra nafni Vilhjálmur...
Otjihaenamaparero er merkilegur staður. Þar fundust nefnilega risaeðluspor á öðrum eða þriðja áratug síðustu aldar. Eru spor þessi víst um 219 milljóna ára gömul. Aðeins.
Ríkti spenningur hjá Rúnari Atla yfir að sjá risaeðluspor. Ég var nú líka svolítið spenntur yfir þessu, enda höfum við feðgarnir horft nokkuð oft síðustu mánuði á kvikmyndirnar um Júragarðinn.
En það verður að segja eins og er að við urðum fyrir smávegis vonbrigðum. Sporin voru nefnilega alltof lítil fyrir okkar smekk. Þarna eru spor eftir tvær risaeðlutegundir. Sú fyrri nefnist smákollur og var víst ekki nema 1,4 metrar á hæð, fullvaxin. Það er ekki miklu hærra en Rúnar Atli. Sporin voru hins vegar miklu minni er spor Rúnars. Á myndinni sjást tvo spor, annað milli þumal- og vísifingurs Rúnars Atla og hitt efst í hægra horni myndarinnar.
Já, ekki mjög tilkomumikið, að okkur tveimur fannst. Þó er reyndar merkilegt að sjá sporaslóðina, en hún er um 30 metra löng.
Síðan fórum við að leita að sporunum eftir hina risaeðluna. Vonuðum við að þau spor væru nú eitthvað stærri. Hornnefja nefnist risaeðlan sem skildi þau spor eftir sig. Hún var nokkuð stærri en smákollurinn, gat víst verið nálega níu metrar frá nefi til hala.
Þrátt fyrir þessa miklu lengd, þá voru sporin nú ekkert rosalega stór. Við Rúnar Atli erum búnir að átta okkur á því að risaeðlur virðast hafa verið frekar smáfættar. Eins og sést af myndunum tveimur, þá er sporið ekkert svakalega mikið stærra en höndin á Rúnari Atla. Merkilegt hvernig níu metra flykki hefur haldið jafnvægi á ekki stærri fleti.
Sýnist okkur á öllu að „playmo“ risaeðlan sem fylgdi með í heimsóknina sé ekki í réttum hlutföllum hvað fótastærð varðar. Einnig erum við líka á því að sporastærðin sem sést í Júragarðinum sé nú frekar ýkt.
En þrátt fyrir vonbrigðin um „skóstærð“ risaeðlanna, þá er merkilegt að skoða þessi spor. Alveg þess virði. Í fyrsta lagi er ótrúlegt að þessi spor skuli hafa varðveist jafnvel og raun ber vitni. Síðan er jú gaman að reyna að gera sér í hugarlund hvernig dýralífið hafi verið í Namibíu fyrir 219 milljónum ára. Áreiðanlega myndum við ekki þekkja okkur um, svo mikið er víst.
Ó, og svo voru bæði smákollurinn og hornnefjan kjötætur, þ.a. við hefðum sjálfsagt reynt að láta lítið fyrir okkur fara...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Buðum fólki heim á laugardagskvöldið. Auðvitað var grillað, hvað annað? Grillið hefur varla fengið tíma til að kólna frá því það var keypt. ...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
1 ummæli:
Flottur bolur
Skrifa ummæli