20. júní 2017

Alvöru sumarfrí!

Þá á að taka almennilegt sumarfrí! Yfirleitt eru „sumarfríin“ okkar tekin um jólin og að mestu eytt á Fróni. En, ekki í þetta sinn. Nú er komið að sjö vikna fríi, hér og þar um Evrópu. Rúsínan í pylsuendanum verður í Lundúnum undir lok júlí. Ég skrifa kannski um það síðar. Ísland er auðvitað í Evrópu - þótt ekki í Evrópusambandinu sé - svo við komum þar við líka.

En, við lögðum af stað á sunnudaginn var. Flugum með Flugleiðum Katar frá Mapútó til Dóha og svo þaðan með sama flugfélagi til Arlanda flugvallar í Stokkhólmi. Við erum sem sagt í Svíþjóð núna og ætlum að vera hér í viku, eða svo.

Alltaf gaman á flugvöllum - að þessu sinni í Mapútó

Hér er svo ein flugvél frá Flugleiðum Katar
Eins og margir vita þá er smávegis diplómatískur taugastrekkingur í Mið-Austurlöndum og hefur Katar - að eigin sögn - lent í einelti nágranna sinna. Ég ætla nú ekkert að tjá mig um þau mál, nema að vegna þessa strekkings þá varð flugið okkar frá Mapútó til Dóha klukkustund lengur en annars. Í kringum níu tíma í stað um átta. Þarf að taka smá krók út af þessu veseni öllu. Í stað þess að flúga eins og rauða línan á myndinni hér að neðan, þá sýnir sú græna flugleiðina. En í staðinn var þá styttri bið á flugvellinum. Ævinlega að sjá björtu hliðarnar.

Neibb, rauða leiðin er úr sögunni í bili, en betri er krókur en kelda

Þrátt fyrir lengri leið þá var bara gaman í vélinni
Sumir voru nú þreyttir í Dóha, enda lentum kortér yfir eitt að morgni og flugum aftur af stað rétt fyrir klukkan átta sama morgun.

Ha, vakna?
En á leiðarenda komumst við.

Á Arlanda beið Dagmar Ýr eftir okkur, en hún kom frá Íslandi u.þ.b. 40 mínútum fyrr en við. Þar urðu fagnaðarfundir. Svo sóttum við bílaleigubíl og ókum til Oxelösund, þar sem Doddi mágur býr jú. Við ákváðum að forðast hraðbrautina og fórum lengri leið um sveitavegi, sem var gaman, enda Svíþjóð fallegt á að líta. Og við fundum húsið.

Húsið er sem sagt fyrir aftan póstkassann
Ekki er hægt að segja annað en við höfum sofið vært fyrstu nóttina í Svíþjóð, eftir langt ferðalag. Svo í dag var skroppið í bíltúr um sveitirnar, en ekki fyrr en búið var að fá sér hádegismat.

Stuð í hádeginu. Ellen er þarna líka en faldi sig - myndatökumótþróaskeið
Já, er þetta vinnan? Ég er veikur í dag...
Nei, nei, hann tók sér frídag.

Í alvörunni.

En eins og ég sagði - fallegt land hún Svíþjóð

Búsældarlegt og ægifagurt

Sumum leist nú reynda ekkert á blikuna...

Ha?! Á ég að vera í bíl með Dodda? Þykir foreldrunum ekkert vænt um mig??

... á meðan aðrir voru í sólskinsskapi.

Sko, sólgleraugun hjálpa til, látiði ekki svona
Dagurinn var fínn. Og er það reyndar enn. Sit núna úti á svölum með gin og tónik í glasi. Einhver að elda kvöldmat.

Hversu betra gæti þetta verið?

1 ummæli:

Jóhanna Á. Þorvaldsdóttir sagði...

Velkomin til Evrópu.
Gaman að lesa pistilinn um ferðalagið. Svíþjóð er mjög fallegt land að mínu mati. Þar hef ég oft verið og sérnámið mitt tók ég frá Stokkhólmi.
Bestu kveðjur til ykkar og njótið.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...